Lambi á Glerárdal

Lambi
Lambi

Lambi, skálinn okkar í Glerárdal, er frábær áfangi fyrir alla þá sem vilja njóta útiveru í Glerárdal og fjöllunum þar í kring eins og tveir félagar mínir upplifðu síðasta sunnudag, 13. des.  Þeir komu við í Lamba í fallegu veðri en þá blasti við ófögur sjón í skálanum.  Einhver sem þar hefur komið við, hefur ekki lokað útihurðunum á eftir sér eins og á að gera,  með þeim afleiðingum að vindurinn hefur brotið upp útihurðina þannig að opið var inn í forstofuna.  Dyraumbúnaðurinn brotnaði í óveðrinu en þarna geta komið óhemju miklir vindar.

Það er mikilvægt að þeir sem þarna fara um átti sig á því að á útihurðinni er þriggja punkta læsing en til að hún virki þarf að lyfta upp handfanginu.  Þar að auki er önnur hurð þar utan við sem á ALLTAF að festa aftur þegar skálinn er yfirgefinn.

Hér eru nokkrar myndir af skemmdunum sem þeir félagar tóku og ein sem sýnir hvernig á að ganga frá ytri hurðinni þegar skálinn er yfirgefinn.

Að þessu sögðu hvet ég allt útivistarfólk til að njóta Lamba í Glerárdal, hvort sem um er að ræða skíðafólk, göngufólk eða sleðamenn.  Þá vil ég þakka þeim félögum Hermanni Karlssyni og Jóhanni Olsen fyrir að hafa bjargað okkur í þetta skiptið en það er ljóst að FFA nýtur góðs af vélsleðamönnum sem eru á ferðinni og gefa sér tíma til að líta á skálana okkar.

Upplýsingar um Lamba og hvernig hægt er að bóka hann eru á vef Ferðafélags Akureyrar, FFA.is

Valur Magnússon formaður Lambanefndar