Ferðaáætlun Ferðafélags Akureyrar 2021

Ferðaáætlun Ferðafélags Akureyrar gildir fyrir eitt ár í senn. Allir eru velkomnir í ferðir félagsins hvort sem þeir eru félagar eða ekki. Börn og unglingar eru einnig velkomnir í fylgd með fullorðnum og þurfa foreldrar að meta hvort þeir treysta þeim í ferðirnar.  2021 voru settar inn í ferðaáætlun sérstakar barna- og fjölskylduferðir, fimm talsins, frítt er í þær ferðir og engin skráning.

Greiða þarf staðfestingargjald við bókun í lengri ferðir. Eftirstöðvar þarf að greiða í síðasta lagi tveimur dögum fyrir brottför. Staðfestingargjaldið fæst ekki endurgreitt nema ef ferð er felld niður. Nokkrar ferðir þarf að greiða að fullu tveimur dögum fyrir brottför. Skýringar eru í ferðaáætlun og þeim viðburðum sem þessar reglur eiga við. Aðrar ferðir eru greiddar við brottför. Afpöntun skal senda á netfangið ffa@ffa.is, ekki er nóg að hringja vegna afpöntunar.

Ferðafélag Akureyrar áskilur sér rétt til að leiðrétta villur, hætta við ferð, fresta ferð eða breyta áætlun vegna veðurs eða annarra utanaðkomandi aðstæðna, svo og ef ekki fæst næg þátttaka. Ef félagið fellir niður ferð fæst staðfestingargjald eða ferð endurgreidd.

Áætlaður tími ferða er aðeins viðmið og fer eftir hópnum og aðstæðum hverju sinni. Farþegar ferðast með félaginu á eigin ábyrgð. Ferðafélag Akureyrar tryggir hvorki farþega sína né farangur þeirra og hvetur fólk til að kynna sér eigin heimilistryggingar eða kaupa ferða- og slysatryggingu.

Í ferðum Ferðafélags Akureyrar þar sem sameinast er í bíla taka allir þátt í kostnaði með því að greiða bílstjóra hvers bíls fyrir sig.

Þátttakendur í ferðum FFA eru minntir á að virða gildandi sóttvarnareglur á hverjum tíma, gæta hreinlætis, hafa handspritt meðferðis, virða fjarlægðarmörk og taka tillit til ferðafélaga.

Veldu mánuð: Janúar Febrúar Mars Apríl Maí Júní Júlí Ágúst September Október Nóvember Desember

 

Janúar

1. janúar. Nýársganga Myndir 2019

Brottför kl. 13 á einkabílum frá FFA, Strandgötu 23.
Fararstjórn: Grétar Grímsson.
Þátttaka ókeypis.
Allir velkomnir út í óvissuna til að fagna nýju ári.

23. janúar. Hálsaskógur. Ferð fyrir alla á gönguskíðum skidi  

Brottför kl. 11 á einkabílum frá FFA, Strandgötu 23.
Fararstjórn: Ingvar Teitsson.
Þátttaka ókeypis.
Létt og þægileg skíðaganga fyrir alla sem ekki langar í bröttu brekkurnar. Hálsaskógur er fallegur skógur rétt norðan við Akureyri á leiðinni út á Gáseyri.

 

Febrúar

4. febrúar. Ferðakynning í Verkmenntaskólanum á Akureyri kl. 20

Ferðir félagsins kynntar í máli og myndum. Gestafyrirlestur. Kynning á útvistarvörum frá fyrirtækjum í bænum. Aðgangur ókeypis.

20. febrúar. Skíðastaðir - Þelamörk. Gönguskíðaferð skidi

Brottför kl. 10 á einkabílum frá FFA, Strandgötu 23.
Fararstjórn: Frímann Guðmundsson. 
Verð: 3.500/2.000. Innifalið: Fararstjórn.
Gengið frá Skíðastöðum út hlíðina á Sjónarhól. Þægilegt rennsli niður að Þelamerkurskóla. Ferð við flestra hæfi. Farið í heita pottinn ef vill (ekki innifalið). Vegalengd 10,5 km. Gönguhækkun 160 m. Nánar um ferðina og skráning hér.

27. febrúar. Vaðlaheiði. Gönguskíðaferð skidiskidi

Brottför kl. 9 á einkabílum frá FFA, Strandgötu 23.
Fararstjórn: Frímann Guðmundsson.
Verð: 3.500/2.000. Innifalið: Fararstjórn.
Af Vaðlaheiði er fagurt útsýni yfir Akureyri og Eyjafjörð. Svæðið er líka frábært til skíðagöngu og almennrar útivistar. Ferð við flestra hæfi. Nánar um ferðina og skráning hér.

 

Mars

13. mars. Kristnes - Sigurðargil. Gönguskíðaferð skidiskidi

Brottför kl. 8 á einkabílum frá FFA, Strandgötu 23.
Fararstjórn: Ingvar Teitsson.
Verð: 3.500/2.000. Innifalið: Fararstjórn.
Gengið er upp norðan við skógræktargirðinguna í Kristnesi og stefnt upp að Stóruborg. Greið leið norður á Stórhæð þar sem útsýni er gott. Þaðan hallar svo niður að Sigurðargili þar sem bílarnir bíða.Vegalengd um 9 km og hækkun um 440 m. Selflytja þarf bíla milli Kristness og Sigurðargils. Nánar um ferðina og skráning hér.

20.-21. mars. Gönguskíðaferð í Heiðarhús á Flateyjardal skidiskidiskidi   

Brottför kl. 9 á einkabílum frá FFA, Strandgötu 23.
Fararstjórn: Einar Bjarki Sigurjónsson og Christina Finke.
Verð: 12.500/9.500. Innifalið: Fararstjórn og gisting í skála.
Gangan hefst við afleggjarann út á Flateyjardal rétt hjá bænum Þverá í Dalsmynni. Gengið sem leið liggur út í miðjan Flateyjardal en dalurinn er frábært skíðasvæði og mjög fallegur í vetrarbúningi. Gisting í Heiðarhúsum. Við göngum sömu leið til baka. Vegalengd um 17 km hvorn dag með meðalhækkun um 250 m. Nánar um ferðina og skráning hér.

27. mars. Galmaströnd. Gönguskíðaferð skidiskidi Myndir

Brottför kl. 8 á einkabílum frá skrifstofu FFA, Strandgötu 23.  
Fararstjórn: Frímann Guðmundsson.
Verð: 3.500/2.000. Innifalið: Fararstjórn.
Gengið frá Syðri-Reistará og niður undir sjó. Síðan norður til Hjalteyrar og skoðað hvaðan við fáum heita vatnið. Svo út Arnarnesnafir og aftur að Reistará um Bjarnarhól. Vegalengd 12 km. Gönguhækkun lítil. Nánar um ferðina og skráning hér.

 

Apríl

10. apríl. Þorvaldsdalur. Gönguskíðaferð  skidiskidi 

Brottför kl. 9.30 á einkabílum frá FFA, Strandgötu 23.
Þátttaka ókeypis.
Ekið að Árskógarskóla. Gengið á gönguskíðum fram og til baka að skálanum Derri í vestanverðum Þorvaldsdal. Ferðin er farin í samvinnu við Ferðafélag Svarfdæla. Vegalengd 18 km. Gönguhækkun lítil. Nánar um ferðina og skráning hér.

17. apríl. Botnaleið. Gönguskíðaferð skidiskidiskidi

Brottför kl. 8 á einkabílum frá FFA, Strandgötu 23.
Fararstjórn: Björn Z. Ásgrímsson. 
Verð: 4.500/3.000. Innifalið: Fararstjórn.
Ekið til Siglufjarðar þar sem gangan hefst við gangamunna Héðinsfjarðar-ganga. Síðan er skíðað inn Skútudal og í Hólsskarð. Áfram er farið um Héðinsfjarðarbotn á milli Ámárhyrnanna fremri og neðri þar sem er fallegt útsýni yfir Héðinsfjörð. Síðan er komið fram á Möðruvallaháls þar sem er víðsýnt um Ólafsfjörð. Þægilegt rennsli er niður Skeggjabrekkudal. Gangan endar við golfvöllinn á Ólafsfirði. Vegalengd 19 km. Gönguhækkun 630 m. Nánar um ferðina og skráning hér.

24. apríl. Jógaferð í Garðsárdal  Nýtt

Brottför kl. 13 á einkabílum frá FFA, Strandgötu 23.
Fararstjórn: Þuríður Helga Kristjánsdóttir og Tinna Sif Sigurðardóttir.
Þátttaka ókeypis.
Ekið fram í Garðsárdal. Létt ganga um Garðsárreit þar sem þátttakendur nota skilningarvitin til að dýpka upplifun sína af náttúrunni. Gangan fer að mestu fram í kyrrð þar sem tækifæri er veitt til að rækta sál og líkama í fallegri náttúru Eyjafjarðar með gönguhugleiðslu ásamt núvitundar- og öndunaræfingum. Ferð við flestra hæfi. Nánar um ferðina og skráning hér

 

Maí

1. maí. Súlur 1143 m. Göngu- eða skíðaferð   skidiskidiskidi Myndir 2013

Brottför kl. 8 á einkabílum frá FFA, Strandgötu 23.
Fararstjórn: Bóthildur Sveinsdóttir.
Þátttaka ókeypis.
Árleg ferð FFA á bæjarfjall Akureyrar. Gengið er eftir merktri gönguleið á fjallið. Af Súlum er afar fallegt útsýni. Göngubúnaður miðast við færi og aðstæður.
Vegalengd 6,5 km hvor leið. Gönguhækkun 880 m. Nánar um ferðina og skráning hér

8. maí. Heljardalsheiði. Gönguskíðaferð skidiskidiskidi Nýtt

Brottför kl. 8.45 á einkabílum frá FFA Strandgötu 23.
Fararstjórn:
Þátttaka ókeypis.
Gangan hefst við bílastæði neðan Atlastaða í Svarfaðardal. Farið yfir göngubrú á Skallá, gengið fram Neðri-Hnjóta að rótum heiðarinnar og upp Möngubrekkur, allt að Stóruvörðu þar sem skáli ferðafélagsins stendur á sýslumörkum. Þar er áð og nesti snætt. Síðan er haldið aftur til byggða. Greiða þarf aðstöðugjald í Heljuskála. Ferðin er farin í samvinnu við Ferðafélag Svarfdæla. Vegalengd 16 km. Gönguhækkun 685 m. Nánar um ferðina og skráning hér.

15. maí. Fuglaskoðunarferð í Mývatnssveit Myndir 2012

Brottför kl. 8 í rútu frá FFA, Strandgötu 23.
Fararstjórn: Jón Magnússon og Sverrir Thorstensen.
Verð: 11.000/9.000. Innifalið: Fararstjórn og rúta. 
Árleg fuglaskoðunarferð FFA undir leiðsögn kunnáttumanna og að þessu sinni liggur leið okkar í Mývatnssveit og víðar. Fararstjórar velja þá staði sem vænlegastir eru til fuglaskoðunar á þessum tíma. Nánar um ferðina og skráning hér.

19. maí. Fuglaskoðun í Naustaborgum (barna- og fjölskylduferð)

Brottför kl. 17 á einkabílum frá FFA, Strandgötu 23.
Fararstjórn: Jón Magnússon og Sverrir Thorstensen.
Þátttaka ókeypis.
Í maí er vorið að vakna og rétti tíminn til að skoða fuglana okkar. Í fuglaskoðunarferðinni ætlum við að reyna að sjá og heyra eins margar tegundir og mögulegt er og kenna ykkur að þekkja sem flesta fugla bæði staðfugla og farfugla. Tveir skrýtnir og skemmtilegir fuglakallar ætla að leiðbeina okkur við skoðunina. Gott er að hafa með sér kíki og klæða sig eftir veðri. Ferðin tekur u.þ.b. 2 klst. Nánar um ferðina hér.

22. maí. Reistarárskarð - Flár. Gönguskíðaferð skidiskidiskidi 

Brottför kl. 8 á einkabílum frá FFA Strandgötu 23.
Fararstjórn: Vignir Víkingsson.
Verð: 3.500/2.000. Innifalið: Fararstjórn.
Ferðin hefst við Freyjulund við Reistará. Stigið á skíðin í skarðinu og sveigt upp á Flár, hábungu fjallsins. Gengið suður eftir fjallinu eins og aðstæður leyfa og til baka norður í skarðið. Vegalengd 20 km. Gönguhækkun 950 m. Nánar um ferðina og skráning hér.

29. maí. Hjóla- og gönguferð í Mývatnssveit Myndir 2015

Brottför kl. 8 á einkabílum frá FFA, Strandgötu 23.
Fararstjórn: Stefán Sigurðsson og Ingimar Árnason.
Verð: 3.500/2.000.  Innifalið: Fararstjórn og flutningur á hjólum á sérhönnuðum kerrum.
Hjólað verður rangsælis umhverfis vatnið. Í leiðinni verður gengið á Vindbelg og Hverfell. Ferðinni lýkur í Reykjahlíð. Vegalengd 42 km. Gönguhækkun: Hverfell 140 m og Vindbelgur 250 m. Nánar um ferðina og skráning hér.

 

Júní

5. júní. Málmey: Saga, náttúra og menning  Nýtt

Brottför kl. 8 á einkabílum frá FFA, Strandgötu 23.
Fararstjórn: Herdís Zophoníasdóttir.
Verð: 21.500/20.000. Innifalið: Fararstjórn, sigling og leiðsögn.
Ekið er til Hofsóss þaðan sem siglt er út í Málmey með Drangey Tours. Fjölbreytt fuglalíf er í eynni, merkileg saga og náttúra. Gengið um eyna í um tvo tíma í fylgd staðkunnugs leiðsögumanns. Farið verður í útsýnissiglingu að Þórðarhöfða þar sem er stórkostlegt stuðlaberg og Drangey er einnig í sjónmáli. Ferðin tekur 7-8 tíma. Hámarksfjöldi í bátinn er 20 manns. Nánar um ferðina og skráning hér.

12. júní.  Grasárdalshnjúkur 1277 m.  

Brottför kl. 8 á einkabílum frá FFA, Strandgötu 23.
Fararstjórn: Una Þórey Sigurðardóttir.
Verð: 4.500/3.000. Innifalið: Fararstjórn.
Ekið er að Reykjum í Hjaltadal í Skagafirði þar sem gangan hefst og endar. Gengið fram Grjótárdal og upp Fremri-Grasárdal og þaðan á topp Grasárdalshnjúks. Til baka yrði farin sama leið eða niður í Ytri-Grasárdal og Grjótárdal að Reykjum. Ægifagurt útsýni er af hnjúknum. Vegalengd alls 14-16 km. Gönguhækkun um 1060 m. Nánar um ferðina og skráning hér.

13. júní. Gönguferð í Mývatnssveit (barna- og fjölskylduferð)

Brottför kl. 13 á einkabílum frá FFA, Strandgötu 23.
Fararstjórn: Herdís Zophoníasdóttir.
Þátttaka ókeypis. Ef farið verður í Fuglasafn Sigurgeirs þarf að greiða aðgangseyri fyrir börn 7 ára og eldri.
Ekið verður austur í Mývatnssveit. Gengið á Hverfjall sem er skemmtileg ganga fyrir börn, frábært útsýni er af fjallinu. Tröllin í Dimmuborgum heimsótt og / eða Fuglasafn Sigurgeirs þar sem hægt er að skoða fuglana í nálægð og heyra hljóð þeirra. Gönguhækkun tæplega 400 m. Ferðin tekur u.þ.b. 4-5 klst. Nánar um ferðina hér.

19.-24. júní. Gönguvika FFA:

Sjá nánar á ffa.is

19. júní.  Sumarsólstöður á Múlakollu 970 m. Myndir 2012

Brottför kl. 20 á einkabílum frá FFA, Strandgötu 23. 
Fararstjórn: Einar Bjarki Sigurjónsson og Christina Finke.
Verð: 3.500/2.000. Innifalið: Fararstjórn.
Gengið upp á Múlakollu frá gamla Múlaveginum og upp dalinn norðan Brimnesár. Vegalengd alls 8 km. Gönguhækkun 930 m. Nánar um ferðina og skráning hér.

20. júní. Sólstöðuganga í Hrísey Nýtt

Brottför kl. 18.45 á einkabílum frá FFA, Strandgötu 23. Ferjan fer kl. 19.30 frá Árskógssandi.
Fararstjórn: Jóhannes Áslaugsson.
Verð: Samkvæmt gjaldskrá ferjunnar.
Gengið verður um þorpið með staðkunnugum leiðsögumanni. Síðan er haldið norður eftir eynni að vitanum þar sem verður áð. Ferjan tekin til baka kl. 23.00. Nánar um ferðina og skráning hér.

21. júní. Fossaganga I: Þverárgil í Eyjafirði Nýtt

Brottför kl. 19 á einkabílum frá FFA, Strandgötu 23.
Fararstjórn: Svavar A. Jónsson.
Verð: 2.000/1.500. Innifalið: Fararstjórn.
Séra Svavar hefur gefið út bókina „Gljúfrabúi og giljadísir“ um fossa í nágrenni Akureyrar og mun segja frá henni í byrjun þessarar fyrstu ferðar.
Í framhaldinu verður haldið að Þverárgili í Eyjafirði, Þverá efri. Þar leiðir Svavar göngu upp með gilinu þar sem hægt er að sjá nokkra fallega fossa þar á meðal Foss í Mjaðmá og Litla-Goðafoss. Ferðin tekur 2-3 tíma og er einhver hækkun upp með gilinu til að sjá fossana.
Nánar um ferðina og skráning hér.

22. júní. Fossaganga II: Fossárgil við Þelamörk Nýtt

Brottför kl. 19 á einkabílum frá FFA, Strandgötu 23.
Fararstjórn: Svavar A. Jónsson.
Verð: 2.000/1.500. Innifalið: Fararstjórn.
Svavar leiðir þátttakendur um Fossárgil við Þelamörk. Í því gili er meðal annars hægt að sjá Háafoss og Hesthúsfoss. Ferðin tekur um það bil þrjá tíma og er einhver hækkun upp með gilinu til að sjá fossana. Nánar um ferðina og skráning hér.

23. júní. Jónsmessuganga á Haus í Staðarbyggðarfjalli

Brottför kl. 22 á einkabílum frá FFA, Strandgötu 23.
Farastjórn: Bóthildur Sveinsdóttir.
Verð: 2.000/1.500. Innifalið: Fararstjórn.
Gengið frá sumarhúsinu Seli upp brekkurnar að vörðunni nyrst á Hausnum. Mikið og fagurt útsýni. Stutt ganga. Gönguhækkun 270 m. Nánar um ferðina og skráning hér.

24. júní. Fossaganga III: Myrkárgil í Hörgárdal Nýtt

Brottför kl. 19 á einkabílum frá FFA, Strandgötu 23.
Fararstjórn: Svavar A. Jónsson.
Verð: 2.000/1.500. Innifalið: Fararstjórn.
Svavar leiðir þátttakendur um Myrkárgil í Hörgárdal. Þar er meðal annars hægt að sjá Kálfafoss, Byrgisfoss og Geirufoss. Ferðin tekur um það bil þrjá tíma og er einhver hækkun upp með gilinu til að sjá fossana. Nánar um ferðina og skráning hér.

26. júní. Villingadalur. Jarðfræðiganga Nýtt

Brottför kl. 8 á einkabílum frá FFA, Strandgötu 23.
Fararstjórn: Sigurveig Árnadóttir.
Verð: 3.500/2.000. Innifalið: Fararstjórn.
Ekið verður að Leyningshólum og gengið inn Villingadal og til baka. Við skoðum jarðfræðileg fyrirbæri og fræðumst um hina fornu og löngu kulnuðu Torfufellseldstöð sem setur svip á fjöllin í dalnum með sínum fjölbreytilegu og litskrúðugu bergmyndunum. Vegalengd alls 10 km. Gönguhækkun lítil. Nánar um ferðina og skráning hér.

30. júní. Náttúruskoðun í Krossanesborgum (barna- og fjölskylduferð)

Mæting kl. 17 á neðra/stærra bílastæðið norðan við Óðinsnes.
Fararstjórn: Brynhildur Bjarnadóttir.
Þátttaka ókeypis.
Fjölskyldurölt um Krossanesborgir þar sem sjónum verður beint að blómum og smádýrum. Þægilegur göngutúr fyrir allan aldur þar sem við stoppum reglulega, skoðum blómin og kíkjum á dýr eins og köngulær, flugur og ánamaðka. Gott að taka með stækkunargler. Ferðin tekur u.þ.b. 2 klst. Nánar um ferðina hér.

 

Júlí

3. júlí. Trjá- og blómaskoðunarferð í Hörgárdal Nýtt

Brottför kl. 8 á einkabílum frá FFA, Strandgötu 23.
Fararstjórn: Brynhildur Bjarnadóttir.
Verð: 3.500/2.000. Innifalið: Fararstjórn.
Ekið að Miðhálsstaðaskógi þar sem bílum er lagt. Gengið inn í skóginn, fræðsla og umræður um trjágróður. Síðan verður lagt af stað upp Staðartunguháls og á leiðinni skoðum við þau blóm sem á vegi okkar verða. Fræðsla um gróður og gildi hans í náttúrunni. Ferð við flestra hæfi. Vegalengd alls 8 km. Gönguhækkun 370 m. Nánar um ferðina og skráning hér.                                                                                                                               

10. júlí. Kerling / sjö tinda ferð 1538 m. Myndir 2008

Brottför kl. 8 á einkabílum og með rútu frá FFA Strandgötu 23.
Fararstjórn: Baldvin Stefánsson, Einar Bjarki Sigurjónsson og Christina Finke.
Verð: 6.000/4.500. Innifalið: Fararstjórn og rúta.
Ekið að Finnastöðum og gengið þaðan á Kerlingu hæsta fjall í byggð á Íslandi og síðan norður eftir tindunum; Hverfanda (1320 m), Þríklökkum (1360 m), Bónda (1350 m), Litla Krumma, Stóra Krumma, Syðri-Súlu (1213 m) og Ytri-Súlu (1143 m). Gengið niður í Glerárdalinn þar sem ferðin endar. Vegalengd um 20 km. Gönguhækkun 1440 m. Nánar um ferðina og skráning hér.                                                                                                                              

11. júlí. Rútuferð í Húnavatnssýslur. Sögu- og menningarferð Nýtt

Brottför kl. 8 með rútu frá FFA, Strandgötu 23.  
Fararstjórn: Bragi Guðmundsson.
Verð: 16.000/14.500. Innifalið: Fararstjórn, rúta og aðgangur að Þingeyrakirkju.
Ekið í Húnavatnssýslur um Blöndubrú fremri, stansað á Sveinsstöðum. Hringferð um Vatnsdal og þaðan að Kolugili. Hádegisverður í Víðigerði (ekki innfalinn). Haldið til baka með viðkomu á Þrístöpum og Þingeyrum. Ekið um Þverárfjall, stansað á Sauðárkróki. Haldið áfram um Hegranes, Viðvíkursveit og Blönduhlíð til Akureyrar. Nánar um ferðina og skráning hér.                                                                                                                              

17. júlí. Fjórir fossar í Bárðardal Nýtt

Brottför kl. 8 á einkabílum frá FFA, Strandgötu 23.
Fararstjórn: Ingvar Teitsson.
Verð: 3.500/2.000. Innifalið: Fararstjórn.
Ekið fram Bárðardal að austan og niður hjá Stórutungu. Síðan farin vegslóð austan Skjálfandafljóts að Hrafnabjargafossum. Gengið norður með Suðurá og því næst niður með Skjálfandafljóti að Ingvararfossum og Aldeyjarfossi. Loks er gengið norður að Stórutungu þar sem bílarnir bíða. Selflytja þarf bíla milli Hrafnabjargafossa og Stórutungu. Vegalengd alls 7-8 km og gengið niður í móti. Nánar um ferðina og skráning hér.                                                                                                                             

23.-26. júlí. Bræðrafell - Askja Myndir 2019 Myndir 2020

 

Brottför kl. 8 á einkabílum (jeppum) frá FFA, Strandgötu 23.
Fararstjórn: Frímann Guðmundsson.
Verð: 35.000/23.000. Innifalið: Fararstjórn og gisting.
1.d. (föstudagur) Ekið í Herðubreiðarlindir. Eftir kaffihressingu er gengið um fremur greiðfært hraun í Bræðrafell og gist þar, 17 km.
2.d. Gengið á Kollóttudyngju og Bræðrafell skoðað. Gist í Bræðrafellsskála.
3.d. Gengið frá Bæðrafelli í Drekagil, 17 km. Gist í Dreka.
4.d. Gengið frá Dreka yfir Dyngjufjöll að Öskju. Hópurinn sóttur á bílastæðið við Öskjuop og keyrður til baka í Dreka þar sem bílarnir bíða. Ekið heim um kvöldið.
Bílar þátttakenda verða ferjaðir frá Herðubreiðarlindum upp í Dreka. Nánar um ferðina og skráning hér.                       

24.-28. júlí. Strandir, Reykjarfjörður og nágrenni Deildaferð

Mæting fyrir kl. 18 á einkabílum að Valgeirsstöðum í Norðurfirði.
Fararstjórn: Ólöf Sigurðardóttir og Jón Örn Guðbjartsson.
Verð: 85.000/80.000. Innifalið: Fararstjórn, gisting, sigling og söguganga.
1.d. (laugardagur) Þátttakendur koma að Valgeirsstöðum. Um kvöldið er fundað um skipulag næstu daga.
2.d. Siglt frá Norðurfirði í Reykjarfjörð. Eftir að hópurinn hefur komið sér fyrir er farið í göngu um svæðið undir leiðsögn heimamanns.
3.d. Gengið í Þaralátursfjörð, á Hvítsanda og um Kerlingarvík til baka. 4-5 klst.
4.d. Gengið um Sigluvík á Geirólfsnúp, hækkun 332 m. 6-7 klst.
5.d. Létt ganga ef tími vinnst til áður en siglt er til baka í Norðurfjörð.
Nánar um ferðina og skráning hér.   

24. júlí. Almenningshnakki 929 m. Nýtt

Brottför kl. 8 á einkabílum frá FFA, Strandgötu 23.
Fararstjórn: Björn Z. Ásgrímsson.
Verð: 4.500/3.000. Innifalið: Fararstjórn.
Gangan hefst við afleggjarann að Lambanes-Reykjum í Fljótum. Gengið er fyrir mynni Torfdals í átt að Nautadal og síðan haldið upp Fellahlíðina. Þegar komið er í 500-600 metra hæð á Breiðafjalli blasir Almenningshnakkinn við. Greið leið er þaðan á Hnakkann, oft er snjór á leiðinni en yfirleitt ekki til trafala. Almenningshnakki er hæsta fjall í fjallahring Siglufjarðar. Héðinsfjörður, Siglufjörður og öll Fljótin blasa vel við. Gengið er sömu leið til baka að upphafsstað. Vegalengd alls 16 km. Gönguhækkun 880 m. Nánar um ferðina og skráning hér.   

 

Ágúst

6.-8. ágúst. Fjörður og Látraströnd. Skálaferð Nýtt

Brottför kl. 9 á einkabílum frá FFA, Strandgötu 23.
Fararstjórn: Hermann Gunnar Jónsson.
Verð: 29.000/24.500. Innifalið: Fararstjórn, gisting og rúta út í Fjörður og frá Svínárnesi á Látraströnd.
Gist í skálum á Þönglabakka og Látrum. Ekið til Grenivíkur, mæting kl. 10 á veitingastaðinn Mathúsið þar sem er farið yfir áætlun næstu daga. Krefjandi ferð um eyðibyggðir, fjöll og fallega náttúru við ysta haf.
1.d. (föstudagur) Grenivík - Gil - Þönglabakki: Ekið með hópferðabíl norður Leirdalsheiði út í Gil, þar sem gangan hefst og er haldið út í Tindriðastaði og í Þönglabakka. Kvöldganga á Þorgeirshöfða/Eyrarhöfða fyrir þá sem vilja. Vegalengd 13 km. Gönguhækkun 318 m.
2.d. Þönglabakki - Keflavík - Látur: Frá Þönglabakka er gengið í Botn, um Botnsfjall, Blæjukamb og fram á Hnjáfjall og Messuklett á austurbrún Keflavíkurdals. Gengið er niður í Keflavíkurdalinn áður en haldið er upp í Skipið og þaðan um Þinghól og Skarðsdal upp í Uxaskarð. Þaðan er gengið niður í Fossdal og að Látrum. Vegalengd 18 km. Gönguhækkun um 1000 m.
3.d. Látur - Grenivík: Haldið sem leið liggur inn yfir Látrakleifar og suður Látraströnd. Í Svínárnesi bíður bíll sem flytur hópinn til Grenivíkur þar sem ferðalangar geta farið í sund áður en snæddur verður sameiginlegur kvöldverður á Mathúsi.
Vegalengd 14 km. Gönguhækkun 400 m. Nánar um ferðina og skráning hér.  

6.-8. ágúst. Herðubreið 1682 m. Myndir 2012

Brottför kl. 17 á einkabílum frá FFA, Strandgötu 23.
Fararstjórn: Bóthildur Sveinsdóttir og Bernard Gerritsma.
Verð: Í skála: 16.000/11.000. Í tjaldi: 10.000/7.000. Innifalið: Fararstjórn og gisting.
Árleg ferð FFA á þjóðarfjallið. Ekið í Herðubreiðarlindir og gist þar í tjöldum eða skála. Gengið á Herðubreið á laugardegi og haldið heim á sunnudegi. Hjálmur, broddar eða klær og ísexi er nauðsynlegur búnaður. Gönguhækkun um 1000 m. Nánar um ferðina og skráning hér.  

8. ágúst. Hraunsvatn -ganga og veiði (barna- og fjölskylduferð)

Brottför kl. 13 á einkabílum frá FFA, Strandgötu 23.
Fararstjórn: Herdís Zophoníasdóttir.
Þátttaka ókeypis.
Ekið verður að bænum Hálsi í Öxnadal, þaðan er gengin stikuð leið að Hraunsvatni. Gangan að vatninu tekur rúman klukkutíma. Börn eru hvött til að hafa með sér veiðistangir og beitu (maðk, rækju, gular baunir) til að renna fyrir fisk. Mögulegt er að ganga kringum vatnið fyrir þá sem vilja. Vegalengdin er 6 km. Gönguhækkun 270 m. Ferðin tekur u.þ.b. 4-5 klst. Nánar um ferðina hér.

14. ágúst. Gönguskarð í Kinnarfjöllum

Brottför kl. 8 á einkabílum frá FFA, Strandgötu 23.
Fararstjórn: Ingvar Teitsson.
Verð: 4.500/3.000. Innifalið: Fararstjórn.
Ekið að Ytra-Hóli í Fnjóskadal og að Hólsá. Gengið austur Gönguskarð. Farið í um það bil 500 m hæð á vatnaskilum. Vaða þarf tvær ár á leiðinni. Nokkuð er mýrlent á skarðinu. Vegalengd um 14 km. Gönguhækkun 220 m. Selflytja þarf bíla milli Hólsár og bæjarins á Hálsi í Kaldakinn. Nánar um ferðina og skráning hér

19. ágúst. Berjaferð (barna- og fjölskylduferð)

Mæting kl. 17 á bílastæðið við Hamra.
Fararstjórn: Fjóla Kristín Helgadóttir.
Þátttaka ókeypis.
Þegar skuggarnir lengjast er fátt skemmtilegra en að fara í berjamó.  Farið verður í berjaferð í brekkurnar ofan við Hamra. Börnin taka með sér ílát eða tína bara upp í sig. Ferðin tekur u.þ.b. 2 klst. Nánar um ferðina hér.

21. ágúst. Vesturárdalsleið með viðkomu á fjallinu Ingjaldi 1275 m.

Brottför kl. 8 með rútu frá FFA, Strandgötu 23.
Fararstjórn: Una Þórey Sigurðardóttir.
Verð: 12.000/10.000. Innifalið: Fararstjórn og rúta.
Hér er genginn fallegur, fáfarinn fjallvegur á milli Skíðadals og Kolbeinsdals í Skagafirði. Ekið að Stekkjarhúsi í Skíðadal þar sem gangan hefst. Gengið fram Skíðadal og sveigt fram Vesturárdal. Farið upp í skarðið milli Staðargangnafjalls og Ingjalds og þaðan á Ingjald, ef vill. Af skarðinu er mjög falleg fjallasýn. Þaðan er gengið í Ingjaldsskál og Ingjaldsánni fylgt með mjög fallegum fossum. Farið yfir Kolbeinsdalsá á fjárbrú og gengið út Kolbeinsdal þar sem hópurinn verður sóttur. Vegalengd um 19 km með viðkomu á Ingjaldi. Gönguhækkun 1050 m. Nánar um ferðina og skráning hér

27.-29. ágúst. Gönguvika FFA í samvinnu við Akureyrarstofu - sjá nánar á ffa.is

28. ágúst. Leirhnjúkur - Reykjahlíð Nýtt  

Brottför kl. 8 á einkabílum frá FFA, Strandgötu 23.
Fararstjórn: Þuríður Anna Hallgrímsdóttir.
Verð: 4.500/3.000. Innifalið: Fararstjórn.
Ekið að bílastæði við Leirhnjúk norðan Kröfluvirkjunar. Fyrst er gengið að sprengigígnum Víti og þaðan að Leirhnjúk. Frá Leirhnjúk er fylgt stikaðri leið til Reykjahlíðar sem fylgir að mestu hrauninu frá 1727 sem kallast Eldá. Leiðin liggur við suðurrætur Hlíðarfjalls og hægt að hafa viðkomu á fjallinu. Vegalengd um 15 km og engin hækkun, en 300 m sé gengið á Hlíðarfjall. Selflytja þarf bíla á milli Reykjahlíðar og Leirhnjúks. Nánar um ferðina og skráning hér.

 

September

4. september. Siglunes: Sigling, sögu- og gönguferð   

Brottför kl. 8 á einkabílum frá FFA, Strandgötu 23.
Fararstjórn: Una Þ. Sigurðardóttir og Gestur Hansson.
Verð: 13.500/12.000. Innifalið: Fararstjórn, sigling og leiðsögn um Siglunes.
Siglt frá Siglufirði út á Siglunes. Gengið um Siglunes og saga staðarins rifjuð upp af staðkunnugum leiðsögumanni. Síðan haldið áleiðis fram Nesdal og yfir Kálfsskarð til Siglufjarðar. Vegalengd 15-16 km. Gönguhækkun 740 m. Greiða þarf þátttökugjald fyrir 2. september. Nánar um ferðina og skráning hér.

11. september. Dagmálanibba 860 m. Nýtt

Brottför kl. 8 á einkabílum frá FFA, Strandgötu 23.
Fararstjórn: Þuríður Helga Kristjánsdóttir.
Verð 3.500/2.000. Innifalið: Fararstjórn.
Ekið að bænum Hofi í Svarfaðardal þar sem lagt er á fjallið norðan Hofsár og gengið upp hlíðina en síðan sveigt til norðurs ofan við Hofsskál. Gengið er skáhallt norður og upp Efrafjall. Komið er upp á fjallið sunnan við Dagmálanibbu og gengið norður á nibbuna. Vegalengd alls 5 km. Gönguhækkun 830 m. Nánar um ferðina og skráning hér.

18. september. Þorvaldsdalur. Haustlitaferð