Fararstjórar

Til baka

Erla Sigurðardóttir

Fararstjóri

Erla Sigurðardóttir er uppalin í Ystafelli í Kaldakinn. Á námsárunum vann hún í Mývatnssveit og heldur sterkum tengslum í sveitina. Hún var um árabil kennari og áfangastjóri við Framhaldsskólann á Laugum og bjó þá í Reykjadal. Í tæp tuttugu ár var Erla búsett á Húsavík og starfaði lengst af fyrir sveitarfélagið sem teygir sig allt austur á Raufarhöfn. Þingeyjarsýslurnar eru því hennar heimavöllur. Erla er með réttindi sem svæðisleiðsögumaður á Norðurlandi, hún hefur gripið í leiðsögn um sínar heimasveitir meðfram annarri vinnu.

Erla er áhugamanneskja um útivist og hreyfingu, menningu, náttúru og þjóðlegan fróðleik. Hennar uppáhalds útivistarsvæði eru heiðar og fjalllendi í Þingeyjarsýslu, hvort sem er að sumri eða vetri. Það er fátt sem nærir líkama og sál eins vel og hressandi ganga um heiðar og fjalllendi. Best af öllu er þó smalamennskan á haustin.

Frá 2015 hefur Erla búið á Akureyri. Hún hefur verið í Botna- og Dyngjufellsnefnd FFA frá 2016 og haustið 2021 byrjaði hún í félaga- og kynningarnefnd FFA.

Sumarið 2022 leiðir Erla raðgöngur hjá FFA ásamt Ingvari Teitssyni um Kinnina og Reykjadal. Þar verður gengið í fótspor Helgu Sörensdóttur sem var fátæk alþýðukona, fædd 1859 og dáin 1961. Helga bjó víða; í Köldukinn, Reykdælahreppi, Náttfaravíkum og Reykjahverfi í Þingeyjarsýslu. Á allri sinni ævi fór hún einungis einu sinni út fyrir þetta svæði, þá til kirkju að Laufási við Eyjafjörð.

Jón Sigurðsson frá Ystafelli afi Erlu Sigurðardóttur skráði sögu Helgu. Hann valdi hana sem fulltrúa allra þúsundanna sem gleymast og ævikjör hennar voru dæmigerð fyrir fólk í sveitum landsins á þessum tíma. Frásögnin er táknræn og jafnframt spegilmynd af kjörum þúsunda kvenna víðsvegar um land, þó sértaklega í Þingeyjarsveitum. „Þúsundir eða tugþúsundir fátækra kvenna hafa búið við lík kjör og mætt líkum raunum. Saga Helgu ætti að geta verið baráttu- og sigursaga þeirra allra, sem deyja gleymdar“ (úr formála ævisögu Helgu Sörensdóttur).

Raðgangan verður farin í fimm áföngum: 3. júlí (yfirlitsferð), 10. júlí (barnaferð),
6. ágúst, 21. ágúst og 28. ágúst.