Opið hús hjá FFA: Oddeyri og Brýrnar yfir Eyjafjarðará

Oddeyri og Brýrnar yfir Eyjafjarðará

Opið hús hjá FFA í Strandgötu 23, miðvikudaginn 6. desember kl. 20:00

Arnór Bliki Hallmundsson og Kristín Aðalsteinsdóttir segja frá bókinni Oddeyri, saga, hús og fólk sem kom út sl. haust og fjallar um Oddeyrina á Akureyri. Arnór Bliki skrifar sögubrot um fjölda húsa á Eyrinni og er þar margan fróðleik að finna. Kristín heimsótti 55 heimili og ræddi við fólk. Viðtölin sem eru í senn forvitnileg og fróðleg bregða upp mynd af mannlífinu á Eyrinni.

Einnig mun Arnór Bliki kynna nýútkomna bók sína Brýrnar yfir Eyjafjarðará en hann hefur á umliðnum árum ljósmyndað allar núverandi brýr yfir Eyjafjarðará og tekið saman um þær lítið rit í og með í tilefni þess að í ár eru liðin 100 ár síðan Eyjafjarðará var brúuð við óshólmana. Í bókinni eru helstu upplýsingar um brýrnar, sögur af byggingu og öðru auk lýsinga á þeirra helsta nærumhverfi, nokkurs konar örbyggðalýsing á Eyjafirði, sem hverfist um ána og brýrnar yfir hana.

Kaffi og spjall á eftir.
Öll velkomin.