Sunnudaginn 10. júlí 2005 opnaði Ferðafélag Akureyrar (FFA) nýjan gistiskála við Drekagil í Ódáðahrauni. Nýja húsið er 94 fm að grunnfleti og þar er svefnpláss fyrir 40 manns.
Nýja húsið er timburhús á tveimur hæðum. Á neðri
hæð er borðstofa með eldhúskrók og tvö fimm manna svefnherbergi, auk forstofu. Á efri hæðinni er svefnpláss í tveimur rýmum
fyrir 30 manns, á upphækkuðum svefnbálkum. Olíukabyssa með miðstöðvarkerfi er í borðstofu. Einnig eru gashellur til eldunar og rennandi vatn
í krönum í eldhúsi. Húsið er lýst upp með rafmagni frá sólsellum.
Nýi gistiskálinn er stærsta og vandaðasta hús sem FFA hefur nokkurn tíma reist. Húsið var að verulegu leyti byggt í
sjálfboðavinnu félaga FFA. Byggingarstjóri og yfirsmiður var Hilmar Antonsson.
Fjölmenni var við vígsluna, um 40 manns. Flutt voru ávörp og Höskuldur Jónsson, forstjóri ÁTVR, vígði
húsið með því að klippa á borða. Eftir vígsluna bauð FFA gestum í ferð upp í Öskju með leiðsögn frá
félaginu.
Nýi gistiskálinn við Drekagil er öllum opinn yfir sumarmánuðina
meðan húsrúm leyfir. Drekagil er á krossgötum í Ódáðahrauni og þaðan er stutt að fara upp í Öskju í
Dyngjufjöllum. Landverðir á svæðinu hafa umsjón með húsinu í júlí og ágúst, sími 853
2541.