Fréttatilkynning

Á þessum tímum sóttvarna og ferðatakmarkana er búist við að Íslendingar verði duglegir að ferðast innanlands og njóta útiveru og hreyfingar hér heima. Undanfarnar vikur hafa margir nýir félagar skráð sig í Ferðafélag Akureyrar til þess að taka þátt í starfi þess. Þess vegna ætlar FFA að auka fjölbreytni í ferðaáætlun sumarsins og bæta við nokkrum ferðum. Sú fyrsta verður 31. maí. Gert er ráð fyrir tveimur ferðum í júní auk barna- og fjölskylduferðar í fjöruna á Gásum. Viðbótarferðir í júlí og ágúst ráðast af reynslu og þátttöku í maí og júní og verða þær kynntar síðar. Frítt er fyrir börn að 18 ára aldri og eru foreldrar, afar og ömmur hvött til að taka börn og unglinga með svo þau kynnist því að ganga sér til ánægju úti í íslenskri náttúru. Nánari upplýsingar um næstu ferðir hér.

Árbók Ferðafélags Íslands 2020 hefur vakið verðskuldaða athygli enda um áhugavert rit að ræða. Ferðafélag Akureyrar hvetur þá sem vilja eignast bókina og hafa áhuga á útivist og gönguferðum að gerast félagar í FFA. Árbókinni fylgir tímarit FFA, Ferðir, sem hefur verið gefið út síðan 1940.s

Þeir sem hafa greitt félagsgjaldið fyrir 2020 geta nálgast árbókina og Ferðir á skrifstofu FFA Strandgötu 23 virka daga frá kl. 14-17.
Einnig er hægt að sækja þær mánudaginn 25. maí og þriðjudaginn 26. maí frá kl. 17-19 en þá mun Ólafur B. Thoroddsen annar höfunda árbókarinnar árita bækur fyrir þá sem það vilja. Einnig geta þeir sem þegar hafa fengið bækur komið með þær og fengið áritun.