Þauli Eyjafjarðar 2019 - kynning

Þaulinn - gönguleikur FFA verður sem fyrr á dagskrá í sumar. Leikurinn verður kynntur fimmtudaginn 23. maí kl. 17 að Strandgötu 23.
Náttúran við Eyjafjörð býður upp á mörg spennandi tækifæri til hollrar og skemmtilegrar útiveru. Í samstarfi við nokkrar stofnanir og fyrirtæki á Akureyri vill Ferðafélag Akureyrar gera sitt til að kynna Eyfirðingum og öðrum landsmönnum útivistarmöguleika svæðisins fyrir alla fjölskylduna. Þetta ætlum við að gera m.a. með því að efna til gönguleiks er við köllum „Þaulinn“ og skiptist í flokk fullorðinna annars vegar og flokk barna (yngri en 12 ára) hinsvegar. Ef þú ferð að lágmarki á 4 stöðvar í leik fullorðinna og 3 stöðvar í leik fyrir börn, svarar leyniorðunum rétt og gatar svarblaðið færðu heiðurstitilinn „Þauli Eyjafjarðar“. Vegleg verðlaun í boði fyrir börn og fullorðna.