Bræðrafell

Bræðrafell
Gistipláss
16 manns
Staðsetning
Hálendið
Gjaldskrá
4.500 / 6.500 kr
GPS staðsetning:
65° 11.286'N, 16° 32.285'W
Hæð yfir sjávarmáli
720 m
Aðgengi
Aðeins gangandi
Skálavörður
Nei

BÓKA SKÁLANN

Staðsetning: Bræðrafell er í tæplega 7 km fjarlægð í beinni loftlínu í vestur frá uppgöngunni á vestanverðri Herðubreið, þar sem jeppaslóð endar. Skálinn stendur í 720 m hæð yfir sjó og er suðaustan við samnefnt fell syðst í Kollóttudyngju.

Lýsing á skála: Gistirými er fyrir 16 manns, svefnpokapláss í kojum. Í skálanum eru eldhúsáhöld, sólóvél og gashella. Kamar. Einnig er 220 v rafmagn (inverter) fyrir hleðslu á símum, myndavélum og tölvum. Ekkert vatnsból er á staðnum, en regnvatni er safnað af þaki skálans í brúsa yfir sumartímann. Yfirleitt er farið í skálann um mánaðarmótin júní-júlí til að undirbúa hann fyrir sumarið, í þeirri ferð er vatnssöfnun af þaki hússins tengd. Fólki er þó ráðlagt að gera almennt ráð fyrir að hafa drykkjarvatn meðferðis sér til öryggis í ferðum um Ódáðahraun. Athugið að skálinn er læstur og því þarf að vera búið að panta gistingu og fá talnakóðann að lyklaboxinu sem er við útidyrnar áður en ferð þangað hefst.

Gönguleiðir og umhverfi skálans: Margt er að sjá í nágrenni skálans, s.s. mikilfenglegar hraunmyndanir í Kollóttudyngju og Bræðrafelli. Þá eru ummerki um gríðarlega eldvirkni á Flötudyngju, sem gengið er yfir á leiðinni frá Herðubreið, miklir hraungígar, hraunreipi og jarðföll. Úr Flötudyngju rann meðal annars Lindahraunið sem er austan og norðan Herðubreiðar.

Frá jeppaslóðanum sem endar við uppgönguna sem er á vestanverðri Herðubreið er greiðfær stikuð leið, um 8 km í vestur að skálanum.

Einnig er um 19 km stikuð leið frá Herðubreiðarlindum í Bræðrafell. 

Frá Bræðrafelli er stikuð leið suður í Dreka sem er um 20 km. Til vesturs er unnt að ganga í skálann Dyngjufell í Dyngjufjalladal en þangað er þó ekki stikuð leið og yfir torfært apalhraun að fara hluta leiðarinnar. Vel má hugsa sér að gista í Bræðrafelli fyrir þá sem hafa hug á að að ganga á Herðubreið. Hafa ber í huga að þetta eru fáfarnar slóðir þarna syðst í Ódáðahrauni og því um að gera að gera ferðaáætlun, láta vita af ferðum sínum, huga vel að almennum búnaði og hafa nægt vatn meðferðis.

Byggingarsaga: Árið 1977 reisti Ferðafélag Akureyrar skála við Bræðrafell. Viðhald var komið á skálann og hann stóðst illa kröfur nútímans. Þar gátu 12 manns gist en þröngt var um fólk, kojur stuttar og lítið pláss fyrir farangur. Því var ráðist í að byggja nýjan skála í janúar 2016. Hann var síðan fluttur á staðinn haustið 2016 og var vígður formlega helgin 9. – 11. september 2016. Í sömu ferð var gamli skálinn fluttur til byggða. Um smíði og flutning skálans má lesa í riti FFA, Ferðir 2017. 

Umfjöllun Hringbrautar um Þorsteinsskála og Bræðrafell.  

BÓKA SKÁLANN

Aðstaða í/við skála
Staðsetning lykla
Skrifstofa FFA, í Dreka og Þorsteinsskála við Herðubreiðarlindir
Símanúmer
462 2720