Fararstjórar

Til baka

Birna Guðrún Baldursdóttir

Fararstjóri

Birna er sveitastelpa úr Bárðardalnum þar sem hún ólst upp til 16 ára aldurs við leik og störf. Hún flutti til Akureyar og hefur búið þar síðan fyrir utan nokkur ár í höfuðborginni, ævintýri í Kaupmannahöfn og seinna Brighton. Hún starfaði fyrstu árin sem sjúkraliði en hefur unnið sem iðjuþjálfi í Glerárskóla síðan 2005.

Ferðalög um Ísland hafa alltaf verið stór hluti af lífi Birnu. Ung að árum fannst henni skemmtilegast að fara upp að fossi, upp í fjall, í berjaferðir með fjölskyldunni eða dagsferðir um Norðurland auk útreiðatúra. Hún kunni vel að meta busl í lækjum og ám. Sem barn prófaði hún ýmsa útivist eins og skíði, skauta, hjólreiðar og útreiðar en síðan sumarið 2007 hafa fjallgöngur verið stór partur af hennar lífi, mest á eigin vegum. Hún hefur gengið á helstu fjöll í Eyjarfirðinum og víðar en á nóg eftir. Hún hefur einnig verið sjálfboðaliði við skálavörslu í Breiðuvík og Loðmundarfirði og hefur gengið mikið um Víknaslóðir og nágrenni. Árið 2020 prófaði Birna fjallaskíði sem hún stundar á veturna af ástríðu og hjólar líka mikið með eiginmanni sínum. Að ferðast, upplifa náttúruna og búa til allskonar ævintýri bæði stór og smá er Birnu mjög mikilvægt.

Tilfinningin að liggja i lyngi eða mjúkum hlýjum mosa á fallegum sumardegi við ljúfan læk er það allra besta.

Uppáhaldsstaðir eru margir, en Víknaslóðir (Hraundalur er í sérlegu uppáhaldi), Hvalvatnsfjörður, Jökulsárgljúfur og Seven Sisters í Englandi tróna á toppnum.

Birna byrjaði sem fararstjóri hjá FFA sumarið 2023 með helgarferð í Fjörður ásamt Ásdísi Skúladóttur. Í ágúst 2024 verða þær með sambærilega ferð í Lamba á Glerárdal, eða Náttúruskoðun og sjálfsrækt á Glerárdal helgina 16.-18. ágúst 2024.

Uppáhaldsstaðir eru margir, en Víknaslóðir (Hraundalur í sérlegu uppáhaldi), Hvalvatnsfjörður, Jökulsárgljúfur og Seven Sisters í Englandi tróna á toppnum.