Bjarni E Guðleifsson sjötugur

Bjarni E. Guðleifsson og áratugirnir sjö

 

Þótt ótrúlegt megi virðast verður Bjarni E. Guðleifsson, náttúrufræðingur og fjallgöngugarpur á Möðruvöllum, sjötugur  þann 21.  júní næstkomandi.  Hann hefur lengst af unnið sem sérfræðingur hjá Rannsóknarstofnun landbúnaðarins (RALA), en síðustu árin hefur hann gegnt stöðu prófessors við Landbúnaðarháskóla Íslands með búsetu á Möðruvöllum.  Þá hefur hann skrifað fjölmargar greinar um náttúruvísindi og önnur hugðarefni í blöð og tímarit og ennfremur staðið að nokkrum bókum um þau efni.  Einnig hefur Bjarni, sem er mikill áhugamaður um fjallgöngur og hollt og heilbrigt líferni, skrifað tvær fjallgöngubækur, Á fjallatindum og Svarfaðardalsfjöll, sem báðar hlutu góðar viðtökur en eru nú uppseldar.

Vegna fyrrgreindra tímamóta í lífi Bjarna ákvað Bókaútgáfan Hólar að gefa út afmælisrit honum til heiðurs og mun það nefnast Úr hugarheimi – í gamni og alvöru.  Mun bókin, sem verður í kilju, innihalda 30 pistla eftir afmælisbarnið sem eru bæði fræðandi og skemmtilegir, eins og við má búast.

Í bókinni verður ritaskrá Bjarna og einnig heillaóskaskrá – Tabula gratulatoria – og þar verða skráð nöfn þeirra einstaklinga, fyrirtækja, félaga og stofnana sem vilja senda Bjarna E. Guðleifssyni afmæliskveðju og jafnframt gerast áskrifendur að bókinni, en hún mun kosta kr. 4.380 m/sendingargjaldi og er áskriftarverðið innheimt fyrirfram.

Hægt er að gerast áskrifandi að bókinni og skrá sig á heillaóskaskrána í síma 587-2619 og í netfangi holar@holabok.is

Afmælisbarnið mun, eins og síðastliðin 20 ár, ganga á Staðarhnjúk (820 m) ofan við Möðruvelli að kvöldi afmælisdagsins, fimmtudagsins 21. júní. Hefst gangan við Möðruvelli 3 klukkan 20,00 og eru allir velkomnir.