- 48 stk.
- 02.08.2013
Lagt var af stað kl 8:10 og ekið í Varmahlíð þar sem leiðsögumaður okkar , Hjalti Pálsson bættist í hópinn auk nokkurra þátttakenda í ferðinni. Áfram var haldið inn að Þorljótsstöðum og ekið upp fjallveginn sem liggur áleiðis í Laugafell og að fremra Stafnsvatni þar sem farið var úr bílnum. Þaðan var svo lagt af stað í sól og blíðskaparveðri og gengið að brún Vesturdals þar sem við skoðuðum Háabaðstofu sem er þar efst í brúninni. Þá var farið niður Runubrekkuna að Runukvísl sem auðvelt var að vaða yfir í Hraunþúfutangann þar sem hellisskútinn Bjartabaðstofa er. Því næst var gengið inn í Hraunþúfugilið þar sem staldrað var við gengt hinum tignarlega Hólófernishöfða og hlítt á frásagnir og mergjaðar sögur Hjalta fararstjóra. Að því loknu var gengið út Hraunþúfutangann og vaðið yfir Hraunþúfuána og stefnt á rústir Hraunþúfuklausturs þar sem við ætluðum að snæða máltíð dagsins. Var nú farið að þykkna heldur í lofti og einstöku regndropi að falla sem fylgt var eftir með þrumum og eldingum. Stóðst það á endum að þegar við tókum upp okkar langþráðu máltíð steyptist yfir þvílíkt steypiregn að annað eins hafði ekki sést. Fór allt á flot á svipstundu og var þá allt tekið saman og gengið áfram í regndembunni niður með Runukvíslinni. Að lokun stytti upp og þornaði fljótt í hlýrri golunni og voru skoðaðar rústir fofnbýlis og fengum við langþráða hressingu í fornum seltóftum. Var nú haldið áfram og Runukvíslin vaðin á Lambamannavaði og er þá komið á gamla bílaslóð sem gengin var að Þorljótsstöðum þar sem bíllinn beið okkar og var klukkan þá 19:30. Gangan tók 7 klst og 20 mín og vegalengdin 14,1 km.
Leiðsögumaður: Hjalti Pálsson frá Hofi. Fararstjóri og myndir: Grétar Grímsson