- 52 stk.
- 03.09.2015
Héðinsfjörður- Ólafsffjörður. Frekar var fáliðað í gönguna Héðinsfjörður Ólafsfjörður og grunar mig að veðrið um morguninn hafi ráðið miklu þar um. Spáin var að það myndi stytta upp um hádegi sem gekk algerlega eftir. Muna að horfa á veðurfréttir ekki verða eftir heima og missa af góðri ferð. Vorum fjögur sem lögðum í ferðina og sáum ekki eftir því. Blaut var leiðin út í Vík en engin vandræði. Í slysavarnarskýlinu drukkum við og undum blauta sokka. Veðrið bara batnaði og batnaði þegar á daginn leið. Þegar við gengum upp Víkurdalinn var komin blíða og helst hún allan daginn. Gangan upp í Rauðskörð gekk vel, vorum á snjó sem gott var að fóta sig í. Þegar upp í Rauðskörð var komið blasti Ytrárdalur baðaður sólskini við okkur og fjöllin í kring. Gangan niður að Kleifum þótti okkur vera þægileg hvorki grýtt né blaut. Þakka samferðafólki fyrir góðan dag. Myndir og fararstjórn Konráð Gunnarsson.