Toppaferð fyrir fjallaskíðafólk 5. júní: Útburðarskálarhnjúkur

Fjallaskíðaferð á Útburðarskálarhnjúk 1172 m.

Brottför kl. 8 á einkabílum frá FFA, Strandgötu 23.
Fararstjórn: Kristín Irene Valdemarsdóttir og Jón Marinó Sævarsson
Verð: 6.500/4.500. Innifalið: Fararstjórn.
Keyrt til Grenivíkur og áfram á grófum malarvegi (einungis fært jeppum eða fjórhjóladrifnum bílum) út með Látraströnd að eyðibýlinu Svínárnesi. Þaðan eru skíðin borin á bakinu upp í snjólínu (um 200 m.) svo er skinnað áfram upp Svínárdal, í Útburðarskál og þaðan upp á hnjúkinn. Þaðan er skíðað sömu leið niður. Heildarhækkun er um 1100 m.

Þátttakendur þurfa að mæta með allan búnað; hjálm, ýli, snjóflóðastöng og skóflu. Best er að hafa bakpoka með skíðafestingum. Ferðin er miðuð við þá sem kunna á skíði og eiga eða hafa aðgang að fjallaskíðabúnaði. Þátttakendur þurfa að hafa reynslu af fjallaskíðamennsku, kunna að beita skíðunum í fjölbreyttum aðstæðum (hjarni, lausamjöll, vindbörðum snjó og í hliðarhalla). Áætlaður tími 7-8 klst. og því skilyrði að koma vel nestaður. Takmarkaður fjöldi.

Þátttakendur ferðast á eigin ábyrgð. FFA tryggir hvorki farþega sína né farangur þeirra og hvetur fólk til að kynna sér eigin heimilistryggingar eða kaupa ferða- og slysatryggingu.