Af aðalfundi FFA 2023

Aðalfundur Ferðafélags Akureyrar 2023 var haldinn 6. mars. Ársskýrsla stjórnar fyrir 2022 var lesin upp og samþykkt. Í henni var komið inn á helstu verkefni allra nefnda 2022. Þar kom einnig fram að í lok desember voru félagar orðnir 639. Skýrsla stjórnar og allra nefnda félagsins verða birtar í tímariti FFA, Ferðum 2023, sem kemur út von bráðar.

Ársreikningar 2022 voru kynntir, ræddir og samþykktir. Nefndarfólk í þeim 14 nefndum sem verða starfandi 2023-2024 var kynnt. Kosið var í stjórn og í henni sitja Þorgerður Sigurðardóttir formaður, Þorvaldur Rafn Kristjánsson, Einar Hjartarson, Þorbjörg Þorsteinsdóttir, Fjóla Kristín Helgadóttir. Varamenn eru Árni Gíslason og Sólveig Styrmisdóttir sem er ný í varastjórn og bjóðum við hana velkomna. Skoðunarmenn reikninga og skjalavörður voru einnig kosnir. Endurnýjaðar upplýsingar um þetta koma inn á heimasíðu FFA við fyrsta tækifæri.

Eftir kaffi og spjall fór formaður yfir það sem er framundan hjá félaginu, en framundan er blómlegt starf með kröftugu fólki í hverju rúmi. Formaður sýndi jafnframt súlurit yfir þróun í ferðum og í þátttöku í ferðum og öðrum verkefnum frá 2018 en talsvert færri ferðuðust með félaginu 2022 en árið áður sem var gott ár. Helsta ástæða dræmrar þátttöku er veður á Norðurlandi því nokkuð margar ferðir voru felldar niður vegna þess. En ef allt er talið, þátttaka í öllum ferðum og verkefnum hjá FFA 2022 þá voru farnar 115 ferðir með 1587 þátttakendum.

Það nýjasta í skálamálum er að þjónustuhúsið Víti verður tekið í notkun í sumar og stefnt er á einfalda veitingasölu þar.