Hvernig verður 2022 hjá FFA?

Nú stendur yfir vinna við ferðaáætlun FFA 2022 sem verður óvenju viðamikil að þessu sinni. Sem dæmi má nefna að gönguskíðaferðir verða um hverja helgi í byrjun árs. Ferð í Málmey verður endurtekin, sjö tinda ferðin er á sínum stað svo og gönguvikan í júní auk sögu- og menningarferða. Sumarleyfisferðir eins og Öskjuvegurinn og Bræðrafell – Askja verða í júlí og tjaldferð í Krepputungu. Meðal nýjunga eru rafhjólaferðir, blóma- og jógaferð og margt fleira.

Barna- og fjölskylduferðirnar sem prófaðar voru 2021 reyndust vel og verður næsta ár ekki síður áhugavert. Sem dæmi má nefna veiðiferð og helgarferð í Lamba auk fleiri ferða sem eru tilvaldar fyrir fjölskyldur. Ferðirnar verða fríar nema ef einhver kostnaður verður t.d. vegna gistingar fyrir fullorðna.

Byrjað er að undirbúa hreyfihópverkefni fyrir næsta ár og verða þau auglýst jafnóðum og þau hefjast. Stefnt er að fjallaskíðahópi eins og í fyrra og sambærilegum gönguhópum og verið hafa. Anna Sigrún og Kristján ætla að vera með okkur aftur og verður eitt verkefnið hópur fyrir þá sem vilja hefja fjallgöngur. Fjallahjólahópur verður aftur auk fleiri spennandi verkefna.

Áætlunin verður birt á heimasíðu FFA í desember. Fylgist með.