2024 er ein söguganga á ferðaáætlun.
14. júlí: Söguferð í Vígasel "Á völtum fótum"
Árni Jakobsson fæddist á Arnarvatni í Mývatnssveit 20. mars 1891. Hann bjó með foreldrum sínum á ýmsum bæjum í sveitinni þar til þau slitu samvistum, eftir það var hann mest með móður sinni í vinnumennsku. Sumarið 1914 hóf Árni ásamt Sigríði verðandi konu sinni búskap að Brettingsstöðum í Laxárdal. Í desember sama ár veikist hann af lömunarveiki og missti nær allan mátt í fótum. Sumarið eftir flytjast þau hjónin ásamt föður Árna að Víðaseli sem hafði losnað úr ábúð og hefja þar búskap, síðar voru þau bændur á fleiri bæjum í Reykjadal og Laxárdal. Síðust æviárin bjuggu þau á Húsavík.
Gengið frá suðvesturenda Másvatns um götuslóða að Víðaseli. Þaðan er gengið að Austurgróf og út með grófinni að fossi efst í Austurgili. Frá gilinu er gengið til austurs yfir Víðafellið, aftur á götuslóðann og að bílum. Gangan að Víðaseli er mjög greið, með grófinni og austur yfir Víðafellið er gengið um ótroðnar slóðir, mólendi og mel. Afar víðsýnt er frá Víðaseli og af Víðafelli. Gangan er auðveld og hentar öllum kynslóðum. Þeir sem ekki treysta sér í göngu um órutt mólendi geta auðveldlega gengið sömu leið til baka frá Víðaseli að Másvatni.
Vegalengd: 7,5 km. Gönguhækkun: 150 m.
Verð: 2.500/4.000. Innifalið: Fararstjórn.
2023 - raðganga: Gengið í fótspor Theódórs Friðrikssonar bréfapósts
Theódór Friðriksson (1876-1948) var fæddur í Flatey á Skjálfanda og ólst upp við kröpp kjör á svæðinu milli Skjálfanda og Eyjafjarðar. Theódór ritaði ævisögu sína: „Í verum“ er kom út 1941. Í bókinni eru mjög skýrar lýsingar á lifnaðarháttum alþýðunnar á þessum tíma. Í bók sinni segir Theódór frá vetrarferð sem hann fór í janúar 1900 frá Þönglabakka í Þorgeirsfirði að Skútustöðum við Mývatn. Erindið var að flytja bréf frá prestinum á Þönglabakka til prófastsins á Skútustöðum. Theódór var fimm daga á leiðinni austur í Mývatnssveit.
Ferðafélag Akureyrar efndi til sögugöngu í ágúst 2023 til minningar um þessa póstferð Theódórs Friðrikssonar ganga átti þessa leið í þremur áföngum. Aðeins síðasta ferðin var farin.
Fyrsta ferðin var fyrirhuguð 13. ágúst og þá átti að aka í Hvalvatnsfjörð og ganga framhjá Gili í Hvalvatnsfirði suður yfir Leirdalsheiði að Grýtubakka í Höfðahverfi.
Ferð tvö var fyrirhuguð 20. ágúst og þátti þá að aka aðHallgilsstöðum í Fnjóskadal og ganga þaðan austur með Þingmannalæk og norðan megin í Ljósavatnsskarði að Litlutjörnum og þaðan um Arnstapa og Vatnsenda að kirkjustaðnum Ljósavatni.
Þriðja ferðin var svo farin 27. ágúst. Þá var efkið að Arndísarstöðum í Bárðardal. Gengið þaðan eftir gamalli leið, Gullveginum, suðaustur yfir Fljótsheiði og Mývatnsheiði að Helluvaði í Mývatnssveit.
2022 - raðganga: Gengið í fótspor Helgu Sörensdóttur
Helga Sörensdóttir var fátæk alþýðukona, fædd 1859 og dáin 1961. Helga bjó víða s.s. í Kaldakinn, Reykdælahreppi, Náttfaravíkum og Reykjahverfi í Þingeyjarsýslu. Á allri sinni ævi fór hún einungis einu sinni út fyrir þetta svæði, þá til kirkju að Laufási við Eyjafjörð.
Jón Sigurðsson frá Yztafelli skráði sögu Helgu. Hann valdi hana sem fulltrúa allra þúsundanna sem gleymast og ævikjör hennar voru dæmigerð fyrir fólk í sveitum landsins á þessum tíma. Frásögnin er táknræn og jafnframt spegilmynd af kjörum þúsunda kvenna víðsvegar um land, þó sértaklega. „Þúsundir eða tugþúsundir fátækra kvenna hafa búið við lík kjör og mætt líkum raunum. Saga Helgu ætti að geta verið baráttu- og sigursaga þeirra allra, sem deyja gleymdar“ (úr formála ævisögu Helgu Sörensdóttur).
Ferðafélag Akureyrar efndi til raðgöngu í fjórum áföngum um slóðir Helgu Sörensdóttur þar sem saga hennar var rakin. Fararstjórar voru Erla Sigurðardóttir og Ingvar Teitsson. Bæði eru þau alin upp á þessum slóðum og þekkja þar hverja þúfu auk sagna af fólki á svæðinu.
Fyrsta ferðin var farin 10. júlí og það var yfirlits- og kynningarganga. Jón Sigurðsson, skrásetjari ævisögu Helgu Sörensdóttur bjó áYztafelli. Á leiðinni var horft yfir nánast allt „sögusviðið“ og sagt frá ævi Helgu og ævisöguritaranum Jóni Sigurðssyni. Jón Sigurðsson yngri sem núna býr á Ystafelli tók á móti hópnum og sagði frá.
Önnur ferðin var farin 6. ágúst og var þá gengið frá Bjargkrókum að Ófeigsstöðum í Kaldakinn, horft var yfir til Náttfaravíkur þar sem Helga bjó sem barn. Hlöðver Pétur bóndi á Björgum fræddi þátttakendur um nánasta umhverfi og skriðurnar miklu sem féllu heim á tún á Björgum í október 2021. Síðan var gengið eftir innansveitarveginum suður Kaldakinn að kirkjustaðnum Þóroddsstað, en þar var Helga Sörensdóttir jarðsungin. Á leiðinni var rifjuð upp vist Helgu á bæjum í Útkinn.
Þriðja ferðin var farin 21. ágúst frá Ófeigsstöðum að Helgastöðum í Reykjadal. Gengið var upp skógi vaxna brekku að tóftunum af Fossseli en þar átti Helga Sörensdóttir heima í 11 ár. Síðan var gengið yfir Fljótsheiði. Komið var niður af heiðinni rétt norðan Helgastaða í Reykjadal en þar gekk Helga til spurninga og endaði gangan við Helgastaði.
Síðasti áfanginn var svo genginn 28. ágúst frá Helgastöðum að Ljósavatni. Gengið var yfir Fljótsheiðina að Fosshóli og áfram að Þorgeirskirkju þar sem kirkjan var skoðuð.
2021 - afmælirraðganga Akureyri - Mývatnssveit
Á því ári varð Ferðafélag Akureyrar 85 ára og af því tilefni var efnt til söguferða í formi raðgöngu. Í fjórum áföngum var gengið frá Akureyri yfir í Mývatnssveit. Ólafur Kjartansson, Ósk Helgadóttir, Hermann Herbertsson (Lalli), Marína Sigurgeirsdóttir og Ingvar Teitsson leiddu göngurnar.
Fyrsti áfangi var Akureyri - Fnjóskadalur, 25. júlí. Gengið yfir Bíldsárskarð og endað við eyðibýlíð Grjótárgerði. Fararstjóri og sögumaður var Ólafur Kjartansson.
Í öðrum áfanga þann 8. ágúst var gengið frá eyðibýlinu Grjórárgerði, austur Fnjóskadal og endað við Sörlastaði.
Þriðji áfangi var svo farinn 15. ágúst þá frá Sörlastöðum og endað að Stóruvöllum. Hér slóst Marína Sigurgeirsdóttir með í för sem sögumaður þegar kom yfir í Bárðardal.
Fjórði og síðasti áfanginn var farinn 22. ágúst þegar gengið var úr Bárðardal austur yfir Fljótsheiði í Mývatnssveit. Gott stopp á á Stöng þar sem FFA bauð þátttakendum í afmæliskaffi og afhnt voru verðlaun fyrir þá sem fóru alla áfanga afmælisraðgöngunnar. Aðeins einn aðili hlaut þann heiður en það var Júlíana Guðrún Kristjánsdóttir.
Þetta mæltist vel fyrir og var lagt til að FFA héldi áfram á þessari braut. Félaga- og kynningarnefnd hafði veg og vanda að undirbúningi ferðanna og stóð svo fyrir söguferðum 2022.