Þemaferð: Tóttirnar í Fjallinu

Tóttirnar í Fjallinu!
 
Fararstjórn: Ólafur Kjartansson
 
Þessi ferð var áður á dagskrá og ákveðið að bjóða aftur upp á hana með svolitlum breytingum.
 
Lagt af stað frá vestara bílastæðinu hjá aðkomunni að tjaldsvæðinu á Hömrum og gengið upp norðan við Fossbrekkuna og síðan norðvestur upp Ytri Dal að nyrðri kvísl Brunnár þar sem hún fellur niður úr Lönguklettum. Þaðan inn í Syðri dal í átt að tóttum skammt norðan merkjanna milli Eyjafjarðarsveitar og Akureyrarbæjar upp með suðurkvísl Brunnár.
 
Síðan verður farið til baka norður og niður að tóttum sem eru skammt austan Gamla. Ef tími og stemming býður upp á tökum við krókinn suður að tóttum efst á Kjarnakambi í leiðininni aftur niður að Hömrum og endað á sama stað og byrjað var á.
 
Þetta er ferð þar sem er farið hægt yfir og tími notaður í að horfa, spá og skoða það sem fyrir augu ber á leiðinni, t.d. klappir holt og mýri, plöntur og tré, flugur og fugla eða eitthvað enn annað sem vekur forvitni fólksins í hópnum.
 
Hluti leiðarinnar er utan stíganna í Fjallinu.
 

Gangan tekur 4 - 4.5 klst.

Vegalengd um 5 km. Gönguhækkun um 270 m.

Ferðin er ókeypis en nauðsynlegt að skrá þá sem vilja fara.