Ferðir, blað FFA komið út

FERÐIR, blað Ferðafélags Akureyrar er komið úr prentun.

64. árgangur af blaðinu Ferðir sem Ferðafélag Akureyrar gefur út er nú komið úr prentun og verður sent félagsmönnum, ásamt Árbók Ferðafélags Íslands þegar félagsmenn hafa greitt árgjaldið.
Meðal efnis í blaðinu er merkileg grein sem Eiríkur P. Sveinsson skrifar um 6 daga skíðaferð sem hann ásamt  fimm félögum sínum fór í mars 1956 yfir miðhálendi Íslands, frá Sandvatni yfir Hofsjökul að Hólsgerði í Eyjafirði. Gengu þeir ma í einni lotu frá Kerlingarfjöllum þvert yfir Hofsjökul í Laugafell um 60 km dagleið á tæplega einum sólahring með 35-40 kg þunga bakpoka.

Ingvar Teitsson ritar tvær greinar í blaðið, segir frá byggingasögu nýs gistiskála sem Ferðafélagið hefur verið að byggja við Dreka og frá nýrri gönguleið frá Herðubreið um Bræðrafell, Hvammsfjöll og Heilagsdal niður í Mývatnssveit.

Þá skrifar Jakob Kárason grein um vélsleðaferð sem hann ásamt sex félögum sínum fór um Norðausturhálendið um Páska 2001.  Einnig skrifar hann grein í blaðið um endurbætur á skálanum við Dreka sumarið 1980.