- Skrifstofan
- Félagið
- Ferðir og viðburðir
- Hreyfiverkefni
- Skálar
- Myndir
25.–28. júní
Fararstjórar: Ásdís Skúladóttir og Birna Guðrún Baldursdóttir
Gangan hefst í Borgarfirði eystri fimmtudaginn 25. júní kl. 10 og lýkur á Seyðisfirði síðdegis 28. júní. Þeir sem vilja skilja bíla eftir á Seyðisfirði geta fengið far yfir í Borgarfjörð að morgni 25. júní. Aðrir hittast í Bakkagerði, Borgarfirði. Ferðin er trússuð, þannig að þátttakendur bera aðeins léttan dagspoka meðan á göngu stendur.
Göngusvæðið Víknaslóðir nær frá Borgarfirði eystri yfir til Loðmundarfjarðar. Svæðið er einstakt fyrir stórbrotna náttúrufegurð þar sem víkur, firðir, líparítfjöll og tignarleg fjallasýn mynda ógleymanlegt landslag. Gönguleiðirnar eru fjölbreyttar og friðsælar og þangað liggur leiðin í nærandi og skemmtilega kvennaferð með trússi.
Ferðin sameinar útivist og sjálfsrækt. Á dagskránni eru gönguferðir, hugleiðslur, léttar jógaæfingar, sjálfsþekkingarleikir, köld böð og sameiginlegir morgun- og kvöldverðir. Mikilvægt er að mæta verkefnum ferðarinnar með opnum og jákvæðum huga og njóta ferðalagsins til fulls.
Gist verður þrjár nætur í skálum Ferðafélags Fljótsdalshéraðs á Víknaslóðum; í Breiðuvík, Húsavík og Loðmundarfirði, þar sem aðstaða er frábær.
Verð: 49.500 / 58.500 kr. Innifalið: Gisting í þrjár nætur og fararstjórn.
Greiða þarf staðfestingargjald vegna skráningar í þessa ferð kr. 10.000 í síðasta lagi 14 dögum eftir að krafa er stofnuð í netbanka. Þessa ferð þarf síðan að greiða að fullu fyrirfram, þremur dögum fyrir brottför. Krafa verður stofnuð í netbanka.
Fararstjórar sjá um matarinnkaup. Trúss, matur og bílferð verður innheimt sérstaklega einum degi fyrir ferð. Trúss kostar 10.000 kr. á mann.
Dagskrá ferðarinnar:
1. d., fimmtudagur: Borgarfjörður – Breiðavík
Gengið er frá Kolbeinsfjöru um Brúnavíkurskarð að björgunarskýli í Brúnavík. Þá er farið yfir Brúnavíkurá og gengið áfram um mela og gróið land yfir Súluskarð að Breiðavíkursskála, þar sem gist verður eina nótt.
Vegalengd: 13–14 km. Gönguhækkun: um 900 m.
2. d., föstudagur: Breiðavík – Húsavík
Frá Breiðuvík er gengið fram hjá bæjarrústum í Litluvík, upp Litluvíkurdal, um Dalsvarp og yfir Herjólfsvíkurvarp að Gunnhildardal. Þaðan er haldið að Húsavíkursskála, þar sem gist er eina nótt. Mjög falleg gönguleið, þó sums staðar brött.
Vegalengd: 11 km. Gönguhækkun: um 700 m.
3. d., laugardagur: Húsavík – Loðmundarfjörður
Gengið er upp á Nesháls og Grjótbrún þar sem útsýnið yfir Loðmundarfjörð og að Dalatanga er stórkostlegt í góðu skyggni. Þaðan er haldið yfir Hrafnatinda og gengið með þeim að Hraundal, yfir Hrauná og niður að Klyppstöðum í Loðmundarfirði, þar sem gist verður í glæsilegum skála.
Vegalengd: 14–15 km. Gönguhækkun: um 700 m.
4. d., sunnudagur: Loðmundarfjörður – Seyðisfjörður
Gengið er út sunnanverðan Loðmundarfjörð og upp á Hjálmárdalsheiði. Á leiðinni verður komið við á Sævarenda, þar sem gestir fá að kíkja á æðavarpið og hitta æðabændur.
Þegar komið er á brúnir Seyðisfjarðar er haldið niður brattar hlíðar að vegi þar sem bílar bíða hópsins. Að lokum er ekið til Seyðisfjarðar þar sem hópurinn nýtur góðrar máltíðar saman (ekki innifalið í verði).
Vegalengd: 12–13 km. Gönguhækkun: um 670 m.
Hámarksfjöldi: 16 konur.
Ásdís og Birna þekkja svæðið vel og hafa gengið mikið þar um. Þær hafa verið skálaverðir í Loðmundarfirði síðustu tíu sumur og einnig eitt sumar í Breiðuvík. Það er því mikil tilhlökkun að bjóða ykkur með í þessa einstöku ferð og njóta stórbrotinnar náttúru Austfjarða í góðum hópi kvenna.
Athugið: Veður og aðstæður geta haft áhrif á leiðarval, sem auðvelt er að breyta ef þörf krefur.