Öskjuvegurinn 29.júlí - 4.ágúst

Myndir og ferðasaga
Fararstjóri var Jakob Kárason og tók hann myndirnar og skráði ferðasögu.

Öskjuvegurinn 29. júlí – 4. ágúst 2006.

Lögðum af stað frá FFA kl. 16. Í Mývatnssveit var hefðbundið stopp og síðan ekið útaf þjóðvegi við Hrossaborg. Vegurinn býsna góður. Smástans við Tumba og svo rakleiðis í Herðubreiðarlindir. Komum dótinu okkar inn í Þorsteinsskála og kl. 21 kom landvörðurinn og gekk með okkur Álftavatnshringinn og fræddi okkur um náttúru Ódáðahrauns. Í kvöldverð var blómkálssúpa og brauð. Skýjað en hlýtt.

Á sunnudagsmorgninum var skýjað og þoka í miðjar fjallahlíðar, hægviðri og hlýtt. Tókum til nesti til tveggja daga því ekki er ekið í Bræðrafell og þar með enginn trússbíll. Gengum eftir stikaðri leið að Herðubreiðinni og norðurfyrir hana. Þegar kom vesturfyrir Breiðina hafði þokan enn sigið til fjallsrótanna. Hádegisnestið snæddum við undir hraunkambi nokkru norðan við uppgönguna. Við uppgönguna tókum við uppkveikjuspítur úr tveim pokum sem þar voru. Tæpa 5 tíma vorum við að uppgöngunni og liðlega tvo að Bræðrafelli. Um kvöldið var þokan svo dimm að varla sást í næstu stiku við skálann. Kveiktum upp, borðuðum góða grillaða kjúklinga með öllu tilheyrandi og áttum ljúft kvöld og góða nótt, þótt hellirigning væri.

Á mánudagsmorgninum var hætt að rigna og þokunni örlítið að létta, en ekki mikið. Gengum frá skálanum og tókum með okkur hálffullan poka af dósarusli eftir tvo síðustu hópa. Það vantar eitthvað í hausinn á fólki sem nennir að bera með sér fullar dósir í fjallaskála, en ekki tómar til baka. Sléttlend er gönguleiðin allt til Dreka í Dyngjufjöllum og hraun í flestum myndum, slétt og þægilegt helluhraun, úfnir hraunkambar og svo hraun þakið ljósum vikri frá gosinu 1874 vestast. Loks gengum við fyrir austustu tunguna frá gosinu 1961, en hæð tungunnar eru 4 – 5 m. Þá var eftir um klst. ganga að Drekaskála.7 klst. varð gangan úr Bræðrafelli. Kaffi og  lummur hjá Stefaníu og svo þegar hópar höfðu lokið sér af í eldhúsinu í nýja Dreka komumst við að, og Stefanía eldaði frábæran fiskibollukvöldverð. Reynt að þurrka af sér leppana, en rigningardemba var síðustu klukkustundina á göngunni og skúrir af og til um daginn.Hægt er að fara í sturtu þarna. Þegar við fórum að sofa var enn þoka og súld svo varla sást niður að Vikrafelli. Spáin ekki góð fyrir morgundaginn, en þó átti að lagast með kvöldinu.

Þriðjudagur. Hafragrautur og slátur um 9. Þokan ekki minni en um kvöldið, og súld af og til. Ekki ástæða til að ganga yfir fjöllin. Ekkert skyggni. Ókum því inn að Nautagili og stikluðum þar yfir lækinn. Tvö úr hópnum sýndu og útskýrðu fyrir okkur ýmiskonar hraun þarna. Innskot, bólstraberg, móberg og sandstein. Þarna í gilinu er eitt minnsta hraun á Íslandi og framarlega í hlíðinni að norðanverðu falleg bergrós.Fallegar breiður með eyrarrós voru við ána. Við gengum upp með læknum og skoðuðum fossinn rétt neðan við Dreka, á leið okkar inn að Drekagili. Gott var að ganga inn í gilið og nutu hraunmyndirnar sín vel í þokunni. Léttur hádegisverður og kaffi var hjá ráðskonunni er við komum úr gilinu. Ekki létti þokunni svo farið var á bílnum inn á planið við Vikraborgir og gengið inn að Víti. Hvorki snjór né bleyta á þeirri leið. Nokkur okkar fóru niður hálann gilskorninginn í moldardrullunni, án óhappa, og fóru í Vítisbað. Það er gott bað og sérstök tilfinning. Vel gekk upp gilskorninginn og á barmi Öskjuvatns, við Knebelsvörðu, var sögð sagan af slysinu frá 1907 er RudloffSS og Knebel drukknuðu. Þokan lá í miðjum hlíðum en þokuslæður sem liðu þar undir mögnuðu speglunina á lognsléttu vatninu. Hvað var vatn ? og hvað var land? Rituðum nöfn okkar í gestabók vörðunnar og skoðuðum Vikraborgirnar, gígana í Öskjuopinu oghéldum svo heim að Dreka. Þegar gestir voru farnir úr skálunum máttum við flytja okkur yfir í gamla Dreka og vorum við þar ein. Um kvöldið, að loknum kvöldverði sem var kjöt og kjötsúpa, af bestu gerð, var lesið meira um Knebel og Rudloff . Hætt var að rigna og góð spá fyrir morgundaginn.

Þegar við vöknuðum á miðvikudaginn var þokan að hverfa og sól farin að skína. Eftir morgunverkin var okkur ekið inn á plan við Vikraborgirnar. Þar öxluðum við dagspokana og gengum yfir Vikrahraunið í Öskjuopinu. Fremur ógreiðfært, en ekki langt að norðurhlið Öskjunnar.Þá gengum við á snjó og fínum vikri að Jónsskarði. Í brekkunni upp skarðið var skafl. Við Vegklett, á skarðsbrúninni var hádegiskaffið. Þá var þokan farin, logn og glaðasólskin. Útsýnið yfir Öskjuna frábært. Um Trölladyngju og Suðurskarð var enn þoka til Vatnajökulsins. Þegar við komum í gegnum skarðið blasti við mikið ýtsýni með Sellandafjall og Bláfjall í miðri mynd. Dyngjurnar, Mývatnssveitarfjöllin, Kinnarfjöllin, Kerling , Strýta og Kista við Eyjafjörð. Er við lækkuðum og sáum suðureftir Dyngjufjalladalnum blasti við Trölladyngjan Tungnafellsjökullinn og Kistufell. Þar sem við komum niður í dalinn er 1 km. eftir í skálann Dyngjufell. 7 klst. vorum við á göngu. Logn og hiti 25° C. Stefanía töfraði fram pottrétt með salati og kartöflumús.Sátum lengi úti á palli og tvennt svaf úti um nóttina

Vöknuðum um sjöleytið á fimmtudeginum. Þá var logn og steikjandi sólskin og að loknum morgunverði og morgunverkunum gengum við af stað. Yfir lækinn á Ragnhildarselsvaði og eftir bílaslóðinni niður Dyngjufjalladalinn.Smásaman komu í ljós fjöllin austurundan okkur. Þau sem við höfðum ekki séð í þokunni í byrjun ferðar. Lokatindur, tindarnir í norðanverðum Dyngjufjöllunum, Herðubreið, Bræðrafell, Kollóttadyngja, Eggert. Stórkostleg fjallasýn. Hádegiskaffið var uppá hraunhól nærri Vegakambi. Þar nokkru neðar, þar sem koma saman Frambruni og Útbruni skiftist slóðin. Gamla slóðin um Suðurárhraun til vinstri, en slóð inná Grænavatnsleiðina til hægri. Gengum um Suðurárbotnaleiðina. Smásaman varð gróðurinn fjölskrúðugri og loks komum við í Bota, skálann okkar hjá FFA. Enn ein sjö tíma gangan að baki. Kaffi og lummur. Grillað lambakjöt í kvöldmatinn með grilluðum lauk, grænmeti og sósu. Grillaður banani með súkkulaði í eftirrétt. Allan daginn var heiðskýrt og hitinn yfir 20°C.

Um kvöldið andaði aðeins af norðri og um nóttina hellirigndi.

Síðasta morguninn okkar í ferðinni var veðrið svipað hlýtt, heiðskýrt og sólskin. Gengum með efstu lindum Suðurár og voru lindarnar og gróðurinn góð tilbreyting frá svörtu hrauninu dagana á undan. Stoppuðum við Botnatóttina og við Botnakofann hittum við fyrstu ferðamenn, utan náttstaða. Sígildri spurningu “how do you like Iceland” vildi hann ekki svara beint, en sagðist vera hér í 20. sinn. Hvíldumst um stund við skálana á Stóruflesju. Gengum um Mikluey og yfir í Stórutungu. Kaffið drukkum við á bakka Suðurár nokkru neðar. Að Svartárkoti komum við eftir um 5 tíma göngu. Í lok ferðarinnar ókum við um Engidal og í Mývatnssveit. Algjör slökun í Jarðböðunum og svo borðuðum við í Gamla bænum. Til Ak. um 19.30.

 

                                                                        Jakob Kárason.