Frétt af aðalfundi FFA

Aðalfundur Ferðafélags Akureyrar 2021 var haldinn 22. mars og var mæting góð. Venjuleg aðalfundarstörf einkenndu fundinn eðlilega s.s. kosning í stjórn og var ein breyting þar á, Þorbjörg Þorsteinsdóttir kom inn sem varamaður í stað Þuríðar Önnu Hallgrímsdóttur. Uppstillinganefnd gekk vel að fá fólk í nefndir og eru flestar vel skipaðar.

Formaður las starfsskýrslu stjórnar frá 2020 sem var ítarlegri en áður þar sem hún náði yfir skýrslur allra nefnda. Þar kom m.a. fram hversu ötullega nefndir innan félagsins vinna og að nokkuð góður gangur er í fjölgun félaga. Skýrslur nefnda verða birtar í Ferðum 2021 sem koma út í apríl og hvatti formaður fólk til að kynna sér þær. Stjórn FFA hefur kjörið sex nýja kjörfélaga en kjörið er viðurkenning fyrir störf í þágu félagsins og var þeim afhent viðurkenningarskjal þess efnis. Nýir kjörfélagar eru: Frímann Guðmundsson, Guðrún Helga Friðriksdóttir, Grétar Grímsson, Margrét Guðmundsdóttir, Ólöf Tryggvadóttir og Védís Baldursdóttir. Stjórn FFA þakkar þeim vel unnin störf í gegnum árin.

Eftir hefðbundin aðalfundarstörf og kaffi var farið yfir það sem er framundan hjá FFA. Hilmar framkvæmdastjóri FFA fór yfir framkvæmdir við skála sem eru fyrirhugaðar á árinu. Örn Þór talaði um stefnu ferðanefndar og það sem er framundan og að lokum komu Fjóla Kristín og Þorgerður og sögðu frá nýjungum eins og barna- og fjölskyldustarfinu og nýjum hreyfihópaverkefnum sem verða auglýst í vor.