Una Þórey Sigurðardóttir

Una Þórey SigurðardóttirUna er fædd á Siglufirði, alin upp í Hjaltadal í Skagafirði og búsett síðan 1985 á Akureyri. Sem unglingur í sveitinni las hún bókina Hrakninga og heiðavegi spjaldanna á milli. Þrátt fyrir að þetta væru hinar mestu hörmungarsögur vöktu þær hjá henni einlægan áhuga á heiðarvegum og öræfum. Una fór í fyrstu alvöru gönguferðina sína ca. 16 ára. Í þeirri ferð sýktist hún alvarlega af fjallabakteríu og hefur ekki náð sér síðan. Hún stundar útivist allt árið, göngur á tveimur jafn fljótum og eða skíðagöngur.

Unu finnst gaman að grúska í sögnum og þjóðsögum er tengjast stöðunum sem hún fer um. Svo er hún mjög sammála Tómasi Guðmundssyni hvað varðar örnefni „Landslag væri lítils virði ef það héti ekki neitt“.

Hún fór fyrst sem fararstjóri fyrir FFA sumarið 1993 (algerlega óvart) og hefur farið ófáar ferðir síðan, einkum um Tröllaskagann. Hún hefur líka verið fararstjóri fyrir Ferðafélagið Útivist á Trölla- og Gjögraskaga. 

Una er sjúkraliði og starfar á Sjúkrahúsinu á Akureyri - Kristnesspítala. Auk þess er hún búfræðingur - en það vita færri.

Kjörlendi Unu er Tröllaskaginn, dalir hans og fjöll. Fornar alfaraleiðir, eyðibyggðir, flórar og jarðfræði Tröllaskagans eru sérlegt áhugamál hennar.