Fararstjórar

Til baka

Þóroddur F. Þóroddsson

Fararstjóri

Þóroddur er fæddur og uppalinn í Reykjavík en frá fimm til fimmtán ára var hann í sveit á Grænavatni í Mývatnssveit og síðan í vinnu í sveitinni næstu tíu árin. Fyrstu fjallgöngur voru á Vindbelg og Sellandafjall 1964 en þóttu þá tilgangslitlar, ekkert fé uppi á fjallatoppum eins og Fjalla-Bensi mun hafa sagt og frekast til að fara illa með skó. 

Þóroddur bjó lengstan hluta ævinnar í Reykjavík, en bjó  á Akureyri 1981-1986 og flutti svo til Akureyri 2016. Hann lærði jarðfræði og vann á Orkustofnun, Náttúrugripa-safninu á Akureyri, Náttúruverndarráði og síðustu 20 árin hjá Skipulagsstofnun ríkisins. Á árunum hjá Orkustofnun hafði hann vit á því að sækjast eftir verkefnum sem víðast um landið og kynntist þá m.a. hálendinu í nágrenni Fljótsdalsvirkjunar, upp af Skagafirði og á Þjórsársvæðinu.  

Áhugi á gönguferðum og útivist hefur alltaf verið til staðar en mest ástundun síðustu 20 ár og þá einnig skíðaganga í skíðasporum og um hálendið, Kjöl og Sprengisand, Vasagangan og Vatnajökul að sumri. Áður en hann flutti alfarið norður var Esjan í uppáhaldi, gekk þó ekki upp daglega en frekar tvær ferðir í röð upp og niður eða með 6-8 lítra af vatni í bakpokanum sem var að mestu hellt niður á toppnum. Þóroddur gekk talsvert með gönguhópi sem kallaði sig „Tindáta“ og hafði það markmið að ganga á sem flesta tinda í bók Ara Trausta og Péturs Þorleifssonar, Íslensk fjöll, gönguleiðir á 151 tind, en á enn þá eftir rúmleg 30 toppa á þeim lista. Árlega er þriggja til fjögurra daga ganga með fyrrum vinnufélögum. Þóroddur var fararstjóri í nokkrum dagsferðum FÍ frá Reykjavík og hópstjóri í ferðum FÍ á Hvannadalshnjúk. Erlendis standa upp úr ganga upp í grunnbúðir Everest (5600 m) og um Simien þjóðgarðinn í Eþíópíu með toppinn Ras Dashen 4620 m. 

Sumarið 2022 tekur Þóroddur að sér áhugaverða gönguferð um gíga Kröflugosa, jarðfræði og hraunmyndanir. Þar þekkir hann vel til sem jarðfræðingur. 

Í dag eru gönguferðir um Mývatnssveit ofarlega á blaði en endalaust er hægt að fara nýjar slóðir. Þóroddur er nýkominn í Þorsteinsskálanefnd og gönguleiðanefnd FFA.