Fréttir af aðalfundi FFA 19. mars 2019

Fundinn sóttu 33 félagsmenn. Hann hófst á venjulegum aðalfundarstörfum. Hilmar formaður byrjaði á að lesa skýrslu stjórnar og síðan gerðu formenn nefnda grein fyrir starfi þeirra árið 2018. Hilmar sagði frá því að um áramót hefðu félagsmenn verið 490 en einhver fjölgun hefur orðið á nýju ári. Hilmar sagði jafnframt frá því að hann ætlaði að stíga til hliðar sem formaður en verður áfram í hlutastarfi framkvæmdastjóra. Hann hefur starfað í stjórn FFA í 23 ár og þar af í 12 ár sem formaður.

Skýrslur nefnda lýsa vel hversu öflugt starfið er innan félagsins. Skálanefndir gerðu grein fyrir sínu öfluga starfi. Gönguleiðanefnd er búin að vinna að því í allan vetur að útbúa efni í göngubrýr yfir mýrarnar á gönguleiðinni inn í Lamba, stikur fyrir gönguleið upp á Kaldbak og síðast en ekki síst vinna við gerð útsýnisskífu á Ytri-Súlu. Heimasíðunefnd sagði frá nýrri heimasíðu, opið hús frá sínu starfi, formaður ferðanefndar sagði að þátttaka í ferðum á sl. ári hefði verið nokkuð góð. Ein nýjung hjá þeirri nefnd eru vikulegar göngur í bænum sem hefjast í maí. Kynningarnefnd sem er ný nefnd sagði frá því sem hún er að gera og að í bígerð væri að hefja barnastarf innan félagins í samvinnu við ferðanefnd, starf í anda FÍ.

Linda gerði grein fyrir fjármálum félagsins. Svolitlar umræðu sköpuðust um þau.

Að loknu kaffi var kosið í nefndir og stjórn. Nokkrar mannabreytingar hafa orðið í nefndum og verður nýr listi settur inn á heimasíðu FFA fljótlega. Í stjórn voru kosin Þorgerður Sigurðardóttir formaður, Þorvaldur Rafn Kristjánsson, Einar J. Hjartarson, Örn Þór Emilsson og Fjóla Kristín Helgadóttir. Stjórn mun svo skipta með sér verkum. Varamenn voru kosnir Árni Gíslason og Þuríður A. Hallgrímsdóttir.

Fyrri stjórn og þá sérstaklega Hilmari fráfarandi formanni var þakkað gott starf.

Að lokum vorum umræður og kynning á stöðu stefnumótunarvinnunnar. Eitt af því sem hún hefur skilað er ráðning framkvæmdastjóra og svo ný nefnd sem mun einbeita sér að því að kynna félagið og fjölga félögum.

FFA þakkar Hilmari Antonssyni fyrir einstaklega gott og óeigingjarnt starf sem formaður síðustu 12 árin. Hann hefur verið ötull við byggingar og endurbætur á skálum félagsins svo eitthvað sé nefnt.