Nýtt varðarhús flutt í Laugafell

Um liðna helgi var nýja varðarhúsið flutt í Laugafell og sett á sinn stað.

Vinna við smíðina hófst í febrúar 2009 hér á Akureyri eins og komið hefur fram hér á heimasíðu FFA. Lagt var af stað 4.00 að morgni þann 16. júlí og komið í Laugafell kl. 13.00 og gekk flutningurinn framar vonum undir öruggri stjórn Kristjáns Júlíussonar. Rafmagn var tekið af Bárðardalnum því fara þurfti undir 16 raflínur og þurfti að lyfta þeim flestum meðan ekið var undir þær. Þegar leið á daginn fjölgaði ört í hópnum og taldi um 30 manns þegar mest var. Ganga þurfti frá festingum í undirstöðum líma þær fastar og var húsið komið á sinn stað fyrir kl. 9.00 um kvöldið. Laugardagurinn var tekinn snemma og farið í ýmsan frágang innandyra smíðaður pallur við húsið á þrjá vegu. Grafið fyrir lögnum fyrir heitt og kalt vatn ásamt frárennsli frá húsinu, húsið þrifið og Kristjana vörður í Laugafelli flutti inn. Einnig var grafið fyrir nýjum undirstöðum fyrir pallinn við snyrtihúsið og sett upp ný skábraut fyrir hjólastóla þar. Myndir frá helginni er að finna á myndasíðu og þetta hús félaginu til mikils sóma.