Af félagsfundi 29. des. 2022

Á fundinn mættu 19 félagsmenn. Þorgerður formaður FFA sagði í stuttu máli frá starfsemi ársins 2022. Um 460 manns tóku þátt í skipulögðum ferðum félagsins á árinu og mikil aukning í barna- og fjölskylduferðum en 92 tóku þátt í þeim.

Hreyfihópar voru sex, bæði göngu- og skíðahópar sem fóru í um 40 ferðir og 130 manns tóku þátt. Einnig var góð þátttaka í sunnudagsgöngum FFA sem eru léttar klukkustundar göngur.

Opið hús hefur verið þrisvar í haust og verða þau áfram einu sinni í mánuði í vetur, það fyrsta á árinu verður 12. janúar og þá kynna nokkrir fararstjórar skíðaferðir 2023.

Rætt var um skála félagsins í Herðubreiðarlindum og við Drekagil. Í sumar verður nýtt aðstöðuhús, Víti, tekið í notkun. Þar verður aðstaða fyrir tjaldgesti og daglega umferð um svæðið, einnig er fyrirhuguð einföld veitingasala og sala á nauðsynjavöru.

Nokkur umræða var um stígagerð á Glerárdal og hvort það fari saman að hafa gangandi og hjólandi á sama stígnum bæði vegna öryggis- og náttúruverndarsjónarmiða en Akureyrarbær sér um framkvæmdir á dalnum.