Ingvar Teitsson

Ingvar TeitssonIngvar fæddist í Saltvík í Reykjahreppi í S.-Þing. en ólst upp í Reykjadal. Ingvar heillaðist snemma af öræfum og óbyggðum og byrjaði að ganga á fjöll árið 1969, þá 18 ára. Á árunum 1972-80 bjó Ingvar á Reykjavíkursvæðinu og stundaði þá m.a. útivist með hjálparsveit skáta í Reykjavík og Íslenska alpaklúbbnum. Ingvar hefur gengið á fjöll erlendis, s.s. í Sviss, Frakklandi, Ítalíu, Wales og Skotlandi. Ingvar var fararstjóri hjá FÍ í Reykjavík árin 1978-82. Frá 1992 hefur hann verið fararstjóri á hverju ári hjá FFA, oftast í ferðum um Suður-Þingeyjarsýslu. Hann hefur leitt gönguhópa um Öskjuveginn í mörg ár auk ferða á Herðubreið.

Ingvar hefur starfað með mörgum nefndum innan FFA má þar t.d. nefna skálanefndir og ferðanefnd. Hann hefur starfað í stjórn FFA og var formaður á árunum 1994 - 2006. Á árinu 2020 er hann formaður Lambanefndar, gönguleiðanefndar og ritnefndar auk þess sem hann situr í félaga- og kynningarnefnd.  

Ferðir á söguslóðir eru eitt helsta áhugasvið Ingvars á seinni árum. Fjöll, fuglar og blóm finnast honum líka alltaf töfrandi.

Ingvar er starfandi læknir á Akureyri og kenndi í meira en 25 ár við Háskólann á Akureyri.