Látravík 2007

Látravík-Reykjarfjörður 2007.

1.dagur
Er við komum að Valgeirsstöðum, skála FÍ í Norðurfirði þann 26. ágúst var fremur þungbúið veður, súld og þoka. Svipað veður var að morgni 27. er við héldum af stað um kl. 11, með Reimari á Sædísinni, ágætis farkosti. Rúma tvo tíma vorum við að Hornbjargsvita. Aðeins hreyfing var en vel gekk að ferja fólk og farangur í land á tuðrunni. Þar í fjörunni tóku staðarhaldarar þau Una og Ævar á móti okkur. Dótið borið í land og dregið á vagni upp á bjargbrúnina, síðan borið nokkra metra í hús. Er við höfðum komið okkur fyrir og fengið okkur kaffisopa fór hópurinn að skoða Blakkabás og inn að Fjölum, sem eru miklir drangar, eða berggangar þar í fjörunni. FFA er með fullt fæði í slíkum lengri ferðum og fór því Guðrún ráðskona, og ég, Jakob fótaveikur fararstjóri, að huga að kvöldmatnum. Kjúklingur var á borðum og því varð nóg af beinum handa tófunni, en þær voru einar fjórar á svæðinu. Kvöldstemningin ljúf og notaleg en enn var þoka og rigning.

2. dagur.
Það var um fimm leytið um nóttina sem síðasta hellidemban kom. Hafragrautur, súrt slátur, hætt að rigna og þokunni að létta. Hvað er hægt að hugsa sér betra? Góður göngudagur.Gengið að Hornbæjunum og út á Hornið (Núpinn), yfir Miðfellið og á Kálfatinda. Á þessari göngu kom í hópinn Ólafur Halldórsson leiðsögumaður, hlaupandi úr Lónafirði. Af fjölskilduástæðum komst hann ekki fyrr. Veðrið var frábært. Eldhúsliðið rölti uppá hjallann í Kýrskarði og svo út á Axarfjall. Í kvöldmatinn var steiktur kjötbúðingur, kartöflumús og kúrekabaunir. Áttum ljúft kvöld eftir góðan dag.

3. dagur.
Eldhúslið og farangur “trússað” í Bolungarvík. Gönguhópurinn hélt af stað kl. 09.45(átti að fara kl 10) og gengu af ótrúlegum hraða upp Axarfjallið. Um Hrolleifsvík og Bjarnarnesið, Drífandis og Smiðjuvíkurbjarg og Smiðjuvíkina. Barðsvíkurósinn var þægilegur. Göngumannaskarð er bratt og langt og leiðinlegt niður Bolungavíkurmegin, enda var komin nokkur súld og hált í grasinu. Það er vel stikað. Kjöt og kjötsúpa var á borðum  eftir að menn höfðu komið sér fyrir. Þurftum að tjalda 4 tjöldum, aðrir komust í hús. Allir hressir um kvöldið og gaman að vera til. Óli fór um kvöldið inn á Bolungavíkurheiði og tók þar á mót Kötu konu sinni en hún hafði komið með bát í Hrafnsfjörð og gengið Bolungavíkurheiði í Bolungarvík.                                                   

4. dagur.
Nokkuð rigndi um nóttina og um miðjan dag var farið í göngu inn á  Bolungavíkurheiði þar til sá ofaní Hrafnsfjörðinn. Gekk á með skúrum. Talsverður hluti hópsins var heimavið í fjörulalli en fékk sína skúri líka. Pottréttur með salati og kartöflum. Notalegt kvöld, eins og til stóð.                                                                     

5. dagur.
Grautur og súrt slátur. Farið af stað út að Bolungavíkurófæru um kl.11. Ekki var fært fyrir fyrr en um kl. tvö. Eldhúslið og farangur “trússað” til Reykjarfjarðar. Stoppað í bænhúsinu í Reykjarfirði. Ósinn ekki til vandræða. Svo tók við Svartaskarð, ansi bratt. Þaraláturós sem stundum er erfiður rann nú í nokkrum hvíslum og var hvergi í hné. Uppi á Reykjarfjarðarhálsi var frjáls ferðahraði og komu þeir hörðustu hlaupandi að Gamla bænum. Þarna bættist alls 5 manns í hópinn, þar af voru tvær ráðskonur.Allir fóru í bað og laugina og voru þar til kvöldmatur kom. Norðlenska jólahangikjötinu gerð góð skil, með kartöflumús og grænum baunum.

6. dagur.
Grautur og súrt slátur þegar fólk vaknaði undir hádegið, en súld og þoka var og kærkomið að kvílast. Hópferð inn að jökulgarði og svo laugin og rölt um svæðið og notið tilverunnar. Skötuselspottréttur, grillað hrefnukjöt, grillaðir bananar og perur ásamt sósum og salötum, meiriháttar veisla.Við vorum með stórt tjald sem allir gátu setið í og matast, enda var norðangolan köld. Sátum inni í Gamlabæ og sungum og sögðum sögur. Er við fórum að sofa var ekki gott veðurútlit, norðanátt,þoka og súld.                               

7. dagur
Óli yfirgaf okkur undir morgun. Hljóp norður í Hornvík þar sem hann þurfti að hafa leiðsögn í hóp. Veðrið batnaði undir morgun og um fótaferð var komið hægviðri og óðum að birta. Eftir grautinn var ekki mikill áhugi fyrir ferð á Hrolleifborgina, löng ganga og erfiður ökudagur að morgni. Því varð Geirólfsnúpur fyrir valinu. Ósinn vaðinn við Kirkjuból. Kata elti hann Óla sinn en ætlaði ekki lengra en í Bolungavík og gista þar.Hópurinn fékk bjart á Núpnum og flott útsýni. Er þau komu til baka fóru þau í laugina, að sjálfsögðu, og svo  gekk RagnarJakobsson með okkur klukkustundar skoðunarferð og sagði frá búskaparháttum í Reykjarfirði. Grillaður svínahnakki,ostafylltar paprikur, kartöflur, salöt og sósa. Eftir að búið var að þvo upp og ganga frá var farið niður á sand og kveikt í stórum bálkesti. Þar var mikið sungið, flutt leikrit og sungið enn meir. Er við gengum til hvílu var enn blíðviðri og kvöldsól.

8. dagur
Það hvessti með morgninum og eftir grautinn var farið að taka niður stóru tjöldin, pakka dótinu og ganga frá í húsinu. Kl. 10.45 voru allir komnir um borð og lagt í´ann.. Golukaldi en orðin ein 4 vindstig er við komum í Norðurfjörð og urðu þá sumir ansi fegnir. Í ferðinni voru 33 og í Reykjarfirði bættust við 5 svo alls urðum við 38.                                             

Jakob Kárason