Barna- og fjölskylduferðir 2026

Ferðaáætlun FFA - Barna- og fjölskylduferðir 2026

Til að byrja með birtum við ferðaáætlunina fyrir árið 2026 hér. Ný heimasíða er í vinnslu og kemur í loftið alveg á næstu dögum.

Þeir sem vilja skrá sig í ferðir strax, geta gerð það hér

Skráning í barna- og fjölskylduferð 2026

 

Vetrarferð
Á góðviðrisdegi í mars eða apríl
Upphafsstaður: Kjarnakot í Kjarnaskógi
Fararstjórn: Hjörvar Jóhannesson, Ragnheiður og Sunna Ragnarsdætur

Njótum vetrarins í Kjarnaskógi þar sem alltaf er gott veður, gerum snjókarla, rennum okkur og leikum saman. Skemmtileg útivera sem hentar öllum aldurshópum.

Mikilvægt er að mæta mjög vel klædd, með ljós, kakó og gott nesti. Gert er ráð fyrir 1- 2 klst. samveru.

Þátttaka ókeypis

 

Fuglaskoðunarferð
19.
maí, þriðjudagur

Brottför kl. 17 á einkabílum frá FFA Strandgötu 23
Fararstjórn: Jón Magnússon og Sverrir Thorstensen

Ertu forvitin(n) um fuglana í náttúrunni? Komdu með í skemmtilega fuglaskoðunarferð þar sem við lærum að þekkja fugla með tveimur frábærum fuglaskoðunarmönnum. Gott er að taka með sér sjónauka og skriffæri — það getur verið gaman að skrá niður þær fuglategundir sem maður sér. Gert er ráð fyrir að ferðin taki -2 klst.

Þátttaka ókeypis

 

Steinmenn
11. júní, fimmtudagur
Brottför kl. 17 á einkabílum frá FFA Strandgötu 23
Fararstjórn: Ragnheiður og Sunna Ragnarsdætur

Gengið er frá tjaldstæðinu á Hömrum upp að skátaskálanum Gamla. Þaðan er haldið áfram eftir stikaðri leið að Steinmönnum. Frá þessum skemmtilegu steinkörlum er gott útsýni til allra átta. Sama leið er gengin til baka.

Heildarvegalengd er 8 km. Gönguhækkun 400 m.

Þátttaka ókeypis

Skeiðsvatn í Svarfaðarda
28.
júní, laugardagur
Brottför kl. 10 á einkabílum frá FFA Strandgötu 23
Fararstjórn: Gyða Njálsdóttir og Sunna Ragnarsdóttir

Ekið á einkabílum að Skeiði í Svarfaðardal. Gengið er fram að Skeiðsvatni eftir slóða. Gengið um í nágrenni vatnsins og náttúra dalsins skoðuð. Gaman getur verið að sulla í læk og vatni, þess vegna ástæða til að taka með auka sokka og handklæði.

Vegalengd um 8 km. Gönguhækkun 190 m.

Gera má ráð fyrir að ferðin taki 5-6 klst.

Þátttaka ókeypis

 

Veiðiferð í Níphólstjörn
2.
júlí, fimmtudagur
Brottför kl. 17á einkabílum frá FFA Strandgötu 23
Fararstjórn: Hjörvar Jóhannesson

Komdu með í veiðiferð, þar sem við rennum fyrir fisk og njótum í náttúrunni. Ekið verður á einkabílum að Ljósavatni þar sem fundinn verður góður veiðistaður. Hvert barn verður að hafa fylgdarmanneskju sem getur aðstoðað það við veiðina. Mikilvægt að muna eftir góðu nesti auk þess sem nota þarf við veiðina (veiðistöng, spúnar o.þ.h.). Gert er ráð fyrir að ferðin taki 2- 3 klst. með akstri.

Þátttaka ókeypis

 

Ævintýraferð í Lamba á Glerárdal
8.-9. ágúst
Brottför kl. 12 frá bílastæði við uppgöngu á Súlur Fararstjórn: Ragnheiður og Sunna Ragnarsdætur

Lagt er af stað frá bílastæðinu við uppgönguna á Súlur og gengið fram Glerárdal í skálann Lamba þar sem gist verður eina nótt. Ferðin býður upp á fjölbreytta upplifun úti í náttúrunni, m.a. þarf að stikla yfir læki á leiðinni. Lambi er vel útbúinn fjallaskáli með olíukyndingu og gashellu en sækja verður drykkjarvatn í lækinn. Þegar komið er fram í ágúst er farið að dimma á kvöldin og gaman að upplifa myrkrið í í fjallakyrðinni. Í skálanum er pláss fyrir 16 manns og því þarf að takmarka fjölda í ferðina. Hér er hægt að fá nánari upplýsingar um skálann.

Heildarvegalengd 22 km (11 km hvorn dag). Gönguhækkun 440 m.
Verð og greiðslufyrirkomulag: Frítt fyrir börn en fullorðnir greiða 6.000 /8.000 kr. Staðfestingargjald er 1.500 kr. fyrir fullorðna sem greiðist tveimur vikum eftir að krafa er stofnuð í netbanka. Þessa ferð þarf síðan að greiða að fullu þremur dögum fyrir brottför.

 

Einbúi
23.
ágúst, sunnudagur
Brottför kl. 10 einkabílum frá FFA Strandgötu 23

Fararstjórn: Hulda Jónsdóttir og Fjóla Kristín Helgadóttir

Ekið að Hrauni í Öxnadal. Þaðan er gengið upp í Draugadal og upp á Einbúa sem er í 684 m hæð. Flott útsýni er þaðan yfir Hraunsvatn og fjöllin í kring.

Vegalengd um 6 km. Gönguhækkun 450 m.
Gera má ráð fyrir að ferðin taki 5- 6 klst.

Þátttaka ókeypis

 

Fjöruferð
1.
september, þriðjudagur
Brottför kl. 17 á einkabílum frá FFA Strandgötu 23

Fararstjórn: Sunna og Ragnheiður Ragnarsdóttir

Skoðum fjölbreytilegt lífríki fjörunnar, smádýr, þörunga og fuglalíf, klifrum í klettum og sullum í læk. Munum eftir góðum skóm eða stígvélum og nesti. Nánari staðsetning kemur síðar en þetta verður í nágrenni Akureyrar. Gert er ráð fyrir að ferðin taki u.þ.b. 2 klst.

Þátttaka ókeypis

 

Hrekkjavökuganga
31. október, laugardagur
Mæting kl. 17:30 í Kjarnakot í Kjarnaskógi
Fararstjórn: Nefnd um barna- og fjölskyldustarf

Göngum saman í myrkrinu, þar sem leyndardómar, leynast bak við trén! Þátttakendur eru hvattir til að mæta í búningi. Mikilvægt er að klæða sig vel, vera í góðum skóm, með vasaljós og taka með sér góða skapið. Gönguslóðin verður opin í eina klukkustund frá 17.30-18.30, frjáls mæting innan þess klukkutíma, hver og einn gengur á sínum hraða. Þátttaka ókeypis.