Fararstjórar

Til baka

Gunnhildur Ottósdóttir

Fararstjóri

Gunnhildur er fædd og uppalin í Hrísey og hefur verið á beit í íslenskri náttúru frá barnsaldri. Hún býr á Dalvík og kennir við Menntaskólann á Akureyri. Að mati Gunnhildar snýst útivist fyrst og fremst um líkams- og sálarheill og henni þykir gott súrefni gulli betra.

Hún setur sér engin sérstök markmið í útivistinni heldur grípur það sem hendi er næst hverju sinni, hjólar sveitahringinn, fer á fjöllin í bakgarðinum eða baðar sig í sjónum. Á veturna grípur hún í gönguskíðin og þá helst utan brautar. Hún hefur farið út fyrir Tröllaskagann og gengið hér og hvar um landið, m.a. með gönguhópnum Skreflangi.

Ekki stendur til af hennar hálfu að leggja fararstjórn fyrir sig en ef einhverjir vilja rölta með henni er það velkomið.

Gunnhildur á sér ekkert uppáhaldsgöngusvæði en fjallasalir Tröllaskagans eru óendanleg uppspretta þar sem finna má gönguleiðir sem henta hverju tilefni.

Fyrsta ferð Gunnhildar á vegum FFA verður sumarið 2023, ferð á Bæjarfjallið hennar.

Ef hún fer einhvern tímann vettlingalaus af stað þá er ljóst að hún þarf að hugsa sinn gang.