Bygging á nýjum Lamba á Glerárdal hafin

FFA ætlar að endurnýja gönguskálann Lamba á Glerárdal.  Þó svo að smíði hússins sé ekki hafin þá þarf að huga vel að undirstöðum og byrja á grunninum.  Þar sem mikill snjór er nú á Glerárdal var ákveðið að fá sleða hjá Jöklarannsókarfélaginu og fara með undirstöður að nýju húsi inn á Glerárdal og einnig gröfu til að koma þeim fyrir.  Seinnipart þriðjudags 7. Maí fór snjótroðari í eigu Hlíðarfjalls inn eftir og gerði slóð eða réttara sagt veg til að koma herleg heitunum á sinn stað.  Miðvikudag 8. Maí var svo lagt af stað upp úr hádegi með gröfuna á sleðanum og gekk ferðin ágætlega. Þegar í Lamba var komið ruddi troðari snjónum af melnum þar sem undirstöður áttu að koma og hófst gröftur um kl 17.00.  Mesta frost í jörðu mældist 70cm og var greftri hætt um 22.00 en þá var búið að grafa rásir fyrir undirstöður undir húsið.  Á meðan á greftri stóð fóru troðararnir til baka og sóttu undirstöðurnar sem voru á 4 tonn að þyngd.   Á Uppstigningardag 9. Maí var svo  lagt af stað frá bílaplaninu við haugana kl. 8.00 7 manns á tveimur jeppum og renni færi alla leið á hraðbrautinni.  Hafist var strax handa við að stilla undirstöður af og fylla að þeim og sóttist verkið vel.  Eindæma veðurblíða var hiti 9°C og logn allan daginn.  Sólskríkja söng reglulega og einnig heyrðist í rjúpu og hrafn kíkti á okkur.  Þegar búið var að koma öllum 14 undirstöðunum fyrir var ráðist með fleyghamri á frosinn melinn og gerðar 5 holur fyrir undirstöður undir sólpall sem verður að sunnan og vestan við forstofu.   Endað var svo á að finna stað fyrir kamarinn og grafin ný kamrahola sem á að duga næsta áratuginn.  Að loknum frágangi var gröfu komið á sleðann og öll halarófan komin til byggða upp úr kl. 20.00 eftir ótrúlega vel heppnaða ferð.  Með haustinu verðu svo hafist handa við að byggja húsið og verður það ca. 44 fm að grunnfleti. Að ári er svo ráðgert að draga nýjan Lamba á sinn stað á undirstöðurnar en húsið verður byggt í tvennu lagi þannig að forstofan verðu flutt ein og sér. Þá er bara að bíða og vona að snjóalög verði hagstæð að ári.  Eins og áður þá segja myndir meira en mörg orð en þær þær er að finna í myndaalbúmi.