Af félagsfundi FFA 3. janúar 2019

Á fundinn mættu 25 manns. Hilmar formaður gerði grein fyrir stöðu mála varðandi skála félagsins, gistinóttum og ferðum félagsins á árinu 2018. Nokkrar umræður spunnust um það.

Fólk kom með ýmsar hugmyndir um hvernig væri hægt að efla félagið, ná til yngra fólks og hugmyndir að gönguferðum. Hilmar nefndi að sumt af þessu hafi verið reynt en að sjálfsögðu reynum við aftur og með nýjum leiðum. Þetta eru að miklu leyti svipaðar hugmyndir og komið hafa fram áður. 

Þorgerður sem er meðstjórnandi í stjórn FFA nefndi að samkvæmt stefnumótunarvinnunni sem er í fullum gangi þá er gert ráð fyrir að stofnuð verði kynningarnefnd sem gæti unnið að því að fjölga félögum og kynna félagið út á við og að í þá nefnd vanti fólk. Einn félagsmaður gaf sig fram í nefndina og mun stjórn reyna að fá fleiri í hana.

Hilmar sagði einnig frá því að í ár verði ferðaáætlun FFA dreift í öll hús á Akureyri en það er hugmynd sem kom fram á félagsfundi fyrir ári. Einn fundarmaður nefndi að hann hafi verið beðinn um að hafa kynningu á FFA fyrir Félag eldri borgara, það fékk góðar undirtektir.

Rætt var um skrifstofuhúsnæðið. Hilmar sagði að stjórn væri að skoða það að setja upp skjá í gluggann og þar myndu myndir úr starfi félagsins rúlla. Þangað til verður notast við myndirnar sem fyrir eru og þær jafnvel endurnýjaðar. Nefnt var að það þyrfti að vera sýnilegra utan á húsinu að það sé opið þegar opið er t.d. með því að draga frá og setja upp fánana sem voru einu sinni. Sjálfsagt er að skoða það betur en til þess að hægt sé að setja upp fánana þarf að laga festingarnar og lækka þær svo auðvelt sé að setja þá upp.

Ýmislegt fleira var rætt og ýmsar góðar ábendingar komu fram.

Helsta niðurstaða þessa fundar var því að á árinu 2019 verði gert átak í að kynna félagið.