Vinnuferð í Dreka 7.-9.nóv.

Um helgina 7. – 9. nóv var farin vinnuferð í Dreka. Lagt var af stað á föstudagskvöldinu 5 menn á tveimur bílum og gekk ferðin vel í Dreka var komið rétt fyrir miðnætti.

Snjór var mest alla leiðina frá Hrossaborg og inn fyrir Miðfell en minni eftir það inn fyrir Herðubreiðartögl.  Nokkur snjór var frá Töglum og upp í Dreka en nokkuð um krapa á þeirri leið. Fórum yfir Grafarlandaánna á ís en Lindáin opin að vanda og svo að segja snjólaust í Lindum.  Samferða okkur voru 5 menn  á 3 Landroverum sem við buðum gistingu en á laugardeginum renndu þeir í Hveragil og svo heim um Dyngjufjalladal á sunnudeginum.  Verkefnalistinn var ekki langur en læsa átti gamla Dreka og setja hlera fyrir glugga o fl.  Þegar inn var komið mátti sjá að eitthvað var búið að ganga á tvær skálar brotnar á gólfinu í eldhúsi og leirtau eitthvað hreifst til í hillum og líklegast að kenna jarðskjálfta um.  Á Fjólubúð var önnur sólarsellan fokin laus og hékk á annarri festingunni svo henni var bjargað og ljóst að festingar sem fylgja sellunum eru ekki gerðar fyrir okkar veðurfar.  Skipt var um cylendra í öllum útihurðum svo nú er komið lyklakerfi með masterlykkli og þarf nú einn lykil á allar hurðir í stað kippu með 6 lyklum.  Fórum yfir stöðu olíumála og fylltum á tankinn á gamla Dreka.  Eftir hádegið renndum við að Svartá og kíktum á fossinn og svo upp á Vaðöldu til að sjá mannvirkin þar en síðastliðið sumar var settur þar upp gámur með ýmsum sendum og endurvörpum ásamt 12.000L olíutank til að fóðra herlegheitin.  Enduðum svo rúntinn uppá Öskjuplani en þar var kominn þónokkur snjór.  Ekki var veðrið neitt sérstakt 0 – 3°C þokusuddi og rigning af og til hægur vindur og lítið sást til fjalla.  Sunnudagurinn fór svo í að koma sér heim og vorum við komnir heim að ganga fimm. 

Nokkar myndir á myndasíðu.