Siðareglur FFA

Siðareglur Ferðafélags Akureyrar

Ferðafélag Akureyrar er áhugamannafélag um útivist sem vill stuðla að hreyfingu og ferðalögum. Félagið hefur sett sér eftirfarandi siðareglur sem taka til allra sem starfa á vegum félagsins, hvort sem er í launuðu starfi eða sjálfboðastarfi, sem og til þeirra sem taka þátt í ferðum á vegum félagsins eða nýta á annan hátt þjónustu þess.

 • Ferðafélagið hefur í heiðri ábyrga ferðamennsku og sýnir í verki ábyrgð gagnvart íslenskri náttúru, umhverfi og samfélagi.
 • Ferðafélagið sýnir öllum sem taka þátt í starfi þess eða nýta á annan hátt þjónustu þess; virðingu, tillitssemi og góðvild, óháð t.d. kyni, kynhneigð, uppruna, menningu, trú, aldri, þjóðfélagsstöðu, líkamlegu atgervi eða hverju öðru sem skapar fjölbreyti­leika í mannlegu samfélagi.
 • Ferðafélagið leggur áherslu á að ofbeldi, einelti, áreitni, baktal og útilokun eigi sér ekki stað í starfi þess.
 • Í starfi Ferðafélagsins er gætt þagmælsku og trúnaðar en þó innan takmarkana lög­boðinnar tilkynningaskyldu.
 • Ferðafélagið hefur að leiðarljósi fagmennsku, heiðarleika og sanngirni í öllum sam­skiptum og þjónustu.
 • Ferðafélagið leitast við að tryggja að allar upplýsingar, til dæmis á vef þess eða á samskiptamiðlum séu réttar og gefi rétta mynd af þjónustu og aðstöðu.
 • Ferðafélagið hefur skriflega ferla varðandi meðferð kvartana og tryggir viðbrögð sam­kvæmt þeim.
 • Ferðafélagið sér til þess að starfsfólk fái viðeigandi þjálfun og fræðslu og búi við góð vinnuskilyrði.
 • Ferðafélagið leitast við að tryggja öryggi þeirra sem taka þátt í starfi þess eða nýta á annan hátt þjónustu þess, með faglegum starfsháttum, góðri aðstöðu og viður­kenndum búnaði.
 • Ferðafélagið sýnir í verki að öllum finnist þeir velkomnir til starfa á vegum þess og leggur áherslu á á sjálfstæði/frumkvæði, ábyrgð og sanngjarna verkaskiptingu innan nefnda.
 • Ferðafélagið leggur áherslu á að allir hafi tækifæri til að koma á framfæri hugmyndum um starf félagsins, geti treyst því að þær séu ræddar og að þeir verði upplýstir um afdrif þeirra.
 • Ferðafélagið heldur á lofti því sem vel er gert, leitast við að gagnrýna á uppbyggilegan hátt og nýta styrkleika allra.

Kvartanir eða ábendingar um möguleg brot á reglum FFA:

 • Kvörtun þarf að berast skriflega til stjórnar.
 • Öllum kvörtunum eða ábendingum er svarað.
 • Eftir að tilkynning kemur fram skal stjórn FFA leggja hlutlaust mat á málið eða reyna að leiða málið til lykta ef málsaðilar eru sammála um að þannig sé hægt að ljúka því.
 • Ef það er ekki unnt skal leita til fagaðila sem aðilar máls eru sáttir við.
 • Við mat aðstæðna skal tryggja að málsaðilum og öðrum sem hugsanlega koma að málinu sé gefinn kostur á að koma sínum sjónarmiðum á framfæri.
 • Við meðferð máls skal sýna varfærni og nærgætni í öllum aðgerðum með virðingu, trúnað og einkahagi allra málsaðila í huga.
 • Ef málið er þess eðlis að ástæða er til að tryggja að málsaðilar starfi ekki saman skal stjórn FFA tryggja að svo verði.
 • Ef einhver innan stjórnar er aðili að málinu eða á hagsmuna að gæta skal sá hinn sami víkja úr stjórn á meðan málið er til lykta leitt og varamaður tekur sæti hans.
 • Vinna skal mál eins hratt og kostur er. Að jafnaði skulu ekki líða meira en fjórar vikur frá því að kvörtun berst til stjórnar þar til hún kynnir málsaðilum niðurstöðu sína um hvernig máli verði lokið.
 • Ef málsaðilar una ekki niðurstöðu stjórnar hafa þeir fjórar vikur til að andmæla henni.

Samþykkt af stjórn FFA
1. maí 2023

Endurskoðað og samþykkt af stjórn FFA
30. október 2023