Um komandi helgi eru tvær gönguferðir á dagskrá félagsins, laugardaginn 23. júlí er á dagskrá gönguferð á Kerlingu í Svarfaðardal og á sunnudaginn 24. júlí er ferð á Kötlufjall.
Kerling í Svarfaðardal er 1214 metra hátt fjall sem skilur að Svarfaðardal og Skíðadal og blasir við þegar ekið er inn Svarfaðardalinn frá Dalvík. Gengið er frá bænum Melum. Fjallið er tignarlegt og af því er gott útsýni út Svarfaðardalinn og inn Skíðadalinn. Gangan er auðveld til að byrja með en verður aðeins strembnari þegar ofar dregur. Gera má ráð fyrir að uppgangan taki um 2-2,5 klst.
Verð kr. 1.000 fyrir félagsmenn en kr. 1.300 fyrir aðra
Kötlufjall er 989 metra hátt fjall og er rétt norðan Hjalteyrar. Gengið frá Syðri Reistará, upp Reistarárskarð, þaðan gengið til norðurs á Kötlufjall. Síðan er gengið niður svokallaðar Gvendarbrekkur, að Stærra-Árskógi. Má reikna með að gangan sjálf geti tekið um 5-6 klst.
Verð kr. 2.300 fyrir félagsmenn en kr. 2.800 fyrir aðra.
Brottför í báðar ferðirnar er frá skrifstofu félagsins kl. 8 og þarf að skrá sig fyrir kl 19.00 á föstudaginn 22. júlí.
Nánari upplýsingar eru veittar á skrifstofu félagsins að Strandgötu 23 virka daga á milli kl. 16.00 og 19.00, eða í síma 462 2720.