Fréttir af aðalfundi FFA, nýr heiðursfélagi og vinningshafar

Í gær 3. júní var síðbúinn aðalfundur FFA haldinn. Formenn nefnda fluttu skýrslur fyrir árið 2019, þær er hægt að sjá í Ferðum 2020. Stjórn FFA og formaður voru endurkjörin. Farið var yfir það sem er framundan í starfi FFA og það sem hefur verið framkvæmt á árinu. Vel gengur með byggingu aðstöðuhússins við Dreka og fyrirhugað að reisa húsið í byrjun júlí. Byrjað er að undirbúa opnanir skála FFA fyrir sumarið.

Ný skálasíða var opnuð á heimasíðu FFA. Þar á að vera aðgengilegt að nálgast allar upplýsingar um skálana, spyrjast fyrir og bóka skála.

Formaður kynnti breytt fyrirkomulag nefnda innan félagsins, annarra en skálanefnda. Breytingin felst aðallega í því að ferðanefndum verður fjölgað. Fyrir utan ferðanefnd sem alltaf hefur verið og sér um árlega ferðaáætlun FFA þá hefur verið stofnuð nefnd um barna- og fjölskyldustarf og önnur sem skipuleggur hreyfihópa innan FFA. Til þess að vel takist til þá þarf fleira fólk í þessar nefndir og hvetjum við fólk til að kynna sér starfsemina. Best er að hafa samband við Þorgerði formann á netfangið togga@simnet.is. Auk nýrra ferðanefnda verður sérstök viðburðanefnd starfandi með áhugaverð verkefni og félaga- og kynningarnefnd auglýsir líka eftir öflugu fólki í spennandi verkefni en sú nefnd sér t.d. um kynningar á félaginu, auglýsingar, samfélagsmiðla og átak.

Að lokum var Hilmar Antonsson kosinn heiðursfélagi Ferðafélags Akureyrar og eru honum þökkuð góð og óeigingjörn störf í þágu félagsins en fyrir utan að stjórna félaginu í 12 ár þá hefur hann m.a. haft yfirumsjón með viðhaldi skála FFA svo og skálabyggingum félagsins síðustu áratugina.

Síðast en ekki síst þá var dregið úr nöfnum allra sem tóku þátt í göngum FFA í maí. Í verðlaun eru fimm gjafabréf í dagsferðir með FFA í sumar. Nöfnin sem dregin voru: Guðmundur Daði Kristjánsson, Hafdís G. Pálsdóttir, Jens Schmidt Christensen, Paddy English og Rakel Baldvinsdóttir.

Þessir aðilar geta nálgast gjafabréfin sín á skrifstofu FFA alla virka daga kl. 14 – 17. Fyrirhugað er að draga út nokkur gjafabréf í hverjum mánuði í sumar.