Næsta ferð 23. júlí: Kinnarfell - síðdegi í sveit

Kinnarfell - síðdegi í sveit

Brottför kl. 12 á einkabílum frá FFA, Strandgötu 23.
Fararstjórn: Erla Sigurðardóttir
Gengið verður á Kinnarfell frá Yztafelli II eftir slóða suður á móts við Fellssel, þaðan austur á brún og eftir melum og mólendi norður háfellið. Á háfellinu verður tekin ákvörðun um hvort gengið verður norður af Fellinu eftir mel austan Hólsgerðisdals og svo suður með þjóðvegi eða farið vestur af Fellinu niður skriður sem féllu vorið 2013. Leiðin ræðst af áhuga gönguhópsins og hvort blautt verður á. Gangan endar í Yztafelli. Af Kinnarfelli er afar víðsýnt. Á leiðinni verður stuttlega rifjuð upp saga Helgu Sörensdóttur en sumarið 2022 voru gengnar raðgöngur í minningu hennar. Af Kinnarfelli sér yfir nánast allt „sögusvið“ ævi Helgu, en ævisöguritarinn Jón Sigurðsson bjó á Yztafelli. Auk þess verður sagt frá náttúru, fjallasýn og mannlífi og sérstaklega fjallað um skriðuföll vorið 2013 og uppgræðslu í kjölfar þeirra.

Vegalengd um 12 km. Gönguhækkun er um 200 metrar. Ekki þarf að gera ráð fyrir að vaða læki eða bleytur.
Verð: 2.000/3.500 kr. Innifalið: Fararstjórn.

Þeim sem hentar betur að mæta beint á upphafsstað göngunnar (Yztafell II, lagt af stað þaðan kl. 12.45) er bent á að hafa samband við skrifstofu FFA varðandi greiðslu.
Skrifstofan er opin virka daga kl. 14:00-17:00. Netfang: ffa@ffa.is / sími: 462 2720

Áætlaður tími ferða er aðeins viðmið og fer eftir hópnum og aðstæðum hverju sinni.

Búnaðarlisti