Fararstjórar

Til baka

Guðlaug Ringsted

Fararstjóri

Guðlaug er fædd á Kljáströnd í Höfðahverfi í Grýtubakkahreppi en ólst að mestu upp á Akureyri. Hún var send í sveit á sumrin líkt og títt var um krakka af hennar kynslóð. Þar lærði hún að meta móður náttúru og allt sem hún hafði upp á að bjóða og fann snemma sterk tengsl við umhverfið, jurtir, fugla, þjóðsögur og fjöll. Systa eins og hún er oftast kölluð er mikill bókaormur og voru það ekki síst þjóðsögurnar sem tengdust örnefnum, sem höfðu djúpstæð áhrif á hana.  

Hún öðlaðist réttindi sem leiðsögumaður eftir nám í Leiðsöguskóla Íslands 1985 og hefur starfað sem slík á sumrin nær allar götur síðan. Systa var leiðsögumaður og skálavörður í hinum ægifögru Kverkfjöllum í nokkur ár auk þess hefur hún sinnt skálavörslu í sjálfboðavinnu á vegum Ferðafélags Fljótsdalshéraðs í Loðmundarfirði á Víknaslóðum, undanfarin níu ár ásamt eiginmanni sínum, Gísla Sigurgeirssyni. Hún hefur stundað útivist, fjallgöngur og lengri göngur í áratugi.  

Systa leiddi ferðalanga um Öskjuveginn sumarið 2022 en sú leið er ein af hennar uppáhaldsleiðum. Þetta ætlar hún að gera aftur sumarið 2023 en þá verður það trússferð þar sem Gísli eiginmaður hennar verður á trússbílnum.

Uppáhaldssvæði Systu eru mýmörg. En ef nefna á einhver: Hin þreknu Kverkfjöll, þar sem eldur og ís takast á, hálendið norðan Vatnajökuls, Jökulsárgljúfur, Fjörður eyðibyggð, Víknaslóðir, Vestfirsk fjöll og svo auðvitað Eyjafjörðurinn með sína ótal útivistarmöguleika og fjöll, en þar er Kaldbakurinn í miklu uppáhaldi.  

Útivist í fallegri náttúru nærir líkama og sál er mottó Systu.