Lög FFA

Lög Ferðafélags Akureyrar

 

1. gr.               Félagið heitir Ferðafélag Akureyrar (skammstafað FFA). Heimili þess og varnarþing er á Akureyri. Félagssvæðið er Akureyri og nágrenni.

 

2. gr.              Félagið er áhugamannafélag og vill stuðla að ferðalögum um Ísland, einkum Norðurland.

 

3. gr.              Félagið er deild í Ferðafélagi Íslands en starfar sjálfstætt og hefur sjálfstæðan fjárhag. Helmingur árgjalds rennur í sjóð Ferðafélags Íslands. Innan Ferðafélags Akureyrar má stofna deildir með sérstök áhugamál, s.s. unglingadeild, fjallgöngudeild, o.s.frv.

 

4. gr.              Stjórn FFA skipa fimm manns; formaður, varaformaður, ritari, gjaldkeri og meðstjórnandi.  Formaður skal kosinn sérstaklega, árlega. Aðrir stjórnarmenn skulu kosnir á tveggja ára fresti, tveir í hvert sinn, og skipta þeir með sér verkum. Þó skal kjósa þrjá menn ef annar þeirra sem situr í stjórn er kosinn formaður. Í varastjórn séu tveir menn kosnir árlega (1. og 2. varamaður) og sitja þeir stjórnarfundi, en hafa þar aðeins atkvæðisrétt í forföllum aðalmanna. Stjórnin skipar nefndir eftir þörfum.

 

5. gr.              Aðalfund skal halda fyrir marslok ár hvert og skal til hans boðað í blöðum, útvarpi og/eða á rafrænum miðlum með minnst 7 daga fyrirvara og mest 21 dags fyrirvara.
Dagskrá aðalfundar skal vera sem hér segir:

1. Skýrsla stjórnar lögð fram.

                      2. Endurskoðaðir reikningar lagðir fram til samþykktar.
3. Tillögur til lagabreytinga lagðar fram, ef einhverjar eru og skulu þær birtar með fundarboði.
4. Kosning stjórnar, skoðunarmanna reikninga, skjalavarðar og nefnda skv. 4. og 6. gr.
5. Önnur mál.
Til lagabreytinga þarf samþykki 2/3 félagsmanna á aðalfundi.
Aðra félagsfundi heldur stjórnin þegar henni þykir ástæða til, en er skyld til þess ef 25 félagsmenn æskja þess skriflega. Til félagsfunda skal boðað með sama hætti og til aðalfundar.  
Atkvæðisrétt á aðalfundi og félagsfundum hafa allir fullgildir meðlimir félagsins.
Stjórn félagsins ákveður árgjald.

6. gr.              Til undirbúnings aðalfundar ár hvert skal starfa uppstillingarnefnd skipuð formönnum nefnda FFA. Nefndin gerir tillögur til aðalfundar um menn í stjórn og varastjórn, ásamt tveimur skoðunarmönnum reikninga og einum til vara auk eins skjalavarðar. Einnig geri nefndin tillögur til stjórnar um skipan fólks í nefndir félagsins fyrir komandi starfsár. Fullgildum meðlimum félagsins er heimilt að bjóða sig fram í þau embætti sem kosið er í á aðalfundi, án samráðs við uppstillingarnefnd.

 

7. gr.              Verði félaginu slitið, skal eignum þess ráðstafað til hliðstæðs félags á Norðurlandi, Ferðafélags Íslands eða annarra deilda þess.

 

8. gr.              Að öðru leyti en hér er ákveðið gilda lög Ferðafélags Íslands.

 

Samþykkt á aðalfundi Ferðafélags Akureyrar þann 9.  mars 1996.

Ásamt breytingum samþykktum á aðalfundi þann 7. mars 2022.