- Skrifstofan
- Félagið
- Ferðir og viðburðir
- Hreyfiverkefni
- Skálar
- Myndir
Til að byrja með birtum við ferðaáætlunina fyrir árið 2026 hér. Ný heimasíða er í vinnslu og kemur í loftið alveg á næstu dögum.
Þeir sem vilja skrá sig í ferðir strax geta gerð það hér
Út í óvissuna á nýársdag 1 skór
1. janúar, fimmtudagur
Brottför kl. 13 á einkabílum frá FFA, Strandgötu 23
Fararstjórn: Grétar Grímsson
Þátttaka er ókeypis og allir velkomnir með Grétari út í óvissuna.
Skíðagönguferð um Ódáðahraun – Öskjuvegurinn; sex daga ferð 4 skór
23.–28. apríl
Brottför kl. 16 á einkabílum frá FFA, Strandgötu 23
Fararstjórn: Aðalsteinn Árnason og Halldór Halldórsson
Þetta er ferð fyrir vant útivistarfólk. Ferðin gæti orðið styttri en varla lengri, það fer eftir veðri og snjóalögum og dyntum fararstjóra.
Tilvalin ferð fyrir þá sem vilja ferðast með farangurinn í púlku eða á sleða.
Gist verður í skálum Ferðafélags Akureyrar á Öskjuveginum. Hver og einn verður sjálfum sér nægur með nesti og búnað.
Um er að ræða sex daga vetrarferð sem krefst viðeigandi vetrarbúnaðar og þurfa þátttakendur að vera útbúnir samkvæmt því. Nauðsynlegur búnaður eru utanbrautarskíði með stálköntum, hlýr fatnaður, hlýir skór, bakpoki eða púlka. Fararstjórar verða í sambandi um nauðsynlegan búnað þegar nær dregur ferð. Gist verður í skálunum Botna, Dyngjufelli, Dreka og Bræðrafelli.
Dagskrá ferðarinnar:
1. d. fimmtudagur: Svartárkot – Botni, gist í Botna. Vegalengd 15 km.
2. d. föstudagur: Botni – Dyngjufell, gist í Dyngjufelli. Vegalengd 22 km og ögn á fótinn.
3. d. laugardagur: Dyngjufell – Dreki, gist í Dreka. Vegalengd 20 km og töluverð hækkun upp í Jónsskarð.
4. d. sunnudagur: Dreki – Bræðrafell, gist í Bræðrafelli. Vegalengd 20 km um ójafnt hraun að hluta.
5. d. mánudagur: Bræðrafell – Botni, gist í Botna. Vegalengd 28 km.
6. d. þriðjudagur: Botni – Svartárkot. Vegalengd 15 km og eitthvað undan fæti.
Verð: 68.000 / 73.000 kr. Innifalið: Gisting í fimm nætur og fararstjórn
Þessa ferð þarf síðan að greiða að fullu þremur dögum fyrir brottför. Krafa verður stofnuð í netbanka.
Draflastaðafjall 2 skór
25. apríl, laugardagur
Brottför kl. 10 á einkabílum frá FFA, Strandgötu 23
Safnast saman í bíla ef vill.
Fararstjórn: Hulda Jónsdóttir
Gengið frá bílastæði efst á Víkurskarði upp á fjallið, 734 m. Gaman er að ganga inn á fjallið eða hring um það og njóta útsýnisins sem er víðáttumikið af fjallinu.
Vegalengd: 6–8 km. Gönguhækkun: 400m.
Þátttaka ókeypis
Helgarferð. Skíðaganga í Laugafell 4 skór
1.–3. maí
Brottför kl. 13 á einkabílum frá FFA, Strandgötu 23
Safnast saman í bíla ef vill.
Fararstjórn: Selma S. Malmquist
Um er að ræða þriggja daga vetrarferð sem krefst viðeigandi vetrarbúnaðar og þurfa þátttakendur að vera útbúnir samkvæmt því. Nauðsynlegur búnaður eru utanbrautarskíði með stálköntum, hlýr fatnaður, hlýir skór, bakpoki eða púlka. Gist verður í skálunum Berglandi og Laugafelli.
Dagskrá ferðarinnar:
1. d., föstudagur: Hólsgerði – Bergland
Ekið að Hólsgerði og skíðin spennt á gönguhópinn. Gist í Berglandi
Vegalengd: 15 km. Hækkun: 840 m.
2. d., laugardagur: Bergland – Laugafell
Ef veður er gott þá verður gengið um Sesseljubæ í Geldingsárdrögum á leiðinni í Laugafell. Laugin í Laugafelli bíður ylvolg eftir lúnum göngumönnum. Gist í Laugafelli.
Vegalengd um 20 km. Gönguhækkun óveruleg
3. d., sunnudagur: Laugafell – Hólsgerði
Stefnt er á að vera komin að fremsta bæ í Eyjafirði fyrir myrkur
Vegalengd: 35 km, töluvert undan fæti í lok dags
Hámark 10 manns.
Verð: 24.500 / 29.500 kr. Innifalið: Gisting í Berglandi og Laugafelli og fararstjórn
Greitt er fyrir þessa ferð við brottför.
Súlur 3 skór
9. maí, laugardagur
Brottför kl. 9 á einkabílum frá FFA, Strandgötu 23
Safnast saman í bíla ef vill.
Ferð FFA á bæjarfjall Akureyrar. Gengið er eftir merktri og nokkuð auðveldri gönguleið á fjallið. Af Súlum er afar fallegt útsýni. Göngubúnaður miðast við færi og aðstæður.
ATH. að vetri til og snemma vors er ganga á Súlur erfiðari en að sumri til.
Sama leið farin til baka.
Vegalengd: 11–12 km. Gönguhækkun: 880 m.
Þátttaka er ókeypis
Jógaferð í Garðsárdal 1 skór
16. maí, laugardagur
Brottför kl. 13 á einkabílum frá FFA, Strandgötu 23
Safnast saman í bíla ef vill.
Fararstjórn: Þuríður Helga Kristjánsdóttir
Ekið fram í Garðsárdal. Létt ganga um Garðsárreit þar sem þátttakendur nota skilningarvitin til að dýpka upplifun sína af náttúrunni. Gangan fer að mestu fram í kyrrð þar sem tækifæri er veitt til að rækta sál og líkama í fallegri náttúru Eyjafjarðar með gönguhugleiðslu ásamt núvitundar- og öndunaræfingum. Ferð við flestra hæfi.
Þátttaka ókeypis
Fuglaskoðunarferð um Friðland Svarfdæla 1 skór
23. maí, laugardagur
Brottför kl. 9 með rútu frá FFA, Strandgötu 23
Fararstjórn: Jón Magnússon og Sverrir Thorstensen
Fuglar skoðaðir í Friðlandi Svarfdæla. Farið verður á Böggvisstaðasand, að Flæðatjörn,
Hrísatjörn og Tjarnartjörn. Þar má búast við öllum helstu tegundum anda og vaðfugla.
Flórgoði og himbrimi eru árvissir á Hrísatjörn. Á Böggvisstaðasandi verpa t.d. kría,
stormmáfur, sandlóa og tjaldur. Frá Tjarnartjörn verður gengið yfir að Hánefsstaðaskógi
þar sem auðnutittlingur, glókollur, músarrindill, skógarþröstur og svartþröstur verpa. Rútan
kemur að skóginum og að lokum verður litið á fuglana á Saurbæjartjörn.
Gott er að hafa góðan sjónauka með.
Verð: 8.800 / 10.800 kr. Innifalið: Rúta og fararstjórn.
Greitt er fyrir þessa ferð við brottför.
Leirhnjúkur – Reykjahlíð – Hlíðarfjall 2 skór
30. maí, laugardagur
Brottför kl. 9 á einkabílum frá FFA, Strandgötu 23
Safnast saman í bíla ef vill.
Fararstjórn: Ingibjörg Elín Jónasdóttir
Ekið að bílastæði við Leirhnjúk norðan Kröfluvirkjunar. Fyrst er gengið að sprengigígnum Víti og þaðan að Leirhnjúk. Frá Leirhnjúk er farin stikuð leið til Reykjahlíðar sem fylgir að mestu hrauninu frá 1727 sem kallast Eldá. Leiðin liggur við suðurrætur Hlíðarfjalls og hægt að hafa viðkomu á fjallinu.
Vegalengd: 15 km. Gönguhækkun: Engin hækkun, en 300 m hækkun ef gengið er á Hlíðarfjall; val um það. Selflytja þarf bíla á milli Reykjahlíðar og Leirhnjúks
Verð: 2.700 / 4.400 kr. Innifalið: Fararstjórn.
Greitt er fyrir þessa ferð við brottför.
Ferð í Flatey á Skjálfanda 1 skór
6. júní, laugardagur
Mæting kl. 9 á Húsavík. Siglt frá Húsavík kl. 9:30.
Fararstjórn: Margrét Kristín Jónsdóttir
Siglt frá Húsavík með Norðursiglingu út í Flatey. Siglingin tekur um tvær klukkustundir. Náttúra og mannvirki eyjunnar skoðuð undir leiðsögn. Boðið verður upp á kaffi/kakó/te í Bjarmaskúr í lok göngu. Áætlaður tími í eyjunni um 2-3 klst. Siglt til baka til Húsavíkur seinnipartinn. Stoppað við Gatanöf á heimleiðinni fyrir þá sem vilja.
Verð: 22.000 / 25.000 kr. Innifalið: Sigling, hlýir gallar, kakó og snúðar um borð, fararstjórn, leiðsögn um eyna og kaffi/kakó/te.
Greiða þarf staðfestingargjald vegna skráningar í þessa ferð kr. 5.000 í síðasta lagi 14 dögum eftir að krafa er stofnuð í netbanka. Þessa ferð þarf síðan að greiða að fullu þremur dögum fyrir brottför. Krafa verður stofnuð í netbanka.
Bryðjuskál í Eyjafirði 2 skór
7. júní, sunnudagur
Brottför kl. 10 á einkabílum frá FFA, Strandgötu 23
Safnast saman í bíla ef vill.
Fararstjórn: Gunnar Már Gunnarsson
Bryðja var tröllkerling sem átti heima í Bryðjuskál í fjallinu fyrir ofan Munkaþverá. Gengið er upp frá bænum Sigtúnum um gróið land, upp með Smáragili þar sem má sjá fossaröð, þar á meðal Silfurfoss. Öll ferðin er nokkuð á fótinn. Farið verður rólega til að njóta ferðarinnar. Sama leið farin til baka.
Gönguhækkun: 270 m.
Verð: 2.200 / 3.900 kr. Innifalið: Fararstjórn.
Greitt er fyrir þessa ferð við brottför.
Fremstafell – Barnafoss – Barnafell – Fellsskógur 2 skór
13. júní, laugardagur
Brottför kl. 9 á einkabílum frá FFA, Strandgötu 23
Safnast saman í bíla ef vill.
Fararstjórn: Jónas Jónsson
Ekið að Fremstafelli í Kinn. Þaðan er gengið að Barnafossi og haldið svo áfram eftir skógarstíg meðfram Skjálfandafljóti. Gengið aðeins upp í Fellið og svo samhliða því alveg að norðurenda þess. Síðan er gengið að Ljósvetningabúð þar sem bílarnir voru skildir eftir. Ef vel viðrar verður gengið upp á Ytri-Hnjúkinn. Heyrum sögur af svæðinu auk þess að virða fyrir okkur stórkostlegt útsýnið en frá Kinnarfelli er mikið útsýni í allar áttir. Horfum yfir Skjálfandafljót og sjáum m.a. Ullarfoss.
Ekkert drykkjarvatn er á leiðinni. Seflytja þarf bíla á milli Fremstafells og Ljósvetningabúðar.
Vegalengd: 12–13 km. Gönguhækkun: 250–300 m.
Verð: 2.700 / 4.400 kr. Innifalið: Fararstjórn.
Greitt er fyrir þessa ferð við brottför.
Málmey. Saga, náttúra og menning 1 skór
20. júní, laugardagur
Mæting við kirkjuna á Hofsósi kl. 9:30. Báturinn fer kl. 10.
Fararstjórn: Herdís Zophoníasdóttir
Siglt er frá Hofsósi út í Málmey með Drangey Tours. Fararstjóri hittir hópinn við kirkjuna á Hofsósi og leiðir hópinn að bátnum. Fjölbreytt fuglalíf er í eynni, merkileg saga og náttúra. Gengið um eyjuna í um tvo tíma í fylgd staðkunnugs leiðsögumanns. Farið verður í útsýnissiglingu að Þórðarhöfða þar sem er stórkostlegt stuðlaberg og Drangey er einnig í sjónmáli. Sjóferðin tekur 4–5 klst. Hámarksfjöldi í bátinn er 17 manns.
Verð: 28.000 / 32.000 kr. Innifalið: Sigling, fararstjórn og leiðsögn á leiðinni og í eynni.
Greiða þarf staðfestingargjald vegna skráningar í þessa ferð kr. 5.000 í síðasta lagi 14 dögum eftir að krafa er stofnuð í netbanka. Þessa ferð þarf síðan að greiða að fullu þremur dögum fyrir brottför. Krafa verður stofnuð í netbanka.
Sólstöðuganga á Múlakollu 3 skór
20. júní, laugardagur
Brottför kl. 20 á einkabílum frá FFA, Strandgötu 23
Safnast saman í bíla ef vill.
Fararstjórn: Sigurbjörg Rún Jónsdóttir
Gengið upp á Múlakollu frá gamla Múlaveginum, upp dalinn norðan Brimnesár. Geysimikið útsýni er til allra átta af hátindi kollunnar og einstaklega fallegt að kvöldlagi á þessum árstíma. Sama leið farin til baka.
Vegalengd alls 8 km. Gönguhækkun: 930 m.
Verð: 2.700 / 4.400 kr. Innifalið: Fararstjórn.
Greitt er fyrir þessa ferð við brottför.
Miðnæturganga á Miðvíkurfjall 2 skór
21. júní, sunnudagur
Brottför kl. 22 á einkabílum frá FFA, Strandgötu 23
Safnast saman í bíla ef vill.
Fararstjórn: Hulda Jónsdóttir
Miðvíkurfjall (560 m hátt). Ekið er áleiðis upp í Víkurskarð og bílum lagt á lítið bílastæði sem þar er. Þaðan er gengið upp hlíðina meðfram læknum og stefnan tekin á hnjúkinn. Fallegt útsýni er yfir Eyjafjörðinn vestanverðan og út til hafsins. Ljúft að njóta fallegra síðkvölda á þessu fjalli.
Sama leið farin til baka.
Vegalengd alls um 4 km. Gönguhækkun er 320 m.
Þátttaka ókeypis
Þúfnagangur með Árna Arnsteinssyni 1 - 2 skór
22. júní, mánudagur
Brottför kl. 19 á einkabílum frá FFA, Strandgötu 23
Safnast saman í bíla ef vill.
Fararstjórn: Árni Arnsteinsson
Árni frá Dunhaga býður fólki með sér í kvöldgöngu þar sem gengið verður frá Grjótgarði að Heiðarhúsum sem er gamalt eyðubýli. Hann verður m.a. með einhvern fróðleik um fólk og staði á þessu svæði. Gangan tekur um 2 klukkustundir.
Vegalengd: 4–5 km. Gönguhækkun: um 100 m.
Þátttaka ókeypis
Hrossadalur 1 - 2 skór
23. júní, þriðjudagur
Brottför kl. 19 á einkabílum frá FFA, Strandgötu 23
Safnast saman í bíla ef vill.
Fararstjórn: Una Þ. Sigurðardóttir
Ekið upp í Víkurskarð. Gengið fram Hrossadal suður af skarðinu og m.a. skoðaðar leifar af gamalli rétt. Síðan er haldið áfram eftir dalnum eins og veður og aðstæður leyfa og aftur að Víkurskarði þar sem bílarnir bíða. Göngulandið er gróið, kjarr og nokkuð þýft. Gott að hafa göngustafi.Vegalengd 8–10 km. Gönguhækkun um 100–200 m.
Þátttaka ókeypis
Hólavatn í Eyjafirði 1 - 2 skór
24. júní, miðvikudagur
Brottför kl. 19 á einkabílum frá FFA, Strandgötu 23.
Safnast saman í bíla ef vill.
Fararstjórn: Helga Sigfúsdóttir og Hugrún Sigmundsdóttir
Gengið kringum Hólavatn, norðan og vestan megin vatnsins er gengið um hólana en sunnan og austanvert við vatnið er gengið í fjöruborðinu.
Vegalengd: 3 km. Gönguhækkun: Óveruleg.
Þátttaka ókeypis
Uppsalahnjúkur 2 - 3 skór
25. júní, fimmtudagur
Brottför kl. 17 á einkabílum frá FFA, Strandgötu 23
Safnast saman í bíla ef vill.
Fararstjórn: Arnar Bragason
Ekið er að Öngulstöðum 4 og þaðan að sumarhúsinu Seli. Gengið er til suðurs upp á Haus þar sem er varða og áfram inn eftir fjallinu um greiðfær holt og stefnt austanvert við hnjúkinn. Síðan er gengið upp norðaustur hrygg fjallsins uns komið er á hnjúkinn. Útsýni hér er mikið yfir héraðið.
Vegalengd: 9 km. Gönguhækkun: 870 m.
Þátttaka ókeypis
Fossaferð í Eyjafirði 1 skór
26. júní, föstudagur
Brottför kl. 19 á einkabílum frá FFA, Strandgötu 23.
Safnast saman í bíla ef vill.
Fararstjórn: Sr. Svavar A. Jónsson
Svavar leiðir göngu um Þverárgil í Eyjafirði þar sem hægt er að sjá nokkra fallega fossa þar á meðal Litla Goðafoss. Ferðin tekur 2–3 tíma og er einhver hækkun upp með gilinu til að sjá fossana. Gert er ráð fyrir að koma til baka um kl. 22.
Þátttaka ókeypis
Kvennaferð á Víknaslóðir 3 - 4 skór
25.–28. júní
Fararstjórar: Ásdís Skúladóttir og Birna Guðrún Baldursdóttir
Gangan hefst í Borgarfirði eystri fimmtudaginn 25. júní kl. 10 og lýkur á Seyðisfirði síðdegis 28. júní. Þeir sem vilja skilja bíla eftir á Seyðisfirði geta fengið far yfir í Borgarfjörð að morgni 25. júní. Aðrir hittast í Bakkagerði, Borgarfirði. Ferðin er trússuð, þannig að þátttakendur bera aðeins léttan dagspoka meðan á göngu stendur.
Göngusvæðið Víknaslóðir nær frá Borgarfirði eystri yfir til Loðmundarfjarðar. Svæðið er einstakt fyrir stórbrotna náttúrufegurð þar sem víkur, firðir, líparítfjöll og tignarleg fjallasýn mynda ógleymanlegt landslag. Gönguleiðirnar eru fjölbreyttar og friðsælar og þangað liggur leiðin í nærandi og skemmtilega kvennaferð með trússi.
Ferðin sameinar útivist og sjálfsrækt. Á dagskránni eru gönguferðir, hugleiðslur, léttar jógaæfingar, sjálfsþekkingarleikir, köld böð og sameiginlegir morgun- og kvöldverðir. Mikilvægt er að mæta verkefnum ferðarinnar með opnum og jákvæðum huga og njóta ferðalagsins til fulls.
Gist verður þrjár nætur í skálum Ferðafélags Fljótsdalshéraðs á Víknaslóðum; í Breiðuvík, Húsavík og Loðmundarfirði, þar sem aðstaða er frábær.
Verð: 49.500 / 58.500 kr. Innifalið: Gisting í þrjár nætur og fararstjórn.
Greiða þarf staðfestingargjald vegna skráningar í þessa ferð kr. 10.000 í síðasta lagi 14 dögum eftir að krafa er stofnuð í netbanka. Þessa ferð þarf síðan að greiða að fullu fyrirfram, þremur dögum fyrir brottför. Krafa verður stofnuð í netbanka.
Fararstjórar sjá um matarinnkaup. Trúss, matur og bílferð verður innheimt sérstaklega einum degi fyrir ferð. Trúss kostar 10.000 kr. á mann.
Dagskrá ferðarinnar:
1. d., fimmtudagur: Borgarfjörður – Breiðavík
Gengið er frá Kolbeinsfjöru um Brúnavíkurskarð að björgunarskýli í Brúnavík. Þá er farið yfir Brúnavíkurá og gengið áfram um mela og gróið land yfir Súluskarð að Breiðavíkursskála, þar sem gist verður eina nótt.
Vegalengd: 13–14 km. Gönguhækkun: um 900 m.
2. d., föstudagur: Breiðavík – Húsavík
Frá Breiðuvík er gengið fram hjá bæjarrústum í Litluvík, upp Litluvíkurdal, um Dalsvarp og yfir Herjólfsvíkurvarp að Gunnhildardal. Þaðan er haldið að Húsavíkursskála, þar sem gist er eina nótt. Mjög falleg gönguleið, þó sums staðar brött.
Vegalengd: 11 km. Gönguhækkun: um 700 m.
3. d., laugardagur: Húsavík – Loðmundarfjörður
Gengið er upp á Nesháls og Grjótbrún þar sem útsýnið yfir Loðmundarfjörð og að Dalatanga er stórkostlegt í góðu skyggni. Þaðan er haldið yfir Hrafnatinda og gengið með þeim að Hraundal, yfir Hrauná og niður að Klyppstöðum í Loðmundarfirði, þar sem gist verður í glæsilegum skála.
Vegalengd: 14–15 km. Gönguhækkun: um 700 m.
4. d., sunnudagur: Loðmundarfjörður – Seyðisfjörður
Gengið er út sunnanverðan Loðmundarfjörð og upp á Hjálmárdalsheiði. Á leiðinni verður komið við á Sævarenda, þar sem gestir fá að kíkja á æðavarpið og hitta æðabændur.
Þegar komið er á brúnir Seyðisfjarðar er haldið niður brattar hlíðar að vegi þar sem bílar bíða hópsins. Að lokum er ekið til Seyðisfjarðar þar sem hópurinn nýtur góðrar máltíðar saman (ekki innifalið í verði).
Vegalengd: 12–13 km. Gönguhækkun: um 670 m.
Hámarksfjöldi: 16 konur.
Ásdís og Birna þekkja svæðið vel og hafa gengið mikið þar um. Þær hafa verið skálaverðir í Loðmundarfirði síðustu tíu sumur og einnig eitt sumar í Breiðuvík. Það er því mikil tilhlökkun að bjóða ykkur með í þessa einstöku ferð og njóta stórbrotinnar náttúru Austfjarða í góðum hópi kvenna.
Athugið: Veður og aðstæður geta haft áhrif á leiðarval, sem auðvelt er að breyta ef þörf krefur.
Mývatnssveit: Skútustaðir – Litlaströnd – Grænavatn – Skútustaðir 1 - 2 skór
27. júní, laugardagur
Brottför kl. 8 á einkabílum frá FFA, Strandgötu 23
Safnast saman í bíla ef vill.
Lagt af stað frá bílastæðinu við Hótel Sel á Skútustöðum kl. 09:30
Fararstjórn: Þóroddur Þóroddsson
Gengið með Kráká að bænum Litluströnd áður en haldið verður yfir Framengjar sem öldum saman voru undirstaða heyfengs á fjölda bæja í sveitinni. Síðan er gengið eftir gömlum götum og bílslóðum allt þar til komið er að Grænavatni þar sem verður stoppað um stund og fræðst um sögu staðarins og gömlu húsanna þar. Eftir gott nestisstopp á Grænavatni er gengið út að Garði og gamla þjóðveginn meðfram vatninu að Skútustöðum. Stoppað við Arnarbæli og endað á Skútustöðum um klukkan 17:00. Gott að taka með sér nesti.
Öll þessi ganga er á gömlum vegum og fjárgötum. Á allri leiðinni verður fræðst um ýmislegt s.s. þjóðsögur, heyskaparhætti, endurheimt votlendis, áveitur, gervigíga og margt fleira.
Vegalengd: um 15 km. Gönguhækkun: Engar brekkur eða torfærur sem orð er á gerandi.
Verð: 3.700 / 5.400 kr. Innifalið: Fararstjórn.
Greitt er fyrir þessa ferð við brottför.
Kerling: Sjö tinda ferð 4 skór
4. júlí, laugardagur
Brottför kl. 8 á einkabílum og rútu frá FFA, Strandgötu 23
Fararstjórn: Arnar Bragason og Ásdís Skúladóttir
Ekið á einkabílum að bílastæðinu við Súluveg þar sem bílarnir eru skildir eftir. Rúta ekur þátttakendum að Finnastöðum þaðan sem gengið er á Kerlingu 1538 m, hæsta fjall í byggð á Íslandi. Síðan er gengið norður eftir tindunum; Hverfanda 1320 m, Þríklökkum 1360 m, Bónda 1350 m, Litla Krumma, Stóra Krumma, Syðri-Súlu 1213 m, Ytri-Súlu 1143 m og niður í Glerárdal þar sem bílar þátttakenda bíða.
Þetta er krefjandi ganga enda merkt fjögurra skóa ferð. Þátttakendur þurfa að vera í góðu gönguformi. Gangan getur tekið 13 klst. en það fer allt eftir hópnum, færð og veðri. Þátttakendur þurfa að klæða sig eftir veðri og taka með sér gott og orkuríkt nesti til dagsins og nóg af vatni þar sem ekki er víst að vatn sé að finna á leiðinni. Í svona krefjandi ferð eru jöklabroddar og ísaxir sem þeim fylgja mikilvægur öryggisbúnaður. Fararstjóri lætur vita þegar nær dregur um nauðsynlegan öryggisbúnað.
Vegalengd: 20–21 km. Gönguhækkun: Alls 1.800 m.
Verð: 11.500 / 14.000 kr. Innifalið: Rúta og fararstjórn.
Greitt er fyrir þessa ferð við brottför.
Moldhaugnaháls – Litli Hnjúkur 2 skór
5. júlí, sunnudagur
Brottför kl. 9 á einkabílum frá FFA, Strandgötu 23
Safnast saman í bíla ef vill.
Fararstjórn: Árni Arnsteinsson á Grjótgarði
Ekið að bænum Moldhaugum þar sem bílar eru skildir eftir og gangan hefst. Gengið er um móa og mela þar til komið er á hrygg Moldhaugnahálsins. Þaðan er háhryggnum fylgt með útsýni til beggja átta uns komið er á Litla Hnjúk (790 m hár). Þeir sem ekki vilja fara alla leið geta alltaf snúið við. Farið verður rólega og sögur sagðar á leiðinni og jafnvel farnir einhverjir útúrdúrar, allt eftir því hvað fararstjóra dettur í hug og aðstæður leyfa. Þetta er þægileg ganga upp eftir hálsinum og er síðasti spölurinn á Litla Hnjúk nokkuð grýttur. Sama leið farin til baka.
Vegalengd: 10–12 km. Gönguhækkun: 690 m allt eftir því hve hátt fólk vill fara
Verð: 2.700 / 4.400 kr. Innifalið: Fararstjórn.
Greitt er fyrir þessa ferð við brottför.
Flatey á Skjálfanda 1 skór
11. júlí, laugardagur
Mæting kl. 9 á Húsavík. Siglt frá Húsavík kl. 9:30.
Fararstjórn: Margrét Kristín Jónsdóttir
Siglt frá Húsavík með Norðursiglingu út í Flatey. Siglingin tekur um tvær klukkustundir. Náttúra og mannvirki eyjunnar skoðuð undir leiðsögn. Boðið verður upp á kaffi/kakó/te í Bjarmaskúr í lok göngu. Áætlaður tími í eyjunni um 2–3 klst. Siglt til baka til Húsavíkur seinnipartinn. Stoppað við Gatanöf á heimleiðinni fyrir þá sem vilja
Verð: 22.000 / 25.000 kr. Innifalið: Sigling, hlýir gallar, kakó og snúðar um borð, fararstjórn, leiðsögn um eyna og kaffi/kakó/te.
Greiða þarf staðfestingargjald vegna skráningar í þessa ferð kr. 5.000 í síðasta lagi 14 dögum eftir að krafa er stofnuð í netbanka. Þessa ferð þarf síðan að greiða að fullu þremur dögum fyrir brottför. Krafa verður stofnuð í netbanka.
Þveráröxl – Þúfufjall í Fnjóskadal 2- 3 skór
11. júlí, laugardagur
Brottför kl. 8 á einkabílum frá FFA, Strandgötu 23
Safnast saman í bíla ef vill.
Fararstjórn: Ósk Helgadóttir
Lagt er upp frá Lokastaðarétt í Dalsmynni, þar sem gangan hefst. Við höldum út á Réttarhólinn og göngum þaðan upp Þveráröxl sem er utan og ofan við bæinn Þverá. Þaðan er haldið áfram inn á fjallið, þar sem heitir Þúfufjall. Komið niður við bæinn Þúfu sem er tilheyrandi eyðibyggðinni yst í Fnjóskadal. Nokkuð brött ganga á mikinn útsýnisstað þar sem sagan drýpur af hverju strái. Áður en gangan hefst þarf að ferja bíl þessa 4 km frá Lokastöðum að Þúfu til að skutla bílstjórum til baka að Lokastaðarétt eða ganga til baka.
Vegalengd: 7–8 km. Gönguhækkun: 800–900 m.
Verð: 5.200 / 6.900 kr. Innifalið: Fararstjórn.
Greitt er fyrir þessa ferð við brottför.
Mývatnssveit: Hofsstaðir - Hofsstaðaheiði - Sandvatn - Hólkotsgil - Hofsstaðir 1 - 2 skór
12. júlí, sunnudagur
Safnast saman í bíla ef vill.
Brottför kl. 8 á einkabílum frá FFA, Strandgötu 23
Lagt af stað frá Hofsstöðum kl. 9:30
Fararstjórn: Egill Freysteinsson, Vagnbrekku í Mývatnssveit
Gengið frá Hofsstöðum upp í Hofsstaðaheiði með útsýni yfir Mývatn og Sandvatn og að vesturenda vatnsins, síðan niður með Hólkotsgili að Laxá. Eftir nestisstopp við Laxá er gengið upp með ánni uppi í miðjum hlíðum og fæst þá gott útsýni yfir Laxá og niður eftir efsta hluta Laxárdals. Fræðst verður um fyrri tíðar virkjunaráform og áhrif sem þeim hefði fylgt á svæðið. Komið við hjá „Áslaugu“ sem er volgra og geta einhverjir ef til vill fengið sér þar fótabað. Ferðin endar svo á Hofsstöðum og þar verður fræðst um sögu bæjarins og minjar sem þar hafa fundist. Gangan frá Hofsstöðum að Sandvatni er eftir bílslóð en síðan er mólendi og í hlíðinni upp með Laxá er lyngmói og e.t.v. leifar af kindagötum. Göngunni lýkur á Hofsstöðum milli klukkan 14 og 15.
Vegalengd: 10–12 km. Gönguhækkun: 150 m.
Verð: 2.700 / 4.400 kr. Innifalið: Fararstjórn.
Greitt er fyrir þessa ferð við brottför.
Herðubreiðarlindir - Bræðrafell - Askja 3 skór
12.–15. júlí
Brottför kl. 8 með rútu frá FFA, Strandgötu 23
Fararstjórn: Selma S. Malmquist
Ekið með rútu í Herðubreiðarlindir. Gist er í skálum FFA við Bræðrafell og Drekagil. Bera þarf allan farangur og því mikilvægt að huga að því sem tekið er með. Svæðið sem farið er um státar af sérkennilegum og fallegum hraunmyndunum, auðn, litadýrð og ekki síst mikilli kyrrð. Nálægðin við Herðubreið hefur líka sín áhrif.
Dagskrá ferðarinnar:
1.d., sunnudagur: Herðubreiðarlindir – Bræðrafell
Ekið í Herðubreiðarlindir. Eftir kaffi er gengið um greiðfært hraun í Bræðrafell og gist þar. Taka þarf með vatn til dagsins.
Vegalengd: 19 km.
2.d., mánudagur: Bræðrafell
Gengið á Kollóttudyngju og Bræðrafell skoðað. Gist í Bræðrafellsskála aðra nótt.
Vegalengd: 8–12 km.
3.d., þriðjudagur: Bræðrafell – Dreki
Gengið frá Bræðrafelli í Drekagil. Gist í skála FFA við Drekagil
Vegalengd: 21–22 km. Gönguhækkun: Engin
4. d., miðvikudagur: Dreki – Askja
Gengið frá Drekagili yfir Dyngjufjöll að Öskju. Ekið heim um kvöldið.
Vegalengd: 10–11 km. Gönguhækkun: 650 m.
Hámarksfjöldi 15 manns.
Verð: 72.000 / 77.500 kr. Innifalið: Rúta, gisting í þrjár nætur og fararstjórn.
Greiða þarf staðfestingargjald vegna skráningar í þessa ferð 10.000 kr. í síðasta lagi 14 dögum eftir að krafa er stofnuð í netbanka. Þessa ferð þarf síðan að greiða að fullu fyrirfram, þremur dögum fyrir brottför. Krafa verður stofnuð í netbanka.
Helgarferð á Herðubreið 4 skór
17.–19. júlí
Brottför kl. 17 á einkabílum (góðum jeppum) frá FFA, Strandgötu 23
Fararstjórn: Selma S. Malmquist
Árleg ferð FFA á þjóðarfjallið Herðubreið (1682 m). Gist í skála FFA við Drekagil eða í tjaldi. Nauðsynlegt að vera á jeppum sem komast að uppgöngunni á Herðubreið. Hægt er að sameinast í bíla og því gott að vita ef einhverjir geta tekið farþega.
Hjálmur er nauðsynlegur öryggisbúnaður auk þess þarf að hafa með jöklabrodda og ísöxi til öryggis.
Dagskrá ferðarinnar:
1. d., föstudagur: Lagt af stað frá Akureyri kl. 17. Ekið í Drekagil, gist þar. Kvöldrölt um svæðið ef vill.
2. d., laugardagur: Gengið á Herðubreið. Gangan á Herðubreið er stutt (6 km upp og niður) og brött (1000 m hækkun). Sjálf gangan getur tekið 6 – 7 klst. Gist aftur í Drekagili.
3. d., sunnudagur: Heimferð. Margt er að sjá í Drekagili og fólki gefst tækifæri til að skoða sig um á svæðinu áður en haldið er heim. Gert er ráð fyrir að koma til Akureyrar seinnipart dags.
Vegalengd alls 6 km. Gönguhækkun: 1000 m.
Verð: Í skála 21.000 / 26.000 kr. Í tjaldi 15.500 / 18.000 kr. Innifalið: Gisting í tvær nætur og fararstjórn.Greiða þarf staðfestingargjald vegna skráningar í þessa ferð kr. 5.000 í síðasta lagi 14 dögum eftir að krafa er stofnuð í netbanka. Þessa ferð þarf síðan að greiða að fullu þremur dögum fyrir brottför. Krafa verður stofnuð í netbanka.
Stefnt er að því að hafa örnámskeið í notkun jöklabrodda og ísaxa í vetur.
Fossdalur við Ólafsfjörð 1–2 skór
18. júlí, laugardagur
Brottför kl. 10 á einkabílum frá FFA, Strandgötu 23.
Safnast saman í bíla ef vill.
Fararstjórn: Helga Guðnadóttir
Gengið frá Ytri-Á á Kleifum í Ólafsfirði og út í Fossdal. Gengið á slóða og um gróið land að mestu. Tilvalin gönguferð fyrir flesta.
Sama leið farin til baka.
Vegalengd ca. 10–12 km. Gönguhækkun ca. 100 m.
Verð: 2.200 / 3.900 kr. Innifalið: Fararstjórn.
Greitt er fyrir þessa ferð við brottför.
Ólafsfjarðarskarð 3 skór
18. júlí, laugardagur
Brottför kl. 8 á einkabílum frá FFA, Strandgötu 23. Rúta sækir svo hópinn í Brúnastaði.
Safnast saman í bíla ef vill.
Fararstjórn: Una Sigurðardóttir
Ekið er að Þverá í Ólafsfirði. Gengið þaðan inn Kvíabekkjardal, upp í Ólafsfjarðarskarð sem er í 740 m hæð. Þaðan sést vel niður í Ólafsfjarðardal, Fljótin og Miklavatn. Gengið niður dalinn og endað við Brúnastaði. Áður fjölfarin póstleið milli Ólafsfjarðar og Fljóta.
Vegalengd 15–16 km. Gönguhækkun 670 m.
Verð: 10.500 / 12.500 kr. Innifalið: Fararstjórn og rúta sem sækir hópinn í Brúnastaði.
Greitt er fyrir þessa ferð við brottför.
Skuggabjargaskógur: Rafhjólaferð á fjallahjóli 2 hjól
19. júlí, sunnudagur
Safnast saman í bíla ef vill.
Brottför kl. 8 á einkabílum frá FFA, Strandgötu 23
Fararstjórn: Jón M. Ragnarsson og Stefán Sigurðsson
Ekið að námunni við Víkurskarð og hjólað norður að Draflastöðum. Áfram er haldið í gegnum Melaskóg og Skuggabjargaskóg, um Dalsmynni og meðfram Fnjóská að brúnni. Síðan er hjólaður stuttur spotti á þjóðveginum á byrjunarreit og haldið heim.
Þeir sem eiga flutningsfestingu fyrir hjól nota hana, aðrir geta fengið hjólin flutt á hjólakerru.
Vegalengd: 40–45 km. Hækkun er viðráðanleg á þessari leið.
Gert ráð fyrir að hjólað sé í þrjár klukkustundir en ferðin verði fjórar klukkustundir með stoppum og nestispásu, síðan bætist bílferðina við.
Verð: 6.200 / 7.700 kr. Innifalið: Fararstjórn og flutningur á hjólum á hjólakerru fyrir þá sem þurfa.
Greitt er fyrir þessa ferð við brottför.
Dýjafjallshnjúkur 4 skór
25. júlí, laugardagur
Brottför kl. 8 frá FFA, Strandgötu 23
Safnast saman í bíla ef vill.
Fararstjórn: Anna Sigrún Rafnsdóttir og Kristján Hreinsson
Gengið frá bænum Dagverðartungu í Hörgársveit sunnan Fornhagagils. Síðan fram með Úlfá og Tungudalsá inn í Ytri-Tungudal að Dyngjuhnjúk (1445 m hár). Þar er farið norður yfir Tungudalsá og stefnt upp á Dýjafjallshnjúk. Sama leið farin til baka.
Ef útlit er fyrir að það þurfi sérstakan búnað eins og brodda þá láta fararstjórar vita tímanlega.
Vegalengd alls 20 km. Gönguhækkun: 1365 m.
Verð: 5.200 / 6.900 kr. Innifalið: Fararstjórn.
Greitt er fyrir þessa ferð við brottför.
Öskjuvegurinn; fjögurra daga ferð: TRÚSSFERÐ 3 skór
26.–29. júlí
Brottför kl. 8 með rútu frá FFA, Strandgötu 23
Fararstjórn: Kristín Irene Valdemarsdóttir
Bílstjóri: Jón Marinó Sævarsson
Í ferðinni er gengið með lágmarksbúnað. Trússbíll ekur með farangur á milli skála. Bíllinn fylgir hópnum allan tímann. Fólk er beðið að takmarka farangur eins og hægt er. Rúta sækir svo hópinn í lok ferðar. Gist í skálum FFA; Dreka, Dyngjufelli og Botna. Gönguhækkun er lítil á þessari leið.
Dagskrá ferðarinnar:
1. d., sunnudagur: Dreki – Askja
Ekið í Dreka, með viðkomu í Herðubreiðarlindum. Stutt stopp í Dreka þar sem rútan bíður eftir hópnum og ekur svo með hópinn upp á Vikraplan. Þaðan er gengið að Öskjuvatni og komið við í Víti. Síðan er gengið til baka yfir fjöllin og endað í Dreka þar sem er gist. Vegalengd: 13–14 km.
2. d., mánudagur: Dreki – Dyngjufell
Ekið upp á Vikraplan. Gengið eftir stikaðri leið þaðan, yfir Dyngjufjöll um Jónsskarð og niður í Dyngjufjalladal. Gist í Dyngjufelli, skála FFA. Vegalengd: 14 km.
3. d., þriðjudagur: Dyngjufell – Botni
Frá Dyngjufelli er gengið norður Dyngjufjalladal í Suðurárbotna. Gist í Botna, skála FFA Vegalengd: 20–22 km.
4. d., miðvikudagur: Botni - Svartárkot
Lokadagur; gömlum jeppaslóða er fylgt frá Botna í Suðurárbotna og meðfram Suðurá að Svartárkoti. Vegalengd: 15–16 km.
Ekið með rútu til Akureyrar. Gert ráð fyrir að koma þangað um kl. 17.
Verð: 95.000 / 101.000 kr. Innifalið: Trúss, rúta, gisting í þrjár nætur og fararstjórn.
Greiða þarf staðfestingargjald vegna skráningar í þessa ferð kr. 10.000 í síðasta lagi 14 dögum eftir að krafa er stofnuð í netbanka. Þessa ferð þarf síðan að greiða að fullu þremur dögum fyrir brottför. Krafa verður stofnuð í netbanka.
Möðruvallafjall í Eyjafirði fram 3 - 4 skór
8. ágúst, laugardagur
Brottför kl. 8 með rútu frá FFA, Strandgötu 23
Safnast saman í bíla ef vill.
Fararstjórn: Ásdís Skúladóttir og Sigurbjörg Rún Jónsdóttir
Möðruvallafjall er tignarlegt fjall sem rís yfir austanverða Eyjafjarðarsveit. Það tengist nærliggjandi fjöllum og hálendissvæðum og býður upp á fjölbreyttar og skemmtilegar gönguleiðir. Útsýnið af fjallinu er mikið og þar sem má njóta kyrrðar og náttúrufegurðar í ríkum mæli. Í þessari ferð er ætlunin að kanna landslagið, njóta samveru og upplifa náttúruna. Fyrsti hluti leiðarinnar er nokkuð brattur, en eftir það er hún fremur greiðfær. Ekið verður fram Eyjafjörð að austanverðu og bílum lagt við Sámsstaði, þar sem gangan hefst. Gengið verður upp á hálsinn ofan við bæinn og þaðan að Öxnafellsnibbu (820 m), sem er nyrsti hluti Möðruvallafjalls. Þaðan verður haldið suður eftir fjallinu að hæsta punkti þess, um 1000 m yfir sjávarmáli. Gangan heldur áfram til suðurs þar til komið er að Illagili í Sölvadal. Þá verður gengið á Kerhólsöxlina (960 m) og þaðan fylgt þægilegum vegslóða niður í Sölvadal með Illagil á hægri hönd. Gengið er yfir brú á Núpá norðan Eyvindarstaða, þar sem ferðinni lýkur. Að lokinni göngu verður hópurinn sóttur í Sölvadal síðla dags.
Vegalengd: 21 km. Gönguhækkun: 1100 m.
Mikilvægt er að þátttakendur séu í góðum gönguskóm og hafi meðferðis göngustafi. Nauðsynlegt er að taka með sér orkuríkt nesti og nægt vatn. Á leiðinni verða teknar góðar pásur og ef aðstæður leyfa verður boðið upp á hugleiðslu og slökun fyrir þá sem vilja. Að göngu lokinni verða gerðar teygjuæfingar til að liðka líkamann.
Verð: Verð: 5.200 / 6.900 kr. Innifalið: Fararstjórn.
Greitt er fyrir þessa ferð við brottför.
Strýta
15. ágúst, laugardagur 3 skór
Brottför kl. 8 á einkabílum frá FFA, Strandgötu 23
Safnast saman í bíla ef vill.
Fararstjórn: Arnar Bragason
Ekið að Skíðastöðum. Gengið upp Mannshrygg á Hlíðarfjall og þaðan eftir fjallsbrúnum yfir Vindheimajökul og því næst gengið á Strýtu, 1456 m, þar sem útsýni er mikið til allra átta. Sama leið er farin til baka. Gott að hafa með sér brodda.
Vegalengd alls 14 km. Gönguhækkun: 960 m.
Verð: 5.200 / 6.900 kr. Innifalið: Fararstjórn.
Greitt er fyrir þessa ferð við brottför.
Jarðfræði Bræðrafells og nágrennis 1 - 2 skór
14.–16. ágúst
Brottför kl. 12 frá FFA, Strandgötu 23. Farið er með rútu í Herðubreiðarlindir og þaðan fær hópurinn skutl að uppgöngunni á Herðubreið þar sem gangan hefst, eins verður á bakaleiðinni.
Fararstjórn: Fjóla K. Helgadóttir, Hjalti Jóhannesson og Sigurveig Árnadóttir jarðfræðingur
Ódáðahraun er mikið gósenland fyrir þá sem áhuga hafa á jarðfræði, því býður FFA upp á jarðfræðiferð þar sem Kollóttadyngja og svæðið þar í kring verður skoðað. Í sunnanverðu Ódáðahrauni við Bræðrafell í Kollóttudyngju á FFA nýlegan og vel búinn 16 manna gönguskála, þar sem gist verður í tvær nætur.
Í Ódáðahrauni er vatn af skornum skammti. Vatni er safnað af þaki skálans en þó er nauðsynlegt að taka a.m.k. tvo lítra af vatni á mann meðferðis til öryggis. Svæðið sem farið er um ber merki mikilla eldsumbrota. Það státar af sérkennilegum og fallegum hraunmyndunum, auðn, litadýrð og ekki síst mikilli kyrrð og mun jarðfræðingur sem er með í för fræða okkur um það sem fyrir augu ber.
Dagskrá ferðarinnar:
1.d., föstudagur: Lagt af stað frá Akureyri kl. 12.00. Ekið sem leið liggur í Herðubreiðarlindir þar sem stoppað verður í stutta stund. Eftir það ekið áfram sem leið liggur vestur fyrir Herðubreið eftur torfærum jeppaslóða og gengið þaðan um 7.5 km í vestur að Bræðrafelli. Gengið verðum yfir Flötudyngju, sem ber nafn með rentu. Þar er að sjá margar skemmtilegar jarðmyndanir og risastóra gíga. Skálinn er í 720 m hæð og lítil sem engin hækkun.
2.d., laugardagur: Gengið á Kollóttudyngju (1.177 m) en þaðan er afar víðsýnt og Bræðrafell og ýmsar aðrar jarðmyndanir skoðaðar á bakaleiðinni. Hækkun um 500 m.
3.d., sunnudagur: Gengin sama leið til baka í átt að uppgöngunni á Herðubreið þar sem bílarnir bíða og aka ferðalöngum til Akureyrar. Áætlaður komutími til Akureyrar er kl. 16-17.
Hámarksfjöldi 12 manns.
Verð: 63.500 / 68.500 kr. Innifalið: Rúta og akstur frá Lindum að uppgöngunni á Herðubreið, gisting í tvær nætur, fararstjórn og fræðsla.
Greiða þarf staðfestingargjald vegna skráningar í þessa ferð kr. 10.000 kr. í síðasta lagi 14 dögum eftir að krafa er stofnuð í netbanka. Þessa ferð þarf síðan að greiða að fullu fyrirfram, þremur dögum fyrir brottför. Krafa verður stofnuð í netbanka.
Hvalvatnsfjörður. Rafhjólaferð 3 hjól
16. ágúst, sunnudagur
Brottför kl. 8 á einkabílum frá FFA, Strandgötu 23
Fararstjórn: Jón M. Ragnarsson og Stefán Sigurðsson
Safnast saman í bíla ef vill.
Ekið verður sem leið liggur í átt að Grenivík og ekið inn á Leirdalsheiði. Hjólin tekin af við Gljúfurá á Leirdalsheiði. Síðan er hjólað út Hvalvatnsfjörð með sínu stórkostlega útsýni.
Hjólað í 3–4 klst með stoppum.
Vegalengd: 37–42 km. Hækkun er töluverð á þessari leið sérstaklega á leiðinni til baka
Gott er að hafa með sér vaðskó þar sem hugsanlega þarf að vaða yfir eitt vatnsfall.
Þeir sem eiga flutningsfestingu fyrir hjól nota hana, aðrir geta fengið hjólin flutt á hjólakerru.
Verð: 6.200 / 7.900 kr. Innifalið: Fararstjórn og flutningur á hjólum á hjólakerru fyrir þá sem þurfa.
Greitt er fyrir þessa ferð við brottför.
Forvöð austan Jökulsárgljúfra 1 - 2 skór
22. ágúst, laugardagur
Brottför kl. 8 á einkabílum frá FFA, Strandgötu 23
Safnast saman í bíla ef vill.
Fararstjórn: Guðlaugur B. Aðalsteinsson
Gengið um mikilfengleg Jökulsárgljúfur að austan. Vígabjarg, Grettisbæli, Réttarfoss, fallega bergganga sem minna á Hljóðakletta, Kallbjörg, Hallhöfðaskóg og prýði svæðisins Hallhöfða, næstum ókleifan stuðlabergshöfða.
Vegalengd: 5 km. Gönguhækkun: Óveruleg.
Verð: 2.700 / 4.400 kr. Innifalið: Fararstjórn.
Greitt er fyrir þessa ferð við brottför.
Fjórir tindar í Eyjafirði. Laufásstrandarfjöllin 3 skór
22. ágúst, laugardagur
Brottför kl. 8 á einkabílum frá FFA, Strandgötu 23
Safnast saman í bíla ef vill.
Fararstjórn: Hulda Jónsdóttir
Gangan hefst við malarnámuna við þjóðveginn milli Ystu Víkur og Fagrabæjar. Gengið upp á Ystuvíkurfjall og norður á Kræðufell, þaðan niður í Fagrabæjargil (bratt og skriður) og upp á Dýrðarnípu yfir á Dýrðarbungu og endað á Laufáshnjúk. Síðustu 300 metrarnir eru svolítið brölt. Að lokum er farið niður af Laufáshnjúk þar sem bílar munu bíða en byrja þarf á að ferja bíla þangað. Útsýnið af fjöllunum er mikið og geysifagurt bæði til suðurs og norðurs. Vegalengd: 11–12 km. Gönguhækkun: 1000 m.
Verð: 5.200 / 6.900 kr. Innifalið: Fararstjórn.
Greitt er fyrir þessa ferð við brottför.
Gæsadalur - Gæsafjöll 2 skór
29. ágúst, laugardagur
Brottför kl. 8 á einkabílum frá FFA, Strandgötu 23
Safnast saman í bíla ef vill.
Fararstjórn: sr. Þorgrímur G. Daníelsson
Safnast saman í bíla ef vill. Athugið að best er að vera á jeppa en sennilega er nóg að vera á jepplingum.
Ekið að mynni Gæsadals og þaðan gengið inn dalinn yfir skriðurnar austan árinnar og síðan upp úr honum að austanverðum. Þegar upp er komið er skoðaður dálítill gígur með fallegu fjallavatni og síðan gengið á tind Gæsafjalla, þar sem er eitt besta útsýni þingeyskra heiða. Af tindinum er gengið niður í Skessuskál og þaðan aftur að bílunum.
Vegalengd: 15 km. Gönguhækkun: 450 m.
Verð: 5.200 / 6.900 kr. Innifalið: Fararstjórn.
Greitt er fyrir þessa ferð við brottför.
Bakkar Eyjafjarðarár
5. september, laugardagur 1–2 skór
Safnast saman í bíla ef vill.
Brottför kl. 10 á einkabílum frá FFA, Strandgötu 23
Fararstjórn: Ingvar Teitsson
Gangan hefst við bílastæðið neðan við Kaupang. Gengið að gömlu brúnni yfir Eyjafjarðará og meðfram bökkum Eyjafjarðarár. Gengið um eyðibýlið Kaupangsbakka og sagðar sögur af svæðinu. Þægilegum slóða fylgt meðfram ánni allt að brúnni við Hrafnagil. Á þessum tíma ættu að vera fallegir haustlitir hvarvetna. Selflytja þarf bíla milli Kaupangs og brúarinnar við Hrafnagil.
Vegalengd: 10 km. Gönguhækkun: Lítil.
Þátttaka ókeypis
Gæsadalur – haustlitaferð 1 - 2 skór
12. september, laugardagur
Brottför kl. 10 á einkabílum frá FFA, Strandgötu 23
Safnast saman í bíla ef vill.
Fararstjórn: Una Þ. Sigurðardóttir
Gengið frá bílastæðinu efst á Víkurskarði og norður Gæsadal að Gæsagili.
Sama leið farin til baka.
Vegalend: 10–15 km. Gönguhækkun: 230 m.
Verð: 2.200 / 3.900 kr. Innifalið: Fararstjórn.
Greitt er fyrir þessa ferð við brottför.
Húsavík – Botnsvatn. Haustlitaferð 1 skór
19. september, laugardagur
Brottför kl. 10 á einkabílum frá FFA, Strandgötu 23
Fararstjórn: Margrét K. Jónsdóttir
Safnast saman í bíla ef vill.
Ekið til Húsavíkur. Gengið er eftir göngustíg sem liggur í fjallinu bláa, Húsavíkurfjalli. Gengið upp að Botnsvatni og hringinn í kringum vatnið eftir þægilegum göngustíg. Þaðan liggur leiðin niður með ánni og í gegnum Skrúðgarðinn. Mjög falleg leið. Gangan tekur 2–3 klst.
Eftir ferðina geta þau sem vilja gengið út að Gatklettinum við Bakka með fararstjóra.
Vegalengd alls 11 km. Gönguhækkun: 310 m.
Verð: 2.200 / 3.900 kr. Innifalið: Fararstjórn.
Greitt er fyrir þessa ferð við brottför.
Lúxus helgarferð í Mývatnssveit 1-2 skór
26.–27. september
Brottför kl. 10 á einkabílum frá FFA, Strandgötu 23
Safnast saman í bíla ef vill.
Fararstjórn: Þóroddur Þóroddsson
Létt gönguferð, gisting og kvöldverður. Gist á Hótel Seli í Mývatnssveit.
Þessi ferð er skipulögð þannig að þeir sem vilja fara í stutta gönguferð yfir Dalfjall með Þóroddi, leiðin er frá Námaskarði að Kröflu. Eftir gönguna verður slakað á í heitum potti við Hótel Sel og síðan snæddur kvöldverður á hótelinu.
Þeir sem vilja sleppa gönguferðinni mæta á hótelið þegar þeir vilja en gert er ráð fyrir að gönguferðinni ljúki um kl. 15.
Gönguferð á Dalfjall: Sameinast í bíla á Akureyri og ekið austur í Námaskarð. Gengið norður frá Námaskarði og að mestu fylgt háhrygg Dalfjalls norður á móts við Kröfluvirkjun. Göngulandið með smá hæðum og lægðum en gott undir fæti, skoðaðir á leiðinni hraungígar og farið yfir eina hrauná. Af fjallinu er gott útsýni vestur yfir Mývatnssveit og austur yfir öræfin og að lokum yfir virkjunarsvæði Kröfluvirkjunar.
Vegalengd: 8 km. Gönguhækkun um 200 m.
Verð fyrir gistingu á Hótel Seli er 15.000 kr. á mann í tveggja manna herbergi. Greitt er á hótelinu. Innifalið: Gisting, morgunmatur og fararstjórn. Kvöldverður af matseðli greiddur sérstaklega. Skráningu lýkur 25. ágúst því hótelið þarf að vita endanlegan fjölda þá.