Hreyfiverkefni

Hreyfiverkefni 2025:

Myndir frá hreyfiverkefnum fyrri ára er hægt að sjá hér

2025 - námskeið og verkefni verða auglýst með góðum fyrirvara.

Í undirbúningi eru tvö skíðagöngunámskeið á utanbrautarskíðum, grunnnámskeið og framhaldsnámskeið.
Grunnnámskeiðið hefst 28. janúar 2025
Framhaldsnámskeiðið hefst 18. febrúar 2025

Einnig eru í undirbúningi fjallanámskeið að vori.

--------------------------------------------------

Á árinu 2024 voru fjögur verkefni undirbúin. Þrjú vru haldin.

Skíðagöngunámskeið, grunnnámskeið. Lokið.

Skíðaganga, framhaldsverkefni. Lokið.

Núvitund í náttúrunni 2024. Verkefnið féll niður vegna færðar.

Fjöll, firðir og dalir með Ásdísi og Sirrý. Lokið.

--------------------------------------------------

Á árinu 2023 voru níu verkefni undirbúin og sett af stað. Ekki náðist næg þátttaka í þau öll svo af þeim yrði.

Þessi verkefni voru undirbúin:

Skíðagöngunámskeið fyrir byrjendur og framhaldsverkefni. Færri komust að en vildu en fella þurfti framhaldsnámskeiðið niður vegna snjóleysis.

Fjallaskíðanámskeið. Féll niður vegna snjóleysis.

Núvitund í náttúrunni. Þetta reyndist afar vel og er vonandi komið til að vera næstu árin.

Komdu með í útivist, fyrir byrjendur en ekki síður þá sem vilja koma sér af stað aftur eða fyrir sumarið. Féll niður.

Komdu út og á fjöll, glænýr dagskrá á hverju ári. Vinsælasta gönguverkefnið enn sem komið er.

Ferðast með allt á bakinu. Féll niður.

Hlaupið úti í náttúrunni að hausti. Féll niður. 

Útivistarsæla með FFA haust og vetur 2023. Féll niður.

--------------------------------------------------

Á árinu 2022 voru nokkur verkefni endurtekin frá 2021 og önnur bættust við. Þó verkefni séu endurtekin þá er alltaf nýtt prógram í gangi, nýjar ferðir, ný fjöll og nýtt fólk.

Komdu með í útivist, þar var talsverð fjölgun. Umsjónarmenn og ararstjórar voru Anna Sigrún Rafnsdóttir og Kristján Hreinsson.

Komdu út og á fjöll var endurtekið með góðum árangri og voru sömu umsjónarmenn og fararstjórar og áður. 

Fjallaskíðanámskeið hjá FFA. Tvö námskeið voru haldin, eitt fyrir byrjendur og annað fyrir lengra komna. Umsjónarmenn og fararstjórar voru: Kristín Irene Valdemarsdóttir og Jón Marinó Sævarsson.

Skíðagöngunámskeið hjá FFA sem fylltist strax. Umsjónarmenn og fararstjórar voru: Bryndís Indíana Stefánsdóttir (Inda) og Anna Sigrún Rafnsdóttir.

Gengið inn í haustið með FFA. Þar var umsjónarmaður Arnar Bragason og voru nokkrir fararstjórar sem fór um honum í ferðir.

----------------------------------------------------

Á árinu 2021 voru nokkur verkefni endurtekin frá árinu 2020 og ný bættust við og gengu þau öll vel. 

Komdu með í útivist. Fyrir þá sem vilja byrja að ganga á fjöll og þá sem vilja koma sér af stað fyrir sumarið.

Komdu út og á fjöll var sams konar verkefni og eins konar framhaldsverkefni af Komdu út í íslenska sumarið, 2-3 skór, sömu fararstjórar.

Gengið inn í haustið með FFA kom í stað Fleiri fjöll og voru fararstjórar þar Áslaug melax og Óskar Ingólfsson.

Fjallaskíðanámskeið bættist við en það hófst í janúar og fylltist strax. Fararstjórar þar voru Kristín Irene Valdemarsdóttir og Jón Marinó Sævarsson.

Einng var prófað að hafa byrjendanámskeið í að ganga á fjöll Komdu með í útivist og voru fararstjórar Anna Sigrún Rafnsdóttir og Kristján Hreinsson.

Fjallahjólanámskeið fyrir byrjendur var einnig haldið og voru fararstjórar þar Unnur Ósk Unnsteinsdóttir og Guðrún E. Jakobsdóttir.

---------------------------------------------------------------------------------

Á árinu 2020 hóf Ferðafélag Akureyrar að skipuleggja sérstök hreyfiverkefni í anda FÍ. Þeir sem taka þátt í þeim skrá sig í hóp fyrir ákveðið verkefni gegn gjaldi. Meginmarkmið hópanna er útivist, að takast á við eigin áskoranir og að ganga í góðum félagsskap. FFA stefnir að því að bjóða upp á fjölbreytta hreyfihópa til að koma til móts við þarfir og óskir sem flestra. Þess vegna eru allar góðar ábendingar vel þegnar. 

Þátttakendur í hreyfihópunum ferðast á eigin ábyrgð eins og í öðrum ferðum FFA, fólk er því hvatt til að kynna sér vel eigin ferða- og slysatryggingar. 

Fyrsti hreyfihópur FFA fékk nafnið Komdu út í íslenska sumarið og fylltist fljótt. Fararstjórar voru Anna Sigrún Rafnsdóttir og Kristján Hreinsson. Hópurinn hóf göngu sína í maí 2020 og lauk verkefninu í september, það tókst að halda áætlun þrátt fyrir COVID-19. Mikil fjölbreytni í ferðum einkenndi verkefnið og oftar en ekki var heimafólk fengið til að segja frá náttúru og sögu staðanna. Þyngdarstig verkefna hópsins var áætlað 2 skór. Fyrirhugað er að vera með svipaðan hóp sumarið 2021.

Annar gönguhópur hóf starfsemi í september 2020. Hann fékk nafnið Fleiri fjöll og fylltist hann einnig fljótt. Þar fá þátttakendur áskorun um að ganga á fjöll að vetri til og er áætlað þyngdarstig 3 - 4 skór. Þátttakendur fá m.a. fræðslu um útbúnað í vetrarferðum og innsýn og æfingu í notkun gps-tækja í fjallaferðum. Fararstjórar eru Einar Bjarki Sigurjónsson og Christina Finke. Áætlunin var að ljúka verkefninu í desember en fjöldatakmarkanir vegna COVID-19 hafa sett strik í reikninginn. Verkefnið stendur því eitthvað fram í janúar 2021.

Í byrjun desember 2020 var nýtt verkefni kynnt og auglýst. Það er fjallaskíðaverkefni sem fékk einfaldlega nafnið Fjallaskíðahópur FFA. Það verkefni hefst í janúar 2021 ef allt gengur að óskum. Mikill áhugi er fyrir þessum hóp og komust færri að en vildu. Fararstjórar eru Kristín Irene Valdemarsdóttir og Jón Marinó Sævarsson.