Fararstjórar

Til baka

Bryndís Inda Stefánsdóttir

Fararstjóri

Inda ólst upp á Akureyri og gekk ung að árum til liðs við skátana og síðar björgunar-sveitina. Þar kynntist hún útivist í allskonar veðrum, allan ársins hring. Eftir menntaskóla tóku við 11 ár við nám og störf fjarri heimahögunum, bæði hérlendis og erlendis. Lengst af dvaldi hún í Noregi þar sem skíðagöngubakterían náði bólfestu í henni. Árið 2001 sneri Inda aftur til Akureyrar og hefur búið þar síðan með fjölskyldu sinni ef frá er skilin tveggja ára Noregsferð 2014-2016.  

Skíðaganga er sannkölluð fjölskylduíþrótt hjá fjölskyldunni og það að ganga í Hlíðar-fjalli eða Kjarnaskógi á brautarskíðum er alltaf ævintýri líkast. 
Utanbrautarskíðin stækka svæðið sem hægt er að fara um og uppáhaldsstaðir Indu á utanbrautarskíðunum eru Glerárdalur og Draflastaðarfjall.  

Inda er kennari að mennt og hefur starfað sem grunnskólakennari í Noregi og á Akureyri en starfar nú við Verkmenntaskólann á Akureyri. Bestu sumarstörfin voru sumrin 1993-1995 þegar hún starfaði sem skálavörður fyrir FÍ í Nýjadal og næstu tvö sumur þar á eftir þegar hún var landvörður í Jökulsárgljúfrum sem er án efa einn af hennar uppáhaldsstöðum.  

Inda var með skíðagöngunámskeið fyrir FFA 2022 ásamt Önnu Sigrúnu Rafnsdóttur og stefna þær á tvö námskeið 2023, grunnnámskeið og framhaldsnámskeið.