Fararstjórar

Til baka

Bragi Guðmundsson

Fararstjóri

Bragi er fæddur og uppalinn í Holti í Svínadal, Austur-Húnavatnssýslu. Venjuleg sveitastörf voru daglegt viðfangsefni og sem barn ætlaði hann sér auðvitað að verða bóndi. Eftir skamma farskólagöngu, þriggja ára héraðsskólavist í Hrútafirði og menntaskólanám á Akureyri breyttust áformin og sagnfræði og kennslufræði urðu fyrir valinu. Starfsvettvangurinn er nú kennaradeild Háskólans á Akureyri. Áhugasviðin eru mörg en tengjast flest sögu og menningu á einhvern hátt. 

Bragi hefur komið að menntun leiðsögumanna frá því slíkt nám hófst á Akureyri haustið 1996 og hefur drjúga reynslu af leiðsögn um norðlenskar byggðir. Áhersla í ferðum hans er á sögu, menningu og atvinnuhætti íbúanna um leið og tengt er við náttúrulegt umhverfi eftir föngum. 

 Bragi fór í sína fyrstu ferð sem fararstjóri hjá FFA sumarið 2021 en það var sögu- og menningarferð og sumarið 2022 fer hann í sams konar ferð um Austur-Húnavatnssýslu en þar er hann fæddur og uppalinn.  

Gjörvöll Húnavatnssýsla er eftirlætissvæði Braga og rannsóknir og skrif hans hafa beinst að henni öðrum héruðum fremur.