Fararstjórar

Til baka

Jón Magnússon

Fararstjóri

Jón Magg er fæddur á Melrakkasléttunni og alinn upp á Raufarhöfn á síldarárunum. Sumardvöl í sveit var í tísku á barndómsárunum og stundaði hann alls konar útivist og veiðiskap. Fuglaáhugi hefur alltaf fylgt Jóni og eftir að hafa tekið þátt í fuglatalningum og fuglamerkingum og lagt ýmislegt til fuglarannsókna með breskum fuglafræðingum á Melrakkasléttunni var ekki aftur snúið. Jón hefur mörg áhugamál en fuglatalningar og fuglamerkingar er þó aðaláhugamál hans. 

Jón er menntaður grunnskólakennari og skipstjóri ásamt því að vera prófdómari til skipstjórnunar. Jón var kennari og svo skólastjóri á Raufarhöfn til 1986. Það ár flutti hann til Akureyrar og stundaði verslunarstörf til ársins 2002 en fór þá að kenna við Hlíðarskóla þar sem hann kenndi til ársins 2016 þegar hann fór á eftirlaun. 

Uppáhaldsstaðir Jóns eru allmargir. Einna skemmtilegast finnst honum að fást við fuglana á Melrakkasléttunni sem er með bestu fuglastöðum á landinu að hans mati bæði í fjölda og fjölbreytileika. Þangað ætlar hann að fara í ferð fyrir FFA í maí 2022.
Einnig eru Leirurnar við Eyjafjörð frábærar og svæðin þar sunnan við, votlendi, móar og skóglendi. Jón hefur verið fararstjóri í fuglaskoðunarferðum FFA frá 1995 og oftast í samstarfi við Sverri Thorstensen og einnig nokkuð í vinnustaðaferðum fyrirtækja á Akureyri.