Fararstjórar

Til baka

Margrét L. Laxdal

Fararstjóri

Margrét er fædd og uppalin á Akureyri en býr á Dalvík og vinnur í Ólafsfirði. Rætur hennar liggja svo bæði á Svalbarðsströndina og til Siglufjarðar svo það má segja að stór-Eyjafjarðarsvæðið sé hennar ær og kýr, enda Eyjafjörður og Tröllaskaginn í miklu uppáhaldi hjá henni.

Skátarnir og hvers kyns íþróttir heilluðu hana á árum áður en með hærri lífaldri tóku björgunarsveitarstörf og hvers kyns útivist meira pláss og líður henni best úti í náttúrunni eða upp á fjöllum og þá gjarnan fjarri öllu manngerðu ef þess er kostur. Að njóta í núinu í náttúrunni er besta orkusöfnun sem hún getur hugsað sér og þá að sjálfsögðu með gott nesti því það bragðast jú hvergi betur en einmitt við þær aðstæður.

Margrét starfar sem íslenskukennari við Menntaskólann á Tröllaskaga og þar áður við Grunnskóla Dalvíkurbyggðar. Hún hefur verið félagi í FFA síðan 2020 og verið ötul við að taka þátt í ýmsum hreyfiverkefnum á vegum félagsins sem leiddi til þess að hún hefur setið í nefnd um hreyfihópa síðan 2022 og í nefnd um Þorsteinsskála síðan 2023.

Sumarið 2023 tók hún að sér fararstjórn upp á Bæjarfjallið í Dalvíkurbyggð í tvígang, fyrst fyrir hreyfihópinn Komdu út og á fjöll og síðar í forföllum annars fararstjóra. Þá tók hún einnig að sér fararstjórn að Kálfsvatni við Siglufjörð í forföllum en sú ferð féll því miður niður og því ætlar hún að gera aðra tilraun og leiða hóp upp að Kálfsvatni við Siglufjörð sumarið 2024 því það ætti enginn að verða svikinn af göngu þangað.