80 ára afmæli FFA 8. apríl 2016 og afmælissýning í anddyri Amtsbókasafnsins

Þann 8. apríl næstkomandi fagnar Ferðafélag Akureyrar 80 ára afmæli. Sama dag kl. 17:00 verður opnuð með viðhöfn sýning í anddyri Amtsbókasafnsins með gömlum munum, skjölum og myndum úr sögu félagsins, meðal annars munu myndir úr einkasafni Sigurðar heitins Hjálmarssonar rúlla á sjónvarpsskjá alla sýningardagana.

Sýningin mun standa uppi í safninu allan aprílmánuð og gefst þá kærkomið tækifæri til að kynna sér þetta gamla og rótgróna félag og starfsemi þess.

Þá verða haldnir þrír fyrirlestrar í kaffiteríu Amtsbókasafnins í apríl um einstaka þætti í sögu félagsins. Munu allir fyrirlestrarnir hefjast kl. 20:00 og gefst þá í leiðinni tækifæri til að skoða afmælissýninguna og spjalla saman um gamla daga.

14. apríl mun Hilmar Antonsson, formaður félagsins og húsasmíðameistari, segja frá því hvernig húsakostur félagsins á Akureyri sem og á fjöllum hefur þróast í gegnum tíðina. Segja má að þar hafi verið unnið hvert þrekvirkið á fætur öðru.

20. apríl rekur Frímann Guðmundsson, formaður ferðanefndar, þróun ferðafélagsins og ferðaáætlun gegnum tíðina. Þar hafa áherslur breyst gríðarlega. Meðal annars hafa rútuferðir, sem voru vinsælar meðan bílaeign almennings var minni en í dag, nánast lagst af. Í stað rútuferðanna hafa gönguferðir orðið vinsælastar en í þeim hafa einnig verið talsverðir tískustraumar.

28. apríl ætlar Ingimar Árnason að fara yfir breytingar á bílakostinum sem notaður hefur verið til ferðalaga og þróun á fjallaslóðum. Hér hafa orðið gífurlegar breytingar og m.a. var í árdaga félagsins ekið um slóðir sem aðeins eru farnar á tveimur jafnfljótum.

Ferðafélag Akureyrar ber aldurinn vel. Umsvif félagsins hafa aukist mjög undanfarin ár við Öskju, í Laugafelli og Herðubreiðarlindum í takt við fjölgun erlendra ferðamanna. Samhliða leggur félagið mikla áherslu á að bæta aðstöðu og byggja skála á öðrum og fáfarnari stöðum og hvetja til ferðalaga um náttúru Íslands. Þetta er á slóðum s.s. á Glerárdal og í Bræðrafelli sem er í Ódáðahrauni vestan Herðubreiðar og er áfangi á hinni vinsælu gönguleið, Öskjuveginum.

Bæjarbúar og áhugamenn eru hvattir til að láta sýninguna og fræðslufyrirlestrana ekki fram hjá sér fara.