Fjallahjólahópur hjá FFA

Fjallahjólahópur FFA vor 2021

Ekki náðist lágmarksþátttaka í fjallahjólahópinn. Við erum samt ekki alveg af baki dottin og höfum breytt verkefninu aðeins ef einhverjir vildu prófa það þannig. Verkefnið verður því með eftirfarandi hætti:

Byrjað verður 27. maí og fram til 24. júní, alls fimm skipti, sjá nánara plan hér.

Farið verður í fimm skipulagðar ferðir undir leiðsögn fararstjóra. Verkefnið hefst með kennslu og ferð innanbæjar, síðan taka við ferðir og lýkur verkefninu með sólstöðuferð. Þátttakendur koma á eigin bílum og þurfa einnig að geta ferjað hjól.

Verð: 18.500 kr. fyrir félaga í FFA. Makar félagsmanna greiða sömu upphæð. Fyrir aðra bætist félagsgjald FFA við sem er 8.700 kr. Þá þarf að skrá sig í félagið hér. Þátttökugjald verður innheimt þegar skráningu lýkur, krafa verður stofnuð í netbanka. Innifalið er ein ferð með sérútbúinni kerru fyrir hjól.

Fjallahjólaverkefnið verður byggt upp sem æfingar, styttri og lengri ferðir í bland við kennslu.
Þátttakendur þurfa ekki að hafa mikla reynslu af fjallahjólreiðum en miðað er við að fólk kunni að hjóla og hafi áhuga á hjólreiðum utan alfaraleiða og eigi eða hafi aðgang að fjallahjóli og lágmarks öryggisbúnaði svo sem hjálmi og hönskum.  Gert er ráð fyrir að fólk sé á fjallahjóli sem er í góðu lagi og með dempurum a.m.k. að framan. Auk ferða verður farið yfir það sem hafa þarf í huga við ástand hjóla þegar farið er í ferðir sem og þegar komið er heim.

Markmið verkefnisins er að þátttakendur læri inn á ferðamennsku á hjóli og fái reynslu af styttri og lengri dagsferðum á fjallahjóli. Í hópnum er miðað við að allir fái að njóta sín, vera saman, læra og hafa gaman. Haldið verður vel utan um hópinn meðal annars með öruggri fararstjórn og leiðsögn, fésbókarsíðu og góðri upplýsingagjöf.

Umsjón með verkefninu og fararstjórar: Guðrún E. Jakobsdóttir og Unnur Ósk Unnsteinsdóttir.

Þátttakendur ferðast á eigin ábyrgð. FFA tryggir hvorki farþega sína né farangur þeirra og hvetur fólk til að kynna sér eigin heimilistryggingar eða kaupa ferða- og slysatryggingu.

Lágmarksfjöldi er 12 þátttakendur og hámarksfjöldi 18.

Stutt myndbandskynning

Skráningu lýkur 26. maí og verkefnið hefst 27. maí. Muna að taka fram hvaða hópur (Fjallahjólahópur). Hægt er að beina fyrirspurnum á netfangið ffa@ffa.is svo og hringja í síma 462 2720 milli kl. 14 og 17. Fararstjórar svara einnig fyrirspurnum.

SKRÁNING