Bygging þjónustuhúss við Drekagil

Undanfarið ár hefur staðið yfir bygging þjónustuhúss fyrir tjaldsvæðisgesti við Drekagil. Fyrsta skóflustunga var tekin þann 14. ágúst 2019. Síðan voru undirstöðurnar steyptar, byggður pallur og gengið frá gólfbitum fyrir nýja húsið.

Veturinn 2020 fékk félagið aðstöðu í húsnæði í eigu Samherja til að smíða veggeiningar hússins og bera á klæðningar. Unnið var við það fram á vor en fyrsta bylgja Covid-19 stöðvaði þó framkvæmdir í nokkrar vikur.

Húsið var svo flutt í einingum á staðinn þann 3. júlí. Unnið var við bygginguna í allt sumar og komu sjálfboðaliðar til vinnu um helgar. Síðasti dagur á fjöllum var 5. október sl.

Hægt er að lesa meira um verkefnið og skoða myndir frá framkvæmdunum á heimasíðunni.