Hvernig verður 2023 hjá FFA?

Nú er vinnu við ferðaáætlun FFA fyrir árið 2023 að ljúka. Eins og undanfarin ár er áætlunin viðamikil og fjölbreytt. Sem dæmi má nefna að skíðagönguferðir verða um hverja helgi frá febrúar og fram á vor. Ferð í Flatey, sögu- og menningarferðir í Skagafjörðinn, sjö tinda ferðin er á sínum stað svo og gönguvikan í júní þar sem sólstöðunnar er notið eins og hægt er. Trússferð um Öskjuveginn verður í boði, Bræðrafell-Askja er ferð sem vert er að skoða þar sem gengið er á milli Bræðrafells og Dreka með viðkomu í Öskju. Í boði verða þrjár rafhjólaferðir og tvær ólíkar ferðir í Þorvaldsdalinn svo eitthvað sé nefnt af þeim 50 ferðum sem verða í boði.

Barna- og fjölskylduferðir náðu sér vel á strik á síðasta ári og verður haldið áfram á sömu braut. Tvær ferðir verða þar sem gist er í skálum, fuglaskoðunarferð og fleira áhugavert. Ferðirnar verða fríar nema ef einhver kostnaður kemur til, t.d. vegna gistingar fyrir fullorðna.

Undirbúningur hreyfihópaverkefna er í fullum gangi, verða þau auglýst jafnóðum og þau hefjast. Stefnt er að fjallaskíðahópum, skíðagöngunámskeiðum, gönguhópum og núvitund í náttúrunni.

Áætlunin verður birt á heimasíðu FFA í desember, fylgist með.