Hraun í Öxnadal

Fífilbrekkuhátíð 2006

Hin árlega Fífilbrekkuhátíð á vegum Menningarfélagið Hraun í Öxnadal ehf verður haldin á Hrauni í Öxnadal laugardag 10. júní n.k.

Gengið verður frá bænum á Hrauni kl.14 upp Kisubrekku um Stapana að Hraunsvatni og dvalist við vatnið um hríð en haldið aftur niður með Hraunsá heim að bænum á Hrauni.

Leiðsögumaður á göngunni verður dr. Bjarni Guðleifsson náttúrufræðingur sem segir frá landi og staðháttum. Þórir Haraldsson náttúrufræðingur segir frá blómum og jarðargróða. Dr. Skúli Skúlason líffræðingur, rektor Hólaskóla, segir frá lífinu í Hraunsvatni en Tryggvi Gíslason segir frá “dauðanum í Hraunsvatni” og áhrifum hans á líf og lífsviðhorf Jónasar Hallgrímssonar.Þeir sem vilja, geta tekið með sér veiðistöng og rennt fyrir fisk í vatninu, en góð veiði er í Hraunsvatni. Gangan upp að Hraunsvatni og heim aftur tekur um fjórar klukkustundir. Þegar heim er komið verður kveikt bál og göngufólki boðið upp á glóðarsteikt lamb. Þátttakendur verða hins vegar að taka með sér nestisbita á gönguna. Allir eru velkomnir á Fífilbrekkuhátíð 2006, ungir og aldnir.

Menningarfélagið Hraun í Öxnadal ehf er eigandi jarðarinnar Hrauns í Öxnadal. Félagið vinnur að því að koma á fót minningarstofu um skáldið, náttúrufræðinginn, stjórnmálamanninn og teiknarann Jónas Hallgrímsson og reka á Hrauni íbúð fyrir skáld, rithöfunda og listamenn og frumherja í stjórnmálum og atvinnulífi. Á næsta ári – á 200 ára afmælisári Jónasar Hallgrímssonar - verður í landi Hrauns opnaður fólkvangur, náttúrulegt útivistarsvæði fyrir almenning. Unnið er að því að gera áningarstað á stað þjóðveginn, gegnt Hrauni, þar sem útsýni er til allra átta. Menningarfélagið Hraun í Öxnadal ehf vinnur auk þess að hátíðarútgáfu á ljóðaúrvali Jónasar í samvinnu við EDDU útgáfu hf sem kemur út 16. nóvember 2007.
Tryggvi Gíslason fer fyrir stjórn menningarfélagsins Hrauns í Öxnadal ehf (tryggvi.gislason@simnet.is)